Jóladagatal 2022

Nú er kominn fyrsti desember og þar með hefst okkar árlega jóladagatal. Á hverjum degi fram að jólum munum við birta eitt listaverk, jafnvel sýningu. Fylgist með dagatalinu til þess að birta upp skammdegið.  Við uppfærum jóladagatalið daglega hér á heimasíðu okkar og einnig á instagram og facebook síðum okkar.

______________________________________________________________________________________

1. desembeR

Gerður Helgadóttir, Svif, 1952. Safneign Gerðarsafns. Málmskúlptúr, 60 x 51 x 40 cm.
Ljósmynd birt með leyfi Gerðarsafns, tekin ca. 1953 ljósmyndari óþekktur

Fyrsti desember er tileinkaður Gerði Helgadóttur og verkinu hennar Svif frá árinu 1952. Verkið má nú finna til sýnis á sýningunni Geómetría í Gerðarsafni þar sem má sjá verk íslenskra listamanna sem voru í hringiðu módernisma og framúrstefnu í París á sjötta áratugnum. Módernískar listhreyfingar spruttu úr frjóum jarðvegi mikilla samfélagslegra breytinga með tæknilegum framförum, pólitískum óróa og þéttbýlismyndun. Gerður Helgadóttir (1928-1975) hélt frá Flórens til Parísar árið 1949 og sótti nám við listaháskólann Académie de la Grande Chaumière. Á fyrstu árum sínum í París þróaði Gerður Helgadóttir verk sín frá efnismiklum, kúbískum skúlptúrum til fíngerðra járnskúlptúra þar sem geómetrísk form snúast um rýmið innan verksins. 

______________________________________________________________________________________

2. desembeR

Jóna Hlíf Halldórsdóttir, Eftir harðindin kemur árgæskan, 2021. Álplata, pólymálning og sprey. Stærð: 130x100cm
Ljósmynd birt með leyfi listamanns.

Þar sem skammdegið fer senn að ná hámarki og fólk nú þegar önnum kafið við jólaundirbúninginn. En ekki örvænta því eins og verk Jónu Hlífar minnir okkur á þá kemur árgæskan eftir harðindin.  Verkið var sýnt í Hofi á Akureyri sem hluti af sýningunnni Vetrarlogn árið 2021 sem samanstóð af 8 textaverkum eftir Jónu Hlíf. Verkið fjallar um upplifun okkar á veðrinu sem á sér ekki aðeins stað utandyra heldur einnig í orðum, minningum og hugsunum okkar.  

______________________________________________________________________________________

3. desembeR

Erró, Matarvíðátta, uppr. 1964 prent 1974. Safneign Listasafns Reykjavíkur. Ljósmynd birt með leyfi listsafnsins.
Offset prentun. Stærð: 64 x 91 cm

Fyrir marga snúast hátíðirnar um mat og kræsingar til þess að undirbúa, elda eða baka og njóta ásamt fjölskyldu og vinum. Verk Erró Matarvíðátta frá 1964 fangar þá gnægt af framboði á allskyns sælgæti og réttum sem standa til boða yfir hátíðarnar. Erró minnir okkur einnig á það offramboð og óhóflega neyslu sem ráða ríkjum á þessum tíma í vestrænum heimi. 

______________________________________________________________________________________

4. desembeR

Lukas Kühne, Tvísöngur, 2012. Steypuskúlptúr, mismunandi stærðir ca. 30 fermetrar. 
Ljósmynd birt með leyfi listamanns. Ljósmyndari Gunnar Gunnarsson.

Tvísöngur er öllum opinn. Verkinu var valinn staður á sléttum bala á kyrrlátum stað í fjallshlíðinni með útsýni yfir Seyðisfjörð. Verkið býður upp á hljóðræna upplifun sem virkja má til söngs og hljóðtilrauna einstaklinga og hópa í einveru, í samsöng, til eigin yndisauka eða fyrir áheyrendur. 

Hver hvelfing fyrir sig hefur eigin tíðni sem samsvarar einum tóni í fimmundarsöng og virkar sem magnari fyrir þann tón. Tvísöngur virkar þannig sem náttúruleg umgjörð fyrir íslensku tvísöngshefðina og er bæði sjónræn og hljóðræn útfærsla á henni. Tvísöngur fangar andrúmsloft og kyrrð heilagra bygginga sem margar hverjar óma af söngvum kóra á þessum árstíma. 

Verkið Tvísöngur var unnið í samvinnu við Skaftfell.

