Áhugaverðir staðir: sumarvertíð myndlistar

29.06.2023
Sindri Leifsson, Snípa (2023). NÝP, Breiðafirði.

Hið langþráða, en jafnframt stutta, sumar á Íslandi er gengið í garð. Eins og hefð er fyrir eykst úrval töluvert af myndlistarsýningum víðsvegar um landið á þessum tíma enda er tilvalið að ferðast um landið og skoða list og njóta þegar veðrið tekur að skána.

Roni Horn, Vatnasafnið (2007). Stykkishólmur.
Roni Horn, Vatnasafnið (2007). Stykkishólmur.

Fyrir vestan

Á Breiðafirði eru tveir áhugaverðir staðir til að staldra við. Árið 2007 opnaði Vatnasafnið í Stykkishólmi, en þar er varanleg innsetning eftir myndlistarkonuna Roni Horn. Safnið er opið daglega frá 11:00-17:00 frá júní-ágúst.

Á Skarðsströnd má finna Nýp sýningarými sem opnaði árið 2020. Þar stendur yfir sýningin Snípa, eftir Sindra Leifsson. En sýningin er jafnframt fjórða sumarsýningin sem sett er upp í Nýp. Áður en lagt er af stað í heimsókn á Nýp er ráðlagt að hafa samband í gegnum nyp@nyp.is

Næsti viðkomustaður er Ísafjörður. Safnahúsið í Eyrartúni, Gamla sjúkrahúsið, hýsir m.a. Listasafn Ísafjarðar. Sýningin Uppáhelling fyrir sæfarendur er þar yfirstandandi til 13. ágúst með málverkum eftir Guðbjörgu Lind Jónsdóttur. Í Gallerí Úthverfu opnar svo einkasýning franska listamannsins Romain Causel í júlí, en þar er einnig að finna litla bókabúð með úrvali bókverka. Edinborgarhúsið er einnig áhugaverður viðkomustaður sem iðar af menningu.

Frá árinu 2017 hefur hefur gömlu síldarverksmiðjunni í Djúpavík verið umbreytt í sýningarrými fyrir samtímalist yfir sumartímann. Í ár ber sýningin heitið Kynjalegar gáttir og er samsýning þrettán listamanna. Sýningarstjóri er Emilie Dalum og er opið daglega frá 10:00-18:00, fram í miðjan september.

Guðný Rósa Ingimarsdóttir, Flóra Akureyri.

Guðný Rósa Ingimarsdóttir, Flóra Akureyri.

Á norðurleið

Fyrir norðan er af nógu að taka þegar kemur að myndlistarsýningum. Í Alþýðuhúsinuá Siglufirði er sýningarrýmið Kompan rekið af Aðalheiði S. Eysteinsdóttur sem nýlega vann Eyrarrósina fyrir framúrskarandi menningarverkefni. Í sumar fer þar fram m.a. listahátíðin Frjó.

Rétt fyrir utan Akureyri er Verksmiðjan á Hjalteyri. Um miðjan maí opnaði þar Sigurður Guðjónsson, fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum 2022, umfangsmikla innsetningu sem ber heitið Conductive Path. Sýning stendur fram í miðjan júlí.

Í menningarhöfuðborginni, Akureyri, er margt að sjá. Í Listasafni Akureyrar standa yfir ellefu sýningar í sumar, m.a. myndbandsinnsetningin The Visitors eftir Ragnar Kjartansson, einkasýningin Myrkvi með verkum eftir Ásmund Ásmundsson, samsýningin Afmæli með verkum eftir norðlenska listamenn og útiverkið blóð & heiðureftir Steinunni Gunnlaugsdóttur.

Í Listagilinu má svo meðal annars finna Kaktus, listamannarekið sýningarrými. Í Hofi er sýning á verkum eftir fyrrnefnda Aðalheiði S. Eysteinsdóttur og í Flóru menningarhúsi Sigurhæðum er hægt að skoða verk eftir Guðnýju Rósu Ingimarsdóttur. Flóra er opin daglega frá klukkan 9-15.

