Heiðursviðurkenning 2023: Ragnheiður Jónsdóttir

Heiðursviðurkenning myndlistaráðs var veitt í þriðja sinn og var það listakonan Ragnheiður Jónsdóttir sem hlaut hana fyrir einstakt framlag sitt til íslenskrar myndlistar.

islensku-myndlistarverdlaunin-2023-Ragnheidur-Jonsdottir-photo-gunnlod-jona

Í umsögn Myndlistarráðs kemur fram:

Ragnheiður Jónsdóttir hefur markað djúp spor í íslenska listasögu með áhrifaríkri beitingu tækni í teikningu, fyrst í grafíkverkum og síðar í sérlega stórbrotnum og áhrifaríkum teikningum. Ragnheiður fæddist árið 1933 í Reykjavík og ólst upp í Þykkvabænum. Hún var komin á fertugsaldur þegar hún byrjaði fyrst að láta að sér kveða á sviði myndlistar. Hún hélt sína fyrstu einkasýningu árið 1968 og hefur átt óslitinn feril síðan þá.

islensku myndlistarverdlaunin 2023-Ragnheidur Jonsdottir-Stord-1
Ragnheiður Jónsdóttir
islensku myndlistarverdlaunin 2023-Ragnheidur Jonsdottir-onefnd-V

Svartlistin, grafíkin, var það listform sem Ragnheiður lagði helst stund á fyrstu árin á ferli sínum. Undir lok sjöunda áratugarins vaknaði áhugi á að efla aðferðir til listsköpunar sem ekki höfðu notið virðingar í sögulegu samhengi. Grafíkin var tjáningarmáti sem margir listamenn tileinkuðu sér á þessum tíma og varð áttundi áratugurinn blómatími íslenskrar svartlistar. Listakonur, eins og Ragnheiður, beittu sér sérstaklega á þessu sviði. Ein skýring þess er að viðurkenndir miðlar, eins og málverk og höggmyndagerð, áttu sér langa sögu sem snerist að mestu um listsköpun karlmanna. Grafíklistin gaf því færi á tjáningu sem var að sumu leyti óháð þeirri hefð. Ragnheiður tileinkaði sér frá upphafi fjölbreyttar og vandaðar aðferðir við gerð grafíkverka og náði miklum árangri í að þróa tæknina á persónulegan hátt. Fyrir vikið varð hún leiðandi, jafnt innan lands sem utan, í eflingu og skilningi á svartlist sem miðli.

Það er vegna margháttaðs framlags Ragnheiðar til íslensks myndlistarvettvangs sem þessi verðlaun eru veitt. Hún hefur hafið veg teikningar og svartlistar í íslenskri myndlist til vegs og virðingar. Margþættur og fjölbreyttur myndheimur svartlistarverka hennar er einstakur, hvernig hún byggir upp kvenlæga sýn og töfraraunsæi á grunni teikningar og prentlistar. Á seinni árum hefur hún tekið teikninguna föstum tökum í stórbrotnum myndverkum þar sem náttúrusýnin er tjáð í reynd, í sterkri nánd og mikilvirkri áferðarteikningu. Það er á þessum fjölbreytta grunni sem myndlistarráð hefur ákveðið að heiðra Ragnheiði Jónsdóttur fyrir lífsstarf hennar í þágu íslenskrar myndlistar og menningar.

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Perpetual Motion
Um okkur