______________________________________________________________________________________

5. desembeR

Ingibjörg Sigurjónsdóttir, Við verðum að trúa, 2022. Pappír, mismunandi stærðir. 
Ljósmynd birt með leyfi listamanns. Ljósmynd Vigfús Birgisson

Svanurinn er aldagamalt tákn og er hlaðinn merkingu. Hann er að finna í öllu frá grískri goðafræði, barnabókmenntum og til heiðinna og samtíma trúarbragða svo eitthvað sé nefnt. Svanurinn hefur verið tákn fyrir riddaralega ást en getur einnig táknað einsemd og dauða. Við verðum að trúa er listaverk dagsins og var það til sýnis á árinu í Kling og Bang á einkasýningu Ingibjargar Sigurjónsdóttur, De rien. Verkið er gert úr ljósritunarpappír og sovésku jólaskrauti í svanslíki, sem listamaðurinn keypti á markaði í St. Pétursborg árið 2014.  Bókverkið, Heiglar hlakka til heimsendis, var gefið út samhliða sýningunni. Útgáfuna er að finna í Kling & Bang, hjá Tunglinu forlagi og er enn fáanlegt í nokkrum bókabúðum. Bókin kom út bæði á íslensku og ensku. 

______________________________________________________________________________________

6. desembeR

Arnar Ásgeirsson, Ör, 2021. Götuskilti úr bronsi, mismunandi stærðir. Safneign Listasafns Reykjavíkur.  
Ljósmynd birt með leyfi listamanns. 

Í Goðahverfinu er að finna listaverk gert af Arnari Ásgeirssyni, hugsað sem kennileiti fyrir hverfið. Verkið sýnir mistiltein í formi örvar sem banaði Baldri. Frekari upplýsingar um verkið er að finna í smáforriti Listasafns Reykjavíkur um útilistaverk „Reykjavik Art Walk“. Fyrir þá sem ekki þekkja hverfið þá er það að finna í Skólavörðuholti sunnan Skólavörðustígs og er nefnt Goðahverfi vegna tengsla götunafna við goðafræðina og nöfn goða og híbýla þeirra eins og þau birtast í Eddu Snorra Sturlusonar. Það vill svo skemmtilega til að mistillteininn vísar til annarrar vestrænnar hefðar sem að tengist jólunum nú til dags. 

______________________________________________________________________________________

7. desembeR

Arna Óttarsdóttir, Gul tjörn, 2022. Bómull, ull, blandað garn. 160 x 120 cm. 
Ljósmynd birt með leyfi i8 Gallerí. 

Listaverkið í dag, Gul tjörn, er textílverk efti Örnu Óttarsdóttir sem var til sýnis í i8 við Tryggvagötu í nóvember á þessu ári, Bráðum, aftur (e. Soon, again). Á sýningunni mátti finna átta ný textílverk, öll handgerð af Örnu í vinnustofunni hennar í Reykjavík. Hún dregur innblástur frá skissubókunum sínum sem eru barmafullar af hugsunum hennar og teikningum. Mikla nánd er að finna í verkum hennar og eru verkin oft túlkuð sem mjög persónuleg og gefa innsýn inn í hugarheim og jafnvel sál listamannsins. Verkið Gul tjörn fangar vel andrúmsloftið fyrir jól áður en fyrsti snjórinn fellur og allt er hálf tómlegt, jafnvel drungalegt, að líta á í borgarlandslaginu. 

______________________________________________________________________________________

8. desembeR

Nermine El Ansari, Bjarnarfjörður 3, 2021. Vatnslitur, blýantur and blek á pappír. 14.8cmx21cm  
Ljósmynd birt með leyfi listamanns. 

8. desember er tileinkaður Nermine El Ansari sem er egypskur listamaður, sem fæddist í Frakklandi, en býr nú og starfar í Reykjavík. Á ferli sínum hefur hún skoðað félagslega landafræði og rannsakað þá tvíhyggju sem er að finna í manngerðu og náttúrulegu landslagi. Einnig kannar hún sameiginlegt minni með persónulegu jafnt sem myndefni sem hún hefur skapað af handahófi. Verkið Bjarnafjörður 3 er teiknað þegar listamaðurinn hafði aðsetur á Vestfjörðum. Nermine teiknar og málar hvert sem hún fer þar sem það hjálpar henni að skrásetja upplifanir sínar á ferðlögum.  

Listaverk Nermine hafa verið sýnd víðsvegar innanlands sem og alþjóðlega. Nýverið sýndi hún í Marseille, Frakklandi, Hafnarborg og á LungA hátíðinni 2022. Hún vinnur þvert á miðla svo sem með innsetningum, myndbandsgerð, teikningum og ljósmyndun. 

______________________________________________________________________________________

9. desembeR

Einar Falur, Daglegar verðurlýsingar frá 1. desember to 7. desember, 2022.  Ljósmynd. 
Birt með leyfi listamanns.

Einar Falur myndlistamaður sem var nýverið gestalistamaður í Vatnasafni í Stykkishólmi er listamaður dagsins. Hann hefur síðan í júní skrásett myndræna veðurdagbók og mun halda því áfram þar til júní 2023. Reglulegar veðurlýsingar Einars Fals eru hluti af Veðurneti heimsins (e. World Weather Network). Hann ljósmyndar og skrásetur veðrið í hádeginu dag hvern með opinberri veðurskráning, með samanburö við veðurlýsingar Árna Thorlacíusar í Stykkishólmi 170 árum fyrr.  Hann gerði nýja seríu af verðurlýsingum 1.-7. desember fyrir Jóladagatal KÍM, þið finnið alla seríuna á instagram og faebook síðum okkar.

Myndlistarmiðstöð hefur síðan í vor verið í liði með 27 öðrum lista- og menningarstofnunum víðsvegar um heiminn sem mynda saman World Weather Network, Veðurnet heimsins, samskiptanet „veðurstöðva“.  Myndlistarfólk og rithöfundar hafa sent frá sér „veðurfréttir“ í formi hugleiðinga, sagna, mynda og þankabrota um veðurfar á heimaslóðum þeirra og okkar sameiginlega loftslag, sem saman munu svo skapa heilan klasa radda og skoðana á nýjum, alþjóðlegum vettvangi. 

______________________________________________________________________________________

10. desembeR

Styrmir Örn Guðmundsson, Stjörnuliljur, 2020. Akrílmálning, latexmálning, viður og stál. 600 x 350 cm. Verkið var gert fyrir útilistaverkasýningu Listasafns Reykjavíkur – Haustlaukar II. Ljósmynd birt með leyfi listamanns.

Jólin snúast um að eyða tíma með fjölskyldu og vinum. Við gefum hvor öðru gjafir til þess að sýna hversu mikið við metum hvert annað og hversu þakklát við erum fyrir fólkið okkar. Listaverk dagsins er einmitt tileinkað fjölskyldumeðlim. Stjörnuliljur er veggmálverk sem að Styrmir Örn tileinkaði dóttur sinni áður en að hún var fædd. Við gerð verksins þá var listamaðurinn að velta fyrir sér hvaða stjörnumerki dóttir sín yrði. Hugmyndir Styrmis um stjörnumerki eru ljóðrænar og segir hann sjálfur að líkaminn geti ferðast úr einu stjörnumerki í annað. En þó varar hann við því að ferðalagið sé tímafrekt en á meðan að stjörnur eru að finna á himni þá reddast það.  Verkið er einnig virkur klifurveggur sem skartar stjörnumerkjum og því getur maður bókstaflega ferðast um þau með klifri.

______________________________________________________________________________________

11. desembeR

Renāte Feizaka and Klāvs Liepiņš, Potato People, 2021. Blandaðir miðlar, innsetning og myndband. Ólíkar stærðir. 
Birt með leyfi listamanna. Ljósmyndari innsetningu: Vigfús Birgisson.

Í nótt kemur fyrsti jólasveinninn til byggða og eins og margir þekkja þá fá óþekk börn kartöflur í skóinn. Renāte Feizaka and Klāvs Liepiņš, starfa og búa á Íslandi og eru myndlistarteymi sem að árið 2021 sýndu verk sem var tileinkað kartöflum, eða svo má segja. Hinsvegar er vert að minnast á að sýningin hafði ekkert með jólasveina og óþekka krakka að gera! Þvert á móti, þá er kartaflan birtingarmynd dyggðar og samfélagsins í hugum Renate og Klavs. 

Innsetningin Potato People var fyrst sýnt í samsýningunni Eins og þú ert núna var ég einu sinni / Eins og ég er núna, svo munt þú verða, sem að samanstóð af sameiginlegum verkum Klavs og Renate og svo Raimonda Sereikaitė-Kiziria. Sýningastjóri var Katerina Spathi. 