Við Svalbarðsströnd er svo Safnasafnið sem er ómissandi viðkomustaður. Í sumar verða settar upp alls tólf nýjar sýningar á verkum 15 listamanna og leikskólanemenda. Safnið tekur á móti gestum frá 10:00-17:00, daglega til 10. september.

Kristján Guðmundsson, Triangle in a Square (1971-72).
Kristján Guðmundsson, Triangle in a Square (1971-72). Verkið verður til sýnis í ARS LONGA. Ljósmynd birt með leyfi listamannsins og i8 gallerí.

Austurland

Fyrsti viðkomustaður fyrir austan er Sláturhúsið menningarmiðstöð á Egilsstöðum. Sýningin Remember the Future með verkum Ingrid Lassen, Solveig Ovanger og Inger Blix Kvammen stendur til 12. ágúst. Sláturhúsið er opið þriðjudaga til föstudaga 11:00 – 16:00 og um helgar 13:00 – 16:00.

Á Seyðisfirði hefur menning lengi þrifist og dafnað. Þar má finna listamiðstöðina Skaftfell. Í sýningarsalnum stendur yfir sýningin The Arctic Creatures Revisited til 20. ágúst. Til sýnis eru ljósmyndir unnar af listamannahópi sem samanstendur af Hrafnkeli Sigurðssyni, Óskari Jónassyni og Stefáni Jónssyni.

Hápunktur seyðfirska listasumarsins er listahátíð LungA sem fram fer dagana 10. – 16. júlí. Listamenn víðsvegar að taka þátt í hátíðinni. Pussy Riot mun flytja verkið Riot Days þrisvar á hátíðinni, eins munu listakonurnar Ada M. Patterson, Ásgerður Birna Björnsdóttir, handhafi hvatningarverðlauna Íslensku myndlistarverðlaunanna, og Ra Tack sýna verk sín.

Á Djúpavogi opnar þann 8. júlí samsýningin quid – quid est – quid est? í ARS LONGA, nýstofnuðu listasafni með áherslu á samtímamyndlist. Til sýnis verða verk eftir 16 vel þekkta listamenn, þar á meðal Hildigunni Birgisdóttur, fulltrúa Íslands á næsta Feneyjatvíæringi árið 2024.

Hornsteinn, sýning í Listasafni Árnesinga Hveragerði. Ljósmynd: Simone de Greef.
Hornsteinn, sýning í Listasafni Árnesinga Hveragerði. Ljósmynd: Simone de Greef.

Meðfram suðurlandi

Á Höfn í Hornafirði opnaði nýlega sýning í Svavarssafni. Sýningin veitir innsýn inn í  fyrstu skref abstrakt málarans Svavars Guðnasonar (1909-1988) í listsköpun. Safnið er opið daglega frá 9-17 og 13-17 um helgar. Á Höfn er einnig að finna listamannarekna sýningarrýmið MUUR. Í sumar sýna þar Finnur Arnar Arnarson og Áslaug Thorlacius og er sýning þeirra hluti af sýningarröð þar sem sjónum er beint að listapörum sem hafa unnið saman eða sitt í hvoru lagi á ferlinum.

Listamannarekna safnið og verkefnarýmið Íslenski bærinn stendur rétt fyrir utan Selfoss. Safnið var stofnað 2006 og sinnir fjölbreyttri starfsemi svo sem sýningarhaldi, viðburðum og fræðsludagskrá.

Í Hveragerði fagnar Listasafn Árnesinga 60 ára afmæli safnsins með sýningunni Hornsteinn. Þar gefur að líta valin verk úr safneign eftir helstu meistara íslenskrar myndlistar og minna þekkta listamenn. Safnið er opið daglega frá 12-17.

Í Listasafni Reykjanesbæjar opnaði nýlega yfirlitssýning á verkum listamannsins Snorra Ásmundssonar. Sýningin ber yfirskriftina Boðflenna og stendur til 29. ágúst.

Vinsamlega athugið að opnunartími og dagsetningar geta breyst svo mælt er með því að skoða vefsíður og samfélagsmiðla til að fá frekari upplýsingar.

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Austurstræti 5