Í leit að töfrum – Tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir Lýðveldið Ísland eftir myndlistartvíeykið Libiu Castro og Ólaf Ólafsson verður flutt þann 3. október næstkomandi í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur. Viðburðurinn er haldinn á vegum Listahátíðarinnar Cycle og Listahátíðar í Reykjavík.
Myndlistartvíeykið Libia Castro & Ólafur Ólafsson hafa fengið til liðs við sig hóp ólíkra tónskálda, innlendra og erlendra, tónlistarfólks, samtaka, aðgerðarsinna og almennra borgara til þess að skapa í samstarfi fjölradda tónlistar- og myndlistargjörning við allar 114 greinar nýju íslensku stjórnarskrártillögunnar frá 2011.

Verkefnið er sjálfstætt framhald verkefnis Libiu og Ólafs, Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, 2008/11, sem þau unnu í samstarfi við tónskáldið Karólínu Eiríksdóttur og RÚV, ásamt Listasafninu á Akureyri og Hafnarborg og Stjórnarskrá er ferli, 2018, sem þau unnu í samstarfi við tónlistar- og myndlistarhátíðina Cycle, Gerðarsafn í Kópavogi og Þjóðskjalasafn Íslands.
Tónskáldin og tónlistarfólkið sem vinna með Libiu og Ólafi að verkinu nú eru: Aqqalu Berthelsen (aka Uyarakq) (GRL/FI), Áki Ásgeirsson (IS), Danielle Dahl (NO/US), Karólína Eiríksdóttir (IS), Stellan Veloce (IT/DE), Tyler Friedman (USA/DE) og Þórunn Gréta Sigurðardóttir (IS).
Nánar um verkið hér.