Tilnefningar til Íslensku myndlistarverðlaunanna

Íslensku myndlistarverðlaunin eru veitt í tveimur flokkum: Myndlistarmaður ársins og hvatningarverðlaun ársins. Myndlistarráð stendur nú í fjórða skipti að úthlutun Íslensku myndlistarverðlaunanna en markmiðið er að heiðra íslenska myndlistarmenn, eða myndlistarmenn sem búsettir eru á Íslandi, og vekja athygli á því sem vel er gert jafnframt því að hvetja til nýrrar listsköpunar.

Eftirfarandi myndlistarmenn eru í forvali til Myndlistarmanns ársins:

Haraldur Jónsson fyrir sýninguna Ljósavél í gallerí Berg Contemporary. 19. des. 2020 – 27. feb. 2021.

Margrét H. Blöndal fyrir sýninguna Loftleikur í i8 Gallerí. 3. sept. – 10. okt. 2020.            

Libia Castro og Ólafur Ólafsson fyrir verkið Í leit að töfrum – Tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland, Listasafn Reykjavíkur,Hafnarhús og á götum úti við Stjórnarráð og Alþingi Íslands, 3. okt. 2020 í samstarfi við tónlistar- og myndlistarhátíðina Cycle og Listahátíð í Reykjavík.

Selma Hreggviðsdóttir og Sirra Sigrún Sigurðardóttir fyrir sýninguna Ljósvaki  í gallerí Berg Contemporary. 24. jan. – 21. mars 2020.

Eftirfarandi myndlistarmenn eru í forvali til Hvatningarverðlauna ársins:

Andreas Brunner fyrir sýninguna,Ekki brotlent enn, D41, í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, sýningarstjóri Markús Þór Andrésson. 19. mars – 7. júní 2020.

Guðlaug Mía Eyþórsdóttir fyrir sýninguna Milli hluta í Listasal Mosfellsbæjar. 14. sept. – 9. okt. 2020.

Una Björg Magnúsdóttir fyrir sýninguna Mannfjöldi hverfur sporlaust um stund, D40, í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, sýningarstjóri Aldís Snorradóttir. 16. jan. – 15. mars 2020.

Greint verður frá því hver af þessum fjórum hlýtur Myndlistarverðlaun ársins og hver hlýtur Hvatningarverðlaun ársins fimmtudaginn 25. febrúar 2021.

Dómnefnd Íslensku myndlistarverðlaunanna 2021 skipa:

Helgi Þorgils Friðjónsson, formaður dómnefndar (Myndlistarráð)

Aðalheiður Lilja Guðmundsdóttir (Listfræðafélag Íslands)

Helga Óskarsdóttir (Samband íslenskra myndlistarmanna)

Valur Brynjar Antonsson (fulltrúi safnstjóra íslenskra myndlistarsafna)

Þorbjörg Jónsdóttir (Listaháskóli Íslands)

Í ár mun Myndlistarráð einnig veita í fyrsta skipti tvær viðurkenningar;Heiðursviðurkenningu og viðurkenningu fyrir útgefið efni á sviði myndlistar. Heiðursviðurkenning fellur í skaut starfandi myndlistarmanns fyrir heildarframlag hans til íslenskrar myndlistar. Viðurkenning fyrir útgefið efni, hvort heldur sem er í prentuðu eða stafrænu formi, er veitt stofnun, einstaklingi eða fyrirtæki sem staðið hefur að framlagi sem talið er hafa mikilvægt gildi fyrir kynningu og rannsóknir á íslenskri myndlist. 

Myndlistarráð tekur ákvörðun um hverjir hljóta viðurkenningar, en í ráðinu situr fulltrúi frá mennta- og menningarráðuneyti, Listasafni Íslands og Listfræðafélagi Íslands ásamt tveimur fulltrúum Sambands íslenskra myndlistarmanna.