 

______________________________________________________________________________________

12. desembeR

Elísabet Brynhildardóttir, Á tólfta tíma (til minningar um Jesústeininn), 2020. Steypuskúlptúr, 8m langt. 
Ljósmynd birt með leyfi listamanns. Ljósmynd tekin af Pétri Thomsen. 

Verkið Á tólfta tíma (til minningar um Jesústeininn) er tíu metra skúlptúr- og þáttökuverk staðsett á mörkum flóðs og fjöru og er ýmist undir vatni eða ekki. Titill verksins vísar í takt sjávarfallanna, en á tólf tíma fresti flæðir sjórinn yfir verkið og á hárréttu augnabliki má ganga útá það og upplifað þá töfra að ganga á vatni. Verkið sem slíkt virkjast þannig einungis þegar gengið er útá það á þessu hárfína augnabliki. 
 
Á tólfta tíma (til minningar um Jesústeininn) er byggt á sögu frá barnæsku föðurs Elísabetar. Nálægt heimili hans útí sjó lá stór steinn sem krakkarnir kölluðu Jesústeininn. Hann var þeim töfrum gæddur að efsti punktur steinsins snerti efsta punkt sjávarins á flóði. Krakkarnir léku sér að því að róa út að steini rétt fyrir flóð, standa uppá honum og segjast vera Jesú, en frá ströndinni séð litu þau út fyrir að ganga á vatni. Á þessum taktvísu en jafnframt gullnu augnablikum umturnaðist heimur þeirra fyrir krafta náttúrunnar. 

13. desembeR

Guðrún Bergsdóttir, Án titils, 2003. Blandaður textíll og útsaumur.
Birt með leyfi listamanns.  Ljósmyndari Vigfús Birgisson

Listaverk aðventudagatalsins þann 13. desember er litríkur og lífrænn útsaums bræðingur. Listamaðurinn hefur frá árinu 2000 unnið með útsaum í sinni list og hefur hún þróað sérstakan stíl sem vekur aðdáun og höfðar til fólks á ólíka vegu en verk hennar tengjast bæði handverkshefðinni og strangflatar óhlutbundinni list.

Guðrún Bergsdóttir hefur verið tíður myndlistarmaður í sýningardagskrá List án landamæra og sýnt víða um landið frá um 2006. Nýlega hélt hún einkasýningu í Safnasafninu, 2020, og í ár tók hún þátt í samsýningunni Spor og þræðir í Listasafni Reykjavíkur, Kjarvalsstöðum.

______________________________________________________________________________________

14. desembeR

Hugo Llanes and A.W. Strouse, Ideal Bakery (Pasteleria Ideal), 2019. RÝMD, Reykjavík. 
Ljósmynd birt með leyfi listamanns. Ljósmyndari Patrik Ontkovic 

Sýningin Ideal Bakery eftir mexíkanska listamanninn Hugo Llanes og samstarfsmann hans A.W. Strouse, innihélt kökur og aðrar kræsingar sem tákn um gleði og samkomu til þess að hvetja til þvermenningarlegra samskipta. Sýningin var til sýnis í RÝMD í Breiðholti sem Breiðholtsbakarí var áður til húsa og listaverkin vísuðu öll til bakarís í Mexíkó sem heitir Pastelería Ideal.  

Á ferli Hugo hefur hann grandskoðað félagslegan- og pólitískan raunveruleika en hann leyfir sér í fagurfræði sinni að draga innblástur frá þeim raunveruleika. Hann lítur á samfélagslegar kringumstæður, svo sem flutning og offramleiðslu matar, valdaójafnvægis í heiminum og áhrif nýlendutímans á sjálfmyndir einstaklinga frá Suður Ameríku.   

______________________________________________________________________________________

15. desembeR

Guðný Rósa Ingimarsdóttir, án titils – afgangar, 2013. Pappír, saumspor, blýantur, 29,7cm x 21 cm. 
Birt með leyfi listamanns. 

Það myndast óraunverulegt landslag þegar snjórinn hefur fallið og umkringt okkur í fyrsta sinn. Honum fylgir ákveðin kyrrð og minimalísk fegurð. Listaverk dagsins án titils – afgangar eftir Guðný Rósu fangar eftirvæntinguna eftir fyrsta snjónum en minnir áhorfendur einnig á hversu varkár maður stígur niður í fyrsta sinn ósnerta fönn.  

Listaverkið var til sýnis í yfirlitssýningu með verkum Guðný Rósu frá ferli hennar sem var til sýnis árið 2021 á Kjarvalsstöðum. Sýningin opus – oups var yfirlitssýning á verkum Guðnýjar Rósu Ingimarsdóttur undanfarinn aldarfjórðung. Titill sýningarinnar opus – oups er lýsandi fyrir listsköpun Guðnýjar Rósu, umhverfi hennar og eilífa undrun yfir fegurðinni og hinu listræna sem finna má í hversdagslegum hlutum. „Opus“ merkir verk á latínu og „oups“ er hið franska „úps“ en Guðný Rósa býr og starfar í Belgíu í frönsku málumhverfi. Titillinn ber með sér hik og þá undrun sem verður til þegar smáir hlutir sem oft eru lítilsigldir í sjálfu sér verða verk – en verk Guðnýjar Rósu eru gjarnan gerð úr tilfallandi efnivið sem verður á vegi hennar, jafnvel efni sem þegar hefur verið verk en í öðru samhengi. Titillinn er einnig stríðnislegur þar sem mætti halda að um stafarugl sé að ræða 

______________________________________________________________________________________

16. desembeR

Guðlaug Mía Eyþórsdóttir, Hanna Dís Whitehead og Steinunn Önnudóttir. Í öðru húsi, 19. febrúar – 20. mars 2022, Ásmundarsalur, Reykjavík. 
Ljósmyndir birtar með leyfi listamanna. 

Heima er best að vera um jól. Í öðru húsi er samsýning Guðlaugar Míu Eyþórsdóttur, Hönnu Dísar Whitehead og Steinunnar Önnudóttur sem var til sýnis í Ásmundarsal á árinu sem er að líða. Form sýningarinnar er híbýli. Höfundarnir draga upp vistarverur, ytri mörk og innri rými, en birta bara afmörkuð svæði. Verk höfundanna mættust í þessum senum og mynduðu framandlegan efnisheim sem formgerist í kunnuglegum sviðsetningum. Í verkum Hönnu Dísar, Guðlaugar Míu og Steinunnar má finna sameiginlega strengi. Þær vinna gjarnan á mörkum myndlistar og hönnunar en í þessu verkefni mætast þær á landamærum þessara heima, og setja fram sýningu sem tilheyrir hvorugum, heldur bregður sér undan slíkum skilgreiningum. 

Listamennirnir völdu nokkur verk úr sýningunni fyrir jóladagatal KÍM.  

Guðlaug Mía Eyþórsdóttir – Tehetta, efni, tróð, Hanna Dís Whitehead – Borðdúkur, bómull 
Hanna Dís Whitehead – Extruded shoes, keramik, flosteppi 
Steinunn Önnudóttir, Sólarlampi – salix, blek, silkisnúra, pera, perustæði 

______________________________________________________________________________________

17. desembeR

Steina, Of the North, 2001. Vídeo innsetning, mismunandi stærðir. Ljósmynd birt með leyfi BERG Contemporary og Listasafn Íslands.  

Aðfangadagur er handan við hornið og margir hafa skreytt jólatréin sín með jólakúlum og öðru skrauti. Verk dagsins eru einhverskonar kúlur. Það er verk Steinu sem heitir Of the North frá árinu 2001, þar kannar hún möguleika kúluformsins í að framleiða flókna sjónheima. Verkið er í fyrsta sinn sem að listamaðurinn vann með þetta tiltekna form í vídeóverkum sínum. Það er unnið út frá safni Steinu af vídeóupptökum, mestmegnis af náttúru Íslands, yfirborðinu eða því sem skoða má í smásjá. Örverur jafnt sem brim hafsins og bráðnandi ís, berghrun ásamt margs konar náttúrufyrirbærum sem snerta jarðmyndun og niðurbrot á plánetunni okkar. 

Þau hjónin Steina og Woody Vasulka komust í kynni við framsækna listamenn á sviði nýrra miðla er þau bjuggu í New York í kringum 1971. Þetta var tími mikilla tækniframfara á sviði rafrænnar menningar ekki síður en geimvísinda. Steina (Steinunn Bjarnadóttir Briem) og Woody Vasulka voru frumkvöðlar sem unnu saman að margs konar rannsóknum er tengdust myndbandalist og beislun rafrænna boða og síðar stafrænna, þar sem tækin sjálf voru jafnframt notuð í samtali sem miðaði að því að skapa áhugaverð verk þar sem ekkert var slegið af listrænum kröfum. Þetta samtal þeirra við tæki og tól varð einkar áhugavert og gefandi þar sem menntun Steinu í tónlist og tækniþekking Woodys naut sín.  

