Ævarandi hreyfing, 2022. Ljósmyndari: Ugo Carmeni

Myndlistarmaðurinn Sigurður Guðjónsson var fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum 2022, framlag hans til 59. alþjóðlegu myndlistarsýningarinnar var listaverkið Ævarandi hreyfing. Sýningarstjóri var Mónica Bello. Sigurður Guðjónsson er þekktur fyrir magnþrungin vídeóverk þar sem mynd, hljóð og rými mynda órofa heild. Hann sýndi fyrst um aldamótin síðustu í listamannareknum rýmum í Reykjavík, en dökk og ágeng vídeóverk hans vöktu strax athygli.

Sigurður á yfir tuttugu einkasýningar að baki víðs vegar um heiminn, en hann hlaut auk þess Íslensku myndlistarverðlaunin árið 2018 fyrir verk sitt Innljós í kapellu og líkhúsi St. Jósefsspítala í Hafnarfirði á vegum Listasafns ASÍ. Hans nýjasta verk ber titilinn Enigma og verður verkið meðal annars til sýnis í Kennedy Center í Washington, Adler Planeterium í Chicago og Carnegie Hall í New York á umfangsmikilli sýningarvegferð sinni um heiminn sem nú stendur yfir.

Lightroom, 2018. Birt með leyfi listamannsins og BERG Contemporary.

Sigurður notar tímamiðil (vídeó) í verkum sínum sem fangar áhorfandann gegnum ryþma og endurtekningu og tengir mynd og hljóð á þann hátt að þau virðast víkka skynsviðið og vekja nýjar kenndir. Á síðustu árum hefur hann líka unnið í samstarfi við tónskáld og þannig búið til verk sem sameina vídeó, rafhljóð og lifandi flutning. Hann er sífellt að víkka út sköpunarsviðið en verk hans bera sterk persónuleg einkenni og ná að skapa undarlega nánd sem aftur styrkir enn frekar skynhrifin.

Sigurður Guðjónsson er fæddur árið 1975 í Reykjavík. Hann stundaði nám við Billedskolen í Kaupmannahöfn 1998-1999, Listaháskóla Íslands 2000 -2003 BA og Akademie Der Bildenden Kunste í Vínarborg 2004.

Fuser, 2017. Birt með leyfi listamannsins og BERG Contemporary.
Press

Frekari upplýsingar

Auður Jörundsdóttir
Forstöðumaður KÍM
audur@icelandicartcenter.is 
sími 5626272