Áhugaverðasta samsýningin 2025: 50/100/55

Viðurkenningu myndlistarráðs fyrir áhugaverðustu samsýningu ársins hlaut Textílfélagið fyrir 50/100/55. Titill sýningarinnar vísar til þess að 50 ár eru frá stofnun félagsins en á sýningunni mátti sjá 100 verk eftir 55 sýnendur. Sýningin var í Hlöðuloftinu, Korpúlfsstöðum, Reykjavík .

IMV 2025 50-100-55

Viðurkenningu myndlistarráðs fyrir áhugaverðustu samsýningu ársins hlaut Textílfélagið fyrir 50/100/55. Titill sýningarinnar vísar til þess að 50 ár eru frá stofnun félagsins en á sýningunni mátti sjá 100 verk eftir 55 sýnendur. Sýningin var í Hlöðuloftinu, Korpúlfsstöðum, Reykjavík .

Saga listræns textíls hér á landi nær langt aftur í aldir eins og skýrt kom fram á nýlegri sýningu Þjóðminjasafnsins en þar var meðal annars til sýnis íslenskt refilsaumsverk fengið að láni frá Louvre-safninu í París. Á síðari öldum var miðillinn aftur á móti ekki mikils metinn. Breyting varð á er önnur bylgja femínisma fór að hafa áhrif, en eitt af baráttumálunum var að fá textíl – sem nær eingöngu var miðill kvenna – viðurkenndan sem fullgildan listmiðil. Stofnun Textílfélagsins má rekja til þeirrar baráttu.

Í tilefni hálfrar aldar afmælis félagsins ákvað stjórn þess að standa að veglegri sýningu og bauð félögum að senda inn nýleg verk sem sýningarnefnd ásamt sýningarstjóra valdi úr. Útkoman varð sú að um tveir þriðju verkanna á sýningunni var frá árinu 2024. Í stílhreinni sýningarskrá er meðal annars að finna upplýsingar um fæðingarstað höfunda verkanna. Langflest eru þau fædd hér á landi en þó var einn þátttakandi frá hverju eftirtalinna landa: Bandaríkjunum, Kanada, Króatíu, Litháen, Þýskalandi og Rúmeníu. Á síðustu árum hefur textíll skipað æ stærri sess á alþjóðlegum sýningum, svo sem á Feneyjatvíæringnum og því má fullyrða að textíll hafi öðlast sinn verðskuldaða sess sem fullgildur listmiðill.

Mat dómnefndar er að sýningin 50/100/55 hafi gefið einstaklega góða yfirsýn yfir fjölbreytileika textíls sem miðils til listrænnar tjáningar. Verkin nutu sín vel í hráu rýminu og þrátt fyrir djarfa samsetningu ólíkra verka skapaði sýningin sterka heild.

Sýningarstjórn: Ægis Zita

Sýningarnefnd: Helga Pálína Brynjólfsdóttir, Ingiríður Ólafsdóttir, Olga B. Þorleifsdóttir, Ólöf Á. Stefánsdóttir og Þorgerður Hlöðversdóttir

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Austurstræti 5