______________________________________________________________________________________

18. desembeR

Magnús Sigurðarson, Í Lýsistrú ehf, I, II og III, 2022. Hreyfi skúlptúrar. Breytanlegar stærðir. 
Ljósmyndir birtar með leyfi listamanns.

Verkið Í Lýsistrú ehf, I, II og III frá 2022 eftir Magnús Sigurðarson er nú til sýnis á sýningunni Иorður og niður: Samtímalist á norðurslóðum í Hafnarhúsi. Verkið er óður til og upphafning Þorskalýsis sem snákaolíu norður slóða. Allt frá barnæsku hef ég innbyrt mjöðinn, fyrstu 10 árin með ógeði en síðan af fullri tröllatrú. Hlýnun jarðar og ofveiði hefur dregið úr magni þorsks í Norður-Atlantshafi og þannig fléttast sjórinn, veiðin og þorskurinn inn í umhverfisvitund á norðurslóðum. Í verkinu er þorskur, hversdagsleg nytjategund, settur á stall í fjöldaframleiddum lampa. 

Sýningin Иorður og niður: Samtímalist á norðurslóðum opnaði nýlega í Hafnarhúsi. Þar sýna 30 listamenn í hánorðri ný verk sem takast á við þær breytingar sem eru að verða á samfélagi, náttúru og lífríki á norðurslóðum í upphafi 21. aldarinnar og eru að stórum hluta tilkomnar vegna loftslagsbreytinga.

______________________________________________________________________________________

19. desembeR

Yoko Ono, Friðarsúlan, 2007. Útilistaverk staðsett á Viðey. Breytanlegar stærðir.  Safneign Listasafns Reykjavíkur. Birt með leyfi listasafnsins. 

Þar sem jólin eru hátíð ljóss og friðar þá er tilvalið að hafa Friðarsúluna í dagatalinu. Friðarsúlan í Viðey er hugarfóstur myndlistarmannsins, tónlistarmannsins og friðarsinnans Yoko Ono og er hugsuð sem leiðarljós fyrir heimsfrið. Verkið er í formi „óskabrunns“ en á hann eru orðin „Hugsa sér frið“ grafin á 24 tungumálum. Pallurinn er þakinn þrenns konar íslensku grjóti – líparíti, grágrýti og blágrýti.  

„Ég vona að friðarsúlan muni lýsa upp óskir um heimsfrið hvaðanæva að úr veröldinni og veita hvatningu, innblástur og samstöðu í heimi þar sem nú ríkir ótti og ringulreið. Sameinumst um að gera friðsæla veröld að veruleika.“ segir Yoko Ono sjálf um verkið.

Þann 9. október 2007 var listaverkið tileinkað minningu Johns Lennon sem hefði þá orðið 67 ára. Á hverju ári lýsir friðarsúlan frá 9. október (fæðingardegi Lennons) til 8. desember (dánardags hans). Einnig logar ljósið frá vetrarsólstöðum til nýársdags og eina viku að vori. 

______________________________________________________________________________________

20. desembeR

Christoph Büchel, MOSKAN – Fyrsta moskan í Feneyjum, 2015. Innsetning og þátttökulist. Sýningastjóri Nína Magnúsdóttir. Íslenski skálinn á 56. Alþjóðlegu myndlistarsýningunni í Feneyjum. Birt með leyfi sýningastjóra og listamanns. 

Það eru ekki aðeins þeir sem aðhyllast kristinni trú sem að njóta jólanna. Það er alltaf gott að minna sig á þann fjölda trúa sem að eru til í heiminum sem allar eiga sínar eigin hefðir og mismunandi hápunkta yfir vetrartímann. Þar af leiðandi er verk dagsins Íslenski skálinn í Feneyjum árið 2015. Þá var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum Christoph Büchel og sýningastjóri var Nína Magnúsdóttir.  

Í samhenginu sem að verkið MOSKAN var staðsett á var meiningin að draga athygli að stofnanavæddum aðskilnaði og fordómum í samfélaginu ásamt þeim deilum sem spretta af stefnumörkun stjórnvalda varðandi fólksflutninga sem eru þungamiðjan í þjóð- og trúarlegum ágreiningi víða um heim. Tímabundin lokun verksins af hálfu ítalskra yfirvalda staðfesti þessa áþreifanlegu spennu og ágreining í samtímanum.

Büchel steypti grunn að hugmyndafræði verksins í sögulegu samhengi við þau gríðarlegu áhrif sem íslömsk menning hefur haft á Feneyjar og þær félags- og stjórnmálalegu skírskotanir hnattrænna búferlaflutninga samtímans.  

Í verkum Christophs býr margbreytileiki í ítarlegum nákvæmnisatriðum hvers verks. Höfundareinkenni hans koma fram í marglaga félagslegum og pólitískum útlistunum. Christoph kemur auga á mótsagnir og samfélagslegan ójöfnuð í hugmyndafræðilegu öflunum við lýði í dag og finnur leið með list sinni til að afhjúpa og streitast gegn þessum öflum með því að opinbera þau sem tilbúna veruleika háða breytingum. 

______________________________________________________________________________________

21. desembeR

Margrét H. Blöndal. Liðamót,  28. maí – 2. október 2022, Listasafn Íslands, Reykjavík. 
Ljósmyndir birtar með leyfi listamanns.  

Vetrar sólstöður eru í dag sem er stysti og myrkasti dagur ársins. Því er mikilvægt að eyða deginum og kvöldinu með þeim sem við elskum til þess að birta til andrúmsloftið. Margrét H. Blöndal var á árinu með stóra einkasýningu á Listasafni Íslands sem bar titillinn Liðamót.  Heiti sýningarinnar vísar í þá staðreynd að þar sem þrír eða fleiri liðir koma saman verður til hreyfing. Enski hluti titilsins, Ode to Join, er hins vegar óður til tengingar þar sem hver skúlptúr eða teikning verður eins og ein eining í pólífónísku tónverki. Verk Margrétar eru handan orða og búa yfir fegurð og yfirskilvitlegu aðdráttarafli enda hefur innsetningum hennar verið líkt við tónaljóð. Ingibjörg Sigurjónsdóttir skrifaði um ferli Margrétar fyrir sýninguna: 

“ [ Margrét ] stillir sér upp í tómu sýningarrýminu, andar djúpt, miðar og skýtur þeim [ listaverkunum] beint í ósýnileg mörk. Og það er þá, þegar þau eru öll komin í samband sem allt fer á hreyfinginu, leikurinn, lífið, óðurinn til gleðinnar. Komin saman, komum saman. Sagði einhver ættarmót? Hér eru amk allir af góðri ástæðu. Margrét er í grunninn skúlptúristi. Hún byggir á grunni myndlistar sem frá upphafi hefur tekist á við þrautir eins og hreyfingu, þyngd, rúmtak, stellingar, hvernig líkamar styðja sig við eitthvað eða standa. Mikilvægi þessara þátta er jafnt, hvort sem um ræðir marmarastyttu af goðsagnarveru eða vandlega samsetningu úr forgengilegum efnum úr fórum Margrétar. Í teikningum sínum fer Margrét einnig sína leið að sígildu viðfangsefni. Olía og litaduft eru meginuppistaðan í olíulitum, erkitýpískasta efnivið listamannsins, en Margrét notar það óblandað; olía og litaduft á pappír. Fer bakdyramegin að málverkinu og kemur varlega aftan að því.  ” 

Verkin tvö sem eru hér að ofan eru. 

Margrét H. Blöndal, Án titils, 2022. Viðarspýta, vatnslitir, borði, nagli.120 x 85 cm. 
 

Margrét H. Blöndal, Án titils, 2022. Olía og litaduft á pappír. 44.5 x 34.5 cm. 

______________________________________________________________________________________

22. desembeR


Freyja Eilíf, ZY, 2017. Lifandi kertamálverk sem var staðbundið við DZIALDOV, Berlin. Ljósmyndir birtar með leyfi listamannsins. 

Eitt af einkennum íslensks veturs er myrkrið, það var hefð fyrir því forðum að kerti voru gefin til barna og annarra fjölskyldumeðlima á hápunkti vetrar og tendruð í baðstofum heimila á meðan allir skiptu á sögum frá árinu sem var að líða. Enn í dag fylla margir heimili sín af kertum á vetrarhátíð til þess að skapa kósý andrúmsloft. Í gegnum aldirnar hafa kerti verið tákn fyrir heimilið, samkomu og vernd. Á ferli Freyju Eilífar hefur hún búið til seríu af lifandi kertamálverkum sem samanstanda af fjölda kerta sem er kveikt á opnun sýninga þar sem þau brenna niður og standa á gólfi sýningarrýma. Dagurinn í dag er tileinkaður verki hennar ZY frá 2017. 

Verkið ZY var staðbundið við DZIALDOV myndlistarrýminu í Berlín, þar sem það var sett upp og tendrað árið 2017. Kertin voru í tveimur litum og er þau bráðna þá tekur vaxið á sig mynd frjógvaðrar eggjafrumu sem er tákn fyrir ný upphöf. Eftirstöðvar verksins þegar kertin hafa brunnið niður er abstrakt vax samsteypungur sem liggur á gólfi sýningarrýmisins. Verkið tók á sig lokamynd á einungis 2 klukkustundum á meðan að opnun sýningarinnar á stóð, samsteypungurinn stóð svo eftir það sem eftir var af sýningartíma.  

Verkið ZY var sýnt á samsýningu sem bar titillinn “Þetta mun vera sárt” (e. It’s gonna hurt), sem var farandsýning sem koma frá Bretlandi. Allir listamennirnir áttu það sameiginlegt að vinna með tilfinnningar sínar og áfallatíma úr lífum þeirra. 

______________________________________________________________________________________

23. desembeR

Guðmundur frá Miðdal, Rjúpnapar í vetrarbúning , 1939. Birt með leyfi fjölskyldu listamannsins. Ljósmyndari Ragnar Th. Sigurðsson. 

Nú fer jóladagatalinu okkar að ljúka, sem merkir að jólin séu handan við hornið. Réttur margra landsmanna á aðfangadagskvöldi er rjúpa. En rjúpan getur einnig verið tákn fyrir vetrarhátíðina þar sem hún fer í vetrarbúninginn og verður skjannahvít. Guðmundur Einarsson frá Miðdal var högmyndamaður og myndlistarmaður (1895-1963). Verkið í dag er Rjúpnapar í vetrarbúningi og var fyrirmyndin gerð 1939. Framleiðsluár hvers selds leirmunar úr gifsmóti var ekki haft á botni hans.  

Rjúpnaparið er handþrykkt (ekki steypt) í gifsmót (tveir helmingar sem falla vel saman). Handmálað með erlendum glerungi og tvíbrennt. Unnið í Listvinahúsi við Skólavörðuholt. Notuð var blanda af íslenskum leir (Búðardalsleir og hveraleir af Reykjanesi). 

______________________________________________________________________________________

24. desembeR

Dieter Roth, Skartgripir Dieter Roths,  5. júní – 22. janúar 2023, Listasafn Íslands, Reykjavík. 
Ljósmynd birt með leyfi Listasafnsins.

Í dag er 24 desember of munu landsmenn fagna aðfangadegi hátíðlega í kvöld. Margir klæða sig þá í sparifötin og setja á sig bestu skartgripi sína. Í Listasafni Íslands gefst í fyrsta sinn tækifæri til að bera einstaka skartgripi Dieters augum í heildstæðu samhengi. Sýningin ber tilraunagleði myndlistarmannsins og óvenjulegum vinnuaðferðum hans glöggt vitni og varpar nýju ljósi á verk þessa einstaklega fjölhæfa listamanns. 

Dieter Roth (1930—1998) var í senn brautryðjandi sem virti engar takmarkanir, hugsuður, frumkvöðull, skáld, tónlistarmaður, kvikmyndagerðarmaður og myndlistarmaður. Færri vita að hann vakti jafnframt athygli fyrir nýstárlega skartgripasmíði sem hann hóf að fást við á Íslandi seint á sjötta áratug síðustu aldar. 

Fyrstu skartgripirnir sem Dieter hannaði voru unnir í samstarfi við konu hans, Sigríði Björnsdóttur, heima á eldhúsborðinu og fljótlega bauðst þeim betri aðstaða á verkstæði Halldórs Sigurðssonar gullsmiðs að Skólavörðustíg 2. Verkin 2 sem eru til sýnis í jóladagatalinu.  

Dieter Roth, Hat Rings, 1971. Gull hringur, fimm hattar: járn, kopar, brass, silfur and gull, brass askja, breytanlegar stærðir. © Dieter Roth Estate. Ljósmynd birt með leyfi Hauser & Wirth. 
Dieter Roth, Hatta hringar [partur af seríu], 1971. Silfur and gull, breytanlegar stærðit. © Dieter Roth Estate. Ljósmynd birt með leyfi Hauser & Wirth. 

______________________________________________________________________________________

Við uppfærum dagatalið okkar einnig á facebook og instagram síðum okkar.
Jóladagatalið er unnið í samstarfi við Íslandsstofu.