Fulltrúi Austurríkis á Feneyjartvíæringnum í ár er listakonan Anna Jermolaewa. Hún er fædd í Sovétríkjunum árið 1970 en flúði land nítján ára gömul og kom sér fyrir í Austurríki. Ástæðan var sú að hún var einn af stofnmeðlimum stjórnarandstöðuflokks þar í landi og einn ritstjóra blaðs sem var afar gagnrýnið á ríkjandi stjórnvöld. Jermolaewa og félagar hennar blönduðust þannig í sakamál þar sem þeim var gefið að sök að ýta undir andstöðu við valdhafana og fyrir að dreifa áróðri.
Jermolaewa er því aðfluttur Austurríkismaður. Sýningarstjórinn Gabriele Spindler bendir á í sýningarskrá að valið á henni sem fulltrúa Austurríkis sé því einkar viðeigandi í ljósi þema og yfirskriftar sýningarinnar í ár, sem fjallað hefur verið um í fyrri pistlum; Útlendingar alls staðar, Stranieri Ovunque.
Við fyrstu sýn ber ekki mikið á verkunum í skála Austurríkis. Þegar maður gengur inn í skálann mæta manni fimm símaklefar í garði hans og á hvora hönd eru látlausar innsetningar. Þegar betur er að gáð leynist þó margt undir yfirborðinu.
Á vinstri hönd er innsetningin The Penultimate, titilinn má þýða sem Sú næstsíðasta, frá árinu 2017. Innsetningin samanstendur af afskornum blómum í vösum og pottaplöntum sem standa á stólum, kollum og hvítum stöplum í rýminu. Þetta er einföld og falleg sýn, eins konar kyrralífsmynd í formi innsetningar.
Ég er ekki sá allra besti í plöntufræðum. Mér tekst þó að bera kennsl á túlípanana sem eru gulir þegar ég sæki sýninguna heim. Þeim hefur verið komið fyrir í fallegum kristalsvasa sem stendur á litlum hvítum og örlítið snjáðum kolli. Hér eru líka rauðar rósir í málmvasa sem stendur á hvítum stöpli sem liggur lárétt á gólfi sýningarrýmisins. Á öðrum kolli stendur svo pottaplanta sem mér sýnist vera appelsínu- eða mandarínutré.
Þökk sé veggtextanum get ég borið kennsl á blómin sem mér finnst fallegust í rýminu, það eru rauðar nellikur, einnig í kristalsvasa sem stillt hefur verið upp á kolli. Garðakornblómin sem eru í glervasa hafa fölnað en af myndum af sýningunni að dæma voru þau eitt sinn fagurblá. Hér má líka finna lótusblóm, fjólubláar saffranliljur, jasmín og sedrusvið.
Það sem þessar plöntur eiga sameiginlegt er að við þær allar eru kenndar byltingar. Nellikubyltingin í Portúgal 1974, appelsínugula byltingin í Úkraínu 2004, jasmín byltingin í Túnis 2010 við upphaf arabíska vorsins, og svo framvegis. Það sem byltingarnar sem hér eru til umfjöllunar eiga sammerkt er að þeim var öllum hrundið af stað fyrir tilstilli almennra borgara og þær fóru eða mestu friðsamlega fram. Þetta er áhrifamikið verk, ekki síst fyrir tilstilli andstæðnanna sem fólgnar eru í annars vegar útliti verksins og hins vegar umfjöllunarefninu. Viðkvæm blóm sem tákna byltingar sem brotist hafa út í kjölfar langvarandi óánægju í garð ríkjandi valdhafa.
Gegnt The Peniltumate er flennistór ledskjár með verkinu Rehearsal for Swan Lake, Æfing fyrir Svanavatnið. Hið 150 mínútna langa vídeóverk er skrásetning á ballettæfingum, nánar tiltekið æfingum fyrir Svanavatnið, líkt og nafnið gefur til kynna. Úkraínska ballerínan og danshöfundurinn Oksana Serheiva er meðhöfundur Jermolaewu að verkinu sem er frá því fyrr á þessu ári. Til viðbótar við skjáinn er í rýminu dæmigerð æfingaaðstaða ballettdansara, stór spegill og stöng, og á enda stangarinnar hangir ballerínukjóll.
Æfingaferlinu er þó ekki enn lokið, í bili að minnsta kosti. Hluti verksins er gjörningur sem er fluttur reglulega. Meðhöfundur verksins, úkraínska ballerínan Serheiva, bregður sér þá í gervi svansins og dansar tignarlega um gólf skálans á tátiljum og í glæsilegum ballerínukjólnum við undirspil úr vídeóverkinu.
Á táningsárum Jermolaewu varð Svanavatnið að eins konar táknmynd fyrir pólitískan óstöðugleika. Í kringum andlát þjóðarleiðtoga á borð við Leoníd Brezhnev og Júríj Andropov var hefðbundin dagskrá sjónvarpsins rofin og Svanavatnið leikið, stundum svo sólarhringum skiptir. Þannig varð Svanavatnið einnig fyrirboði og tákn valdaskipta. Í verkinu er leikið með þessi hugrenningatengsl en nú eru það ekki stjórnvöld sem hagnýta sér ballettinn. Í þetta sinn er æfingaferlið til þess gert að vera fyrirboði stjórnarskipta í Kreml og verkið því nátengt The Penultimate.
Í næsta rými mætir manni plötuspilari sem staðsettur er á miðju gólfi og á veggjunum eru sérkennilegar, kringlóttar myndir. Myndirnar reynast vera röntgenmyndir sem eru baklýstar. Það má því lesa af þeim ýmiss bein líkamans rétt eins og á spítala; rifbein, höfuðkúpur og fótabein. Röntgenmyndirnar eru misjafnar að stærð en eiga það allar sameiginlegt að vera kringlóttar. Og þær hafa allar lítið gat í miðjunni. Þær líkjast því mjög hljómplötum. Og viti menn, þetta eru hljómplötur.
Eftir seinni heimsstyrjöld var margs konar tónlist bönnuð í Sovétríkjunum. Popp, rokk og djass var hreinlega ekki í boði. Sovéskir hljóðmenn fundu engu að síður lausn til að komast hjá banni stjórnvalda. Þeir afrituðu hljómplötur á röntgenmyndir sem féllu til á spítölum. Þessar plötur sem ýmist voru kölluð „rif“, „tónlist á beinum“ eða einfaldlega „bein“ gengu síðan kaupum og sölum á svörtum markaði, allt þar til segulbandsspólur eða kasettur fóru að ryðja sér til rúms.
Í verkinu sem ber heitið Ribs, eða Rif, eru á sjötta tug slíkra „beina“ til sýnis sem geyma lög tónlistarmanna á borð við Elvis Presley, Bítlanna, Rolling Stones og Petula Clark. Gestum gefst líka kostur á að hlusta á tónlist sem geymd er á myndunum á hverjum degi klukkan tvö. Það er kannski í takt við umfjöllunarefni innsetningarinnar að tónlist af „beinunum“ ómar að vísu mun oftar en bara rétt í kringum klukkan tvö. Ástæðan er sú að uppreisnargjarnir sýningargestir eiga það til að ræsa plötuspilarann og færa nálina á sinn stað, þvert á reglur þeirra sem ráða ríkjum í skálanum.
Í salnum gegnt plötuspilaranum má svo finna vídeóverkið Research for Sleeping Positions, eða Rannsókn á svefnstellingum, frá árinu 2006. í þessu 18 mínútna langa myndbandi fylgjumst við Jermolaewu reyna að festa svefn á bekk á lestarstöð í Vínarborg. Maður veltir því fyