Ársskýrsla myndlistarráðs 2015

14.03.2016
Ársskýrsla myndlistarráðs 2015

Myndlistarráð, sem tók til starfa 2013, hefur á skipunartíma sínum unnið að greiningu á starfsumhverfi myndlistar á Íslandi. Fundað var með fólki innan fagsins og haldið málþing um starfshumhverfi myndlistar í samvinnu við ráðuneyti mennta– og menningarmála. Áhersla var lögð á að skilgreina umfang fagsins og varpa ljósi á mikilvægi myndlistar fyrir samfélagið. Samantekt þessarar vinnu er í skýrslunni Miðstöð íslenskrar myndlistar –Tækifæri og áskoranir sem ráðið hefur afhent mennta- og menningarmálaráðherra ásamt tillögum um hvernig bæta megi umhverfi myndlistar á Íslandi bæði með hag almennings og fagsins að leiðarljósi.

Í framhaldi vann myndlistarrráðið Drög að myndlistarstefnu íslenskra stjórnvalda. Ráðið telur mikilvægt að stjórnvöld móti stefnu um málefni myndlistar til frekari umræðu innan fagsins. Drögin eru innlegg í slíka stefnumótun og vonar ráðið að þau séu grundvöllur sameiginlegrar sýnar á leiðir og áherslur til að gera veg myndlistar sem mestan. Myndlistarráð hefur lagt fyrir ráðherra tillögu um stofnun vinnuhóps á vegum ráðuneytisins sem vinni að mótun myndlistarstefnu sem ráðuneytið og hagsmunaaðilar gætu sammælst um.

Engum dylst að fjármagn skiptir miklu máli þegar rætt er um framgang skapandi lista og ýmissa annarra atvinnuvega. Þar sem tölulegar upplýsingar um fjárframlög ríkisins til myndlistar eru ekki aðgengilegar á einum stað hefur myndlistarráð ráðist í að taka þessar upplýsingar saman og láta greina framlög til myndlistar og um leið gera marktækan samanburð á milli listgreina.

Myndlistarsjóður var stofnaður ásamt hönnunarsjóði árið 2013. Framlög ríkisins í þessa tvo nýstofnuðu sjóði voru þá 45 milljónir í hvorn sjóð. Myndlistarjóður blés mönnum í brjóst bjartsýni og von um að starfsumhverfi myndlistar tæki stórstígum framförum á komandi árum. Raunin varð hins vegar sú að í fjárlögum 2014 og 2015 voru báðir þessir sjóðir skornir niður í 25 milljónir. Á fjárlögum fyrir árið 2016 fær myndlistarsjóður úthlutað 35 milljónum en hönnunarsjóður 50 milljónir. Myndlistarráð hefur lagt þunga áherslu á að fjárlaganefnd, ríkisstjórn og þing leiðrétti niðurskurðinn líkt og gert hefur verið í tilfelli hönnunarsjóðs. Myndlistarráð telur að miðað við fjölda og gæði umsókna í sjóðinn auk þeirra verkefna sem ráðinu er ætlað að sinna samkvæmt myndlistarlögum þurfi að hækka framlög í myndlistarsjóð umtalsvert.

Myndlistarráð telur fyrrgreind verkefni undirstöðu þess að ná árangri við að bæta starfsumhverfi myndlistarfagsins í heild og því afar mikilvægt að fylgja þeim eftir. Skipunartíma sitjandi ráðs lýkur 31. janúar 2016 og verður nýtt ráð skipað í kjölfarið. Myndlistarráð þakkar þeim fjölmörgu aðilum sem það hefur verið í samstarfi við fyrir samvinnuna.

Fyrir hönd myndlistarráðs, Kristján Steingrímur formaður

Hér er hægt að nálgast ársskýrslu myndlistarráðs 2015 í heild sinni hér

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Austurstræti 5