Sumarsýningar – opnanir framundan

Mynd: Weixin Chong, Eating Cake, stilla úr vídeóverki, 2018.

Sumarið fer vel af stað og margar spennandi sýningaopnanir eru fyrirhugaðar á næstunni. Við minnum jafnframt á að uppfærður listi yfir sýningar sem standa yfir má ávallt nálgast á viðburðadagatalinu okkar.

Tvær sýningaropnanir verða nk. fimmtudag 10. júní. Annars vegar er það Ragna Róbertsdóttir sem opnar sýningu í gallerí i8 á nýjum verkum og Iðavöllur: Íslensk list á 21. öld opnar í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu. Á sýningunni er horft til nærumhverfisins í starfi Listasafns Reykjavíkur á árinu 2021 með áherslu á að sýna þá grósku sem einkennir íslenska myndlistarsenu.

Aðrar nýlegar sýningar eru Hlutbundin þrá í Gerðarsafni – Listasafni Kópavogs. Hlutbundin þrá er samsýning átta samtímalistamanna frá Íslandi og Singapúr, sem hverfist um samband mannsins við hlutlægni og hluti. Sýningin er samtíningur af klippimyndum, skúlptúrum, vídeóverkum og innsetningum.Listamenn: Daniel Hui, Dagrún Aðalsteinsdóttir, Guo Liang, Guðlaug Mía Eyþórsdóttir, Luca Lum, Styrmir Örn Guðmundsson, Sæmundur Þór Helgason og Weixin Chong. Sýningarstjórar eru Dagrún Aðalsteinsdóttir og Weixin Chong. Meira á heimasíðu Gerðarsafns.

Una Björg Magnúsdóttir sýnir í Y nýju sýningarrými í Kópavogi. Y er staðsett í húsnæði Olísbensínstöðvarinnar í Hamraborg. Þar verða haldnar sýningar á verkum samtímalistamanna með áherslu á rýmisverk og í bakrými gallerísins verða sýnd verk eftir breiðan hóp listamanna.

Í Listasafn Árnesinga eru fjórar yfirstandandi sýningar sem opnuðu sl. helgi. RÓSKA – Áhrif og andgift. Á þessari sýningu gefur að líta valin verk frá ferli listakonunnar Rósku er sýna fjölbreyttan og einstakan myndheim hennar og varpa frekari ljósi á hversu mikilvæg listsköpun Rósku var og er í listsögulegu samhengi og hvaða áhrif hún hafði og hefur enn á einstaklinga, samfélag og samtíma. Verk Rósku verða sýnd í samtali við verk eftir íslenska samtímalistamenn sem þykja ríma við einstaka næmni og nálgun Rósku og búa yfir álíka orku og eldmóð, framúrstefnu eða einlægni. Samtímalistamennirnir eiga það sameiginlegt að hafa í teikningu sinni eða nálgun fengist við hugarheim kvenna í ólíkum miðlum, miðlum sem Róska var óhrædd við að tileinka sér þó þeir hefðu verið framúrstefnulegir upp úr miðri síðustu öld. Sýningarstjóri er Ástríður Magnúsdóttir.

Iðustreymi er samsýning íslenskra samtímalistamanna. Þeir eru: Gjörningaklúbburinn, Katrín Elvarsdóttir, Kristín Gunnlaugsdóttir, Sara Björnsdóttir & Elísabet Jökulsdóttir. Sýningarstjórar Kristín Scheving & Ástríður Magnúsdóttir. Yfirtaka er þátttökugjörningur þar sem listakonan Anna Kolfinna Kuran geriri tilraun til að taka yfir rými með hjálp kvenna úr ólíkum áttum samfélagsins, bæði á opnun sýninganna sem og í vídeóverki. Hvítur er Pop-up sýning, Leirlistafélag Íslands. Á 40 ára afmælisári Leirlistafélags Íslands verður lögð áhersla á sýnileika félagsins í sem víðasta samhengi og boðið til ýmissa viðburða. Einn þeirra verður farandsýningin Hvítur, sem hefur ferðalagið sitt í Listasafni Árnesinga.