Loading Events

« All Events

  • This event has passed.

Umhverfa

14 janúar5 febrúar

Verkið Umhverfa er vídeó- og hljóðinnsetning eftir Siggu Björgu Sigurðardóttur og Mikael Lind þar sem síbreytilegur og þyngdarlaus hljóðheimur umlykur ágengan myndheim. Lögmál hefðbundinnar framvindu verka víkja og hvikul verkin fá að kallast á og hverfast um hvort annað. Í rýminu birtast myndir sem ferðast á milli raunveruleika og abstraksjónar og með síbreytilegu hljóðverkinu skapast rými án upphafs eða endis.

Samhliða innsetningunni sýnir Sigga Björg nýjar teikningar á pappír og viðarplötur. Verkin eru unnin samhliða vídeóverkinu og tilheyra sama myndheimi þar sem myndefnið fetar einstigið milli raunsæis og abstraksjónar, veruleika og fáránleika, frásagnar og hreinnar fagurfræðilegrar upplifunar.

Sigga Björg Sigurðardóttir (f. 1977) útskrifaðist úr Myndlistadeild LHÍ árið 2001. Eftir útskrift fluttist Sigga Björg til Glasgow í Skotlandi þar sem hún útskrifaðist með meistaragráðu í myndlist frá The Glasgow School of Art árið 2004. Síðan þá hefur hún sýnt í söfnum og galleríum víða um heim. Af einkasýningum má nefna Kling og Bang gallerí (Reykjavík), Teckningsmuseet (Svíþjóð), Hafnarborg (Hafnarfjörður),Yancey Richardsson gallerí (New York), Galerie Adler (Frankfurt) ofl. Af samsýningum má nefna Nordiska Akvarellmuseet (Svíþjóð), CCA (Center for Contemporary Art, Glasgow), Göteborgs Konsthall (Svíþjóð) ofl.  Verk Siggu Bjargar er að finna í mörgum opinberum söfnum hérlendis og erlendis eins og Listasafni Reykjavíkur, Listasafni Íslands, Hafnarborg, Nordiska Akvarellmuseet (Svíþjóð), Zabludowicz Art Trust (London) ofl. Fyrir frekari upplýsingar endilega heimsækið heimasíðu Siggu Bjargar: www.siggabjorg.net

Mikael Lind er tónskáld sem fæst við tilraunakenndra ambient tónlist með klassískum áhrifum. Hann hefur gefið út nokkrar breiðskífur, bæði sjálfstætt og í samvinnu við aðra. Mikael er þekktur fyrir að gera tilraunir og prófa nýtt efni á tónleikum sínum þar sem hann hefur einnig mikinn áhuga á fræðilegri hlið tónlistar og tjáningarmáta þess. Hljóðið fyrir innsetninguna í Ásmundarsal er ennþá óbeislaðra þar sem hljóðheimurinn ber keim af bæði hávaðatónlist og nútímaklassík.