Áhugaverðasta endurlitið 2025: Hamskipti
Viðurkenningu myndlistarráðs fyrir áhugaverðasta endurlit ársins hlýtur sýningin Hamskipti | Listsköpun Gerðar Helgadóttur. Sýningin var sett upp í tilefni 30 ára afmælis Gerðarsafns í Kópavogi.

Viðurkenningu myndlistarráðs fyrir áhugaverðasta endurlit ársins hlýtur sýningin Hamskipti | Listsköpun Gerðar Helgadóttur. Sýningin var sett upp í tilefni 30 ára afmælis Gerðarsafns í Kópavogi.
Sýningin Hamskipti var afar vel hönnuð, fagleg og sett upp af miklu næmi og innsæi. Hálfgegnsæir veggir mynduðu fínlega umgjörð um ólík skeið í list Gerðar og hugleiðingar eftir nokkra núlifandi listamenn stóðu þar sem litlar vörður. Valið á verkum Gerðar byggði á djúpri þekkingu á fjölbreyttu höfundarverki hennar og til urðu forvitnilegar tengingar við listamenn úr hennar eigin samtíma.
Í tengslum við sýninguna var gefin út bókin Leitað í tómið þar sem varpað er ljósi á líf og list Gerðar út frá fjölbreyttum forsendum. Bókin er vel unnin og sett saman af mikilli smekkvísi. Einnig var opnaður skúlptúrgarður við safnið með nokkrum verkum Gerðar. Að lokum skal getið vandaðrar grunnsýningar á verkum Gerðar sem hefur staðið yfir frá árinu 2023 og stendur enn. Viðurkenningin nær því til lofsverðrar og vandaðrar framsetningar safnsins á listsköpun Gerðar á árinu.
Gerður Helgadóttir (1928–1975) var frumkvöðull á sviði höggmyndalistar á Íslandi. Hún var leitandi listamaður og efnistök hennar voru afar fjölbreytt. Í upphafi mótaðist hún af módernisma eftirstríðsáranna í Evrópu en síðar þróuðust verk hennar á persónulegan máta, þar sem hún sótti innblástur út fyrir vestrænar viðmiðanir og í heim dulspeki. Það er álit dómnefndar að Gerðarsafni hafi tekist einstaklega vel að miðla list Gerðar með frábærlega vel gerðum sýningum og fallegri og vandaðri bók sem setur verk Gerðar í alþjóðlegt, listasögulegt samhengi.
Sýningarstjórn: Cecilie Gaihede