Mónica Bello sýningarstjóri íslenska skálans í Feneyjum 2022

Það er Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar sönn ánægja að tilkynna að sýningarstjórinn Mónica Bello hefur verið ráðin sem sýningarstjóri íslenska skálans í Feneyjum árið 2022. Hún mun starfa með Sigurði Guðjónssyni fulltrúa Íslands á Feneyjatvíæringnum.

Mónica Bello hefur frá árinu 2015 gegnt stöðu sýningarstjóra og listræns stjórnanda hjá CERN, evrópsku kjarnorkurannsóknarstofnuninni í Genf.

Í störfum sínum sem sýningarstjóri hefur Mónica Bello beint sjónum sínum að tækni- og vísindamenningu nútímans og því hvernig listamenn kveikja nýjar spurningar um uppgötvanir sem koma fram á sjónarsviðið, svo sem um hlutverk vísinda og nýja þekkingu á  skynjun veruleikans.