Birtingarmynd kynsegin fólks á Feneyjartvíæringnum

05.10.2022
Non-binary: Yuki Kihara, Spirit of the ancestors watching (After Gauguin), 2020.

Í fyrsta sinn í 121 árs sögu Feneyjartvíæringsins eru fleiri kvenkyns listamenn heldur en karlkyns listamenn í aðalsölum hátíðarinnar. Þá eru yfir 80% kvenkyns listamenn og einnig lítill fjöldi hinsegin, kynsegin og trans listamanna að sýna listaverk á hátíðinni í ár. Hvernig er birtingarmynd þessa minnihlutahópa í verkunum á hátíðinni og hvers vegna skiptir sú birtingarmynd yfirhöfuð máli?

Í þessari grein mun ég skoða birtingarmynd kynsegin fólks í skálum tvíæringsins með því að einblína á skála þriggja landa: Nýja Sjálands, Rúmeníu og Danmerkur. Þessir þrír skálar takast á við viðfangsefnið á ólíkan hátt, hver með sína útfærslu á hvernig hægt sé að tjá margbreytileika, upplifun og tilveru kynsegin fólks. Skálarnir endurspegla einnig og eiga samtal við aðalsýningu hátíðarinnar í ár Mjólk Draumanna (e. Milk of Dreams) eftir samnefndri barnabók myndlistarkonunnar og skáldsins Leonora Carrington en þema sýningarinnar var lagt til af sýningarstjóranum Ceciliu Alemani. Í bókinni birtast ýmsar hálfmannverur með gróteskum ljóðrænum örsögum en sýningarstjórinn Cecilia nýtti söguheim bókarinnar til þess að skapa sýningarheim hátíðarinnar sem einblínir á “birtingarmynd líkama og myndbreytingu þeirra, samband milli tækninnar og einstaklinga og tengsl þeirra við líkama og jörð”.

Sýning Danska skálans, Við gengum um jörðina (e. We Walked the Earth), leggur áherslu á hinn náttúrulega heim, hverfulleika lífsins og óumflýjanleika dauðans. Uppsetningin samanstendur af þremur kentárum í lífsstærð; einn karlkyns, hinn kvenkyns og sá þriðji ungabarn, öll látin í hesthúsi sínu. Listamaðurinn Uffe Isolotto leggur fram dystópíska sýn í þessu verki og skoðar heim fullan af óvissu, þar sem erfitt er að átta sig á því hvort boðskapurinn sé vongóður eða hryllilegur.

Non-binary: Uffe Isolotto, We Walked the Earth, 2022. The Danish Pavilion, Biennale Arte 2022. Photo: Ugo Carmeni.

Uffe Isolotto, We Walked the Earth, 2022. The Danish Pavilion, Biennale Arte 2022. Ljósmynd: Ugo Carmeni.

Non-binary: Uffe Isolotto, We Walked the Earth, 2022.

Uffe Isolotto, We Walked the Earth, 2022.

Hægt er að túlka vettvanginn sem eftirmála skelfilegs viðburðar í framtíðinni, jafnvel heimsendis. Samblanda hins mennska og dýrslega gefur til kynna eins konar mögulega póst-húmaniska framtíð, sem hefur farið úrskeiðis. Kentára fjölskylda fannst látin frekar en í blóma lífsins. Hvað segir það okkur um núverandi hugmyndir og umræður um póst-húmanisma? Í sýningarskrá Danska skálans er spurt hvort við, mennirnir, leitum að skjóli í því sem við vorum eða hvort við leitum að flóttaleiðum í því sem við gætum orðið?

Verkið er opið og ýmsar leiðir til að túlka það en ég held því fram að Danski skálinn varpi einnig fram spurningum um kyn. Sé boðskapur verksins túlkaður á þann máta, þá gætu kentárarnir táknað framtíð og endalok kynjatvíhyggjunnar. Á hinn bóginn, gætu þeir endurspeglað upplifun kynsegin fólks og þjáningarinnar sem fylgir aftengingu innri sjálfsmyndar og ytri líkamlegs raunveruleika (e. gender dysphoria). Í því samhengi gætu kentárarnir endurspeglað hvernig kynsegin einstaklingar eru gerðir að framandi verum í nútíma samfélagi og hættunni sem þeir þurfa mögulega að takast á við fyrir það eitt að hafa öðruvísi kynvitund en þykir „eðlileg”. Í þeim skilningi eru kentárarnir fulltrúar “annarra manneskja” eða “annarra líkama” (e. othered body). Umgjörð þeirra sýnir eins konar girðingu, þeir eru fastir án undankomu, og að lokum drepnir – dramatísk framsetning á veruleika margra kynsegin og hinsegin einstaklinga.

Rúmenski skálinn ögrar þessum hugmyndum um “aðra” líkama, kyn og kynlangana vestrænnar menningar með verkinu Þú ert annar ég – Dómkirkja líkamans (e. You Are Another Me—A Cathedral of the Body) eftir kvikmyndagerða- og listakonuna Adina Pintilie. Verkið sýnir hvernig hægt er að nálgast líkama og fegurð á mismunandi hátt. Í því samhengi er skoðað hver hefur verið fulltrúi Rúmenska skálans hingað til, hverjir hafa verið útilokaðir og hvers vegna. Verkið samanstendur af fjölrása myndbandsinnsetningu, ásamt sýndarveruleika viðbót staðsett í Nýja Galleríi Rúmenska menningar- og mannúðar rannsóknarstofnunnarinnar í Feneyjum (e. New Gallery of the Romanian Institute for Culture and Humanistic Research in Venice). Verkið sýnir fjölbreytta líkama og form nándar með samkynhneigðum, gagnkynhneigðum, trans, fötluðum og ófötluðum einstaklingum. Með því reynir listamaðurinn að rjúfa tabúið í kringum “aðra” líkama með því að sýna hvernig nánd, ást, þrá og ánægja birtist og hversu lík hún er milli mismunandi hópa fólks.

Non-binary: Adina Pintilie, You Are Another Me—A Cathedral of the Body, 2022.

Adina Pintilie, You Are Another Me—A Cathedral of the Body, 2022. Courtesy of Artist

Á heimasíðu rúmenska skálans er hægt að lesa sér til um bakgrunn allra einstaklinganna sem taka þátt í verkinu. HANNA er þýskur kynlífs og trans aðgerðasinni sem kom “út úr skápnum” sem trans kona þegar hún var 50 ára, eftir heila ævi í líkama og hlutverki sem hún tengdi aldrei við. Hún vildi verða kona þrátt fyrir að móðir náttúra hefði gefið henni kraftmikinn karlmannslíkama en það var ekki fyrr en eftir 20 ára hjónaband og fjölskyldulíf sem hún hafði þor til að hefja nýtt líf sem kvenmaður út á við. Í myndverkinu talar HANNA um hvernig hún snertir líkama sinn á kynferðislegan hátt og með því býr til öruggt og opið rými fyrir áhorfendur til þess að fræðast um viðfangsefni og líkama sem eru ennþá séðir sem tabú í vestrænu samfélagi.

Kynjatvíhyggja hins vestræna samfélags er hins vegar langt frá því að vera viðurkennd á heimsvísu. Í ár voru hin þverfaglega listakona af japönskum og samóskum uppruna Yuki Kihara og sýningarstjórinn Natalie King fulltrúar skála Nýja Sjálands. Saman gerðu þær rannsókn og kvikmynd sem rannsakar vestrænar ranghugmyndir um samfélög Kyrrahafsins sem sýnir upplifanir fa’afafine og fa’afatama einstaklinga eða hið “þriðja kyn” Sāmoa samfélagsins. Þegar gengið er inn í skálann tekur á móti manni litríkt og vinalegt andrúmsloft sem einblínir á hugarheim fa’afafine og fa’afatama með verkinu Paradísarbúðir (e. Paradise Camp). Beinþýtt þýðir fa’afafine “að hætti kvenna” og fa’afatama “að hætti karla”. Þessi kyn eru fljótandi og flakka á milli hins hefðbundna heims karla og kvenna. Fa’afafine og fa’afatama hafa mismunandi kynhneigð, líkt og annað fólk, þar sem sumir hafa áhuga á því að sofa hjá körlum, aðrir konum, aðrir fa’afafine, fa’afatama og sumir hafa áhuga á öllum kynjum.

Non-binary: Yuki Kihara, Fa‘afafine with children (After Gauguin), 2020.

Yuki Kihara, Fa‘afafine with children (After Gauguin), 2020.

Non-binary: Yuki Kihara, Fonofono o le nuanua: Patches of the rainbow (After Gauguin), 2020.

Yuki Kihara, Fonofono o le nuanua: Patches of the rainbow (After Gauguin), 2020.

Non-binary: Yuki Kihara, Spirit of the ancestors watching (After Gauguin), 2020.

Yuki Kihara, Spirit of the ancestors watching (After Gauguin), 2020.

Innan Sāmoa samfélagsins er umburðarlyndi gagnvart öllum einstaklingum og þeirra tjáningarformi mikilvægt og virt. Börn eru ekki þvinguð til að aðlaga sig að sérstökum kynjahlutverkum á sama hátt og almennt er í vestrænum samfélögum. Sem dæmi, kynin fa’afafine og fa’afatama hafa alltaf verið viðurkennd í samfélagi Sāmoa. Með aldrinum hafa þessi kyn tilhneigingu til þess að hjúkra öldruðum og fræða fólk um kynlíf, sem er enn tabú viðfangsefni fyrir karla og konur til að ræða á almannafæri í Sāmoa.

Í verkinu Paradise Camp eru tólf endurnýjuð málverk eftir látna franska póstimpressjónista listamanninn Paul Gaugin (7. júní 1848 – 8. maí 1903).

Gaugin bjó í áratug á Tahítí í aðdraganda dauða síns í byrjun 19. aldar, en samkvæmt sögulegum frásögnum er talið að málverk hans, sem voru máluð á meðan hann dvaldi í Kyrrahafinu, sýni þriðja kyn Tahítí samfélagsins. Í skálanum er sýnd fimm þátta spjallþáttaröð þar sem hópur af fa’afafine og fa’afatama tjá sína skoðun á völdum málverkum eftir Gaugin. Þessi málverk eru talin tákna vestræna skynjun Gaugin á frumbyggja menningu Tahítí og Kyrrahafsins í heild sinni en hann málaði mikið af konum og mögulega fa’afafine í verkum sínum. Samkvæmt listakonunni Yuki Kihara var hægt að fanga einlæg augnablik og viðbrögð fa’afafine og fa’afatama við verkum Gaugin með því að sýna þeim málverkin í fyrsta sinn á meðan tökum stóð. Með því væri hægt að endurspegla og sýna skoðanir þeirra sem voru fædd og uppalin sem þriðja kyn Samoa og hvernig þær brjóta gjarnan í bága við vestræna menningu. Það sem mér fannst sérstaklega áhugavert var hvernig fa’afafine og fa’afatama bjuggu til sínar eigin kynsegin sögur í kringum viðfangsefnið sem var fyrir framan þau á málverkunum. Það var bæði fallegt og áhugavert að fylgjast með hvernig þau notuðu sitt “identity” sem kynsegin frumbyggjar til að ögra þeim sögulegu stöðlum, sem vestrænt samfélag hefur sett á menningu þeirra sem framandi og út frá “norminu”.

Þótt skálarnir hafi verið ólíkir bæði fagurfræðilega, hugmyndafræðilega og út frá pólítísku sjónarmiði, sýna þeir margvíslega veruleika sem eru opnir kynsegin einstaklingum. Áhersla á nánd ólíkra líkama og hugsanlegrar dystópíu sem bíður okkar í sundruðu og óviðunandi samfélag eru megináherslur verkanna í þessum þremur skálum. Fortíðin og ýmsar útgáfur af mögulegri framtíð sem tengjast “öðrum” kynvitundum og tjáningum endurspegluðu hvernig kynsegin fólk býr til sínar eigin sögur og frásagnir í heimi þar sem birtingarmynd þeirra er verulega takmörkuð og jafnvel fordæmd, að minnsta kosti innan vestræns samfélags. Þetta er ástæða þess að fjölbreytt birtingarmynd kynsegin einstaklinga er mikilvægari en nokkru sinni fyrr, þar sem pólitísk ólga, spenna og togstreita í kringum lagaleg réttindi þeirra hefur aldrei verið meiri. Þrátt fyrir að kynsegin einstaklingar hafi alltaf verið til gegnum söguna og í mismunandi samfélögum.

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Hrafnhildur Arnardóttir, Shoplifter, chromo
Dozie, Precious
Perpetual Motion
Islensku myndlistarverdlaunin 2023
Um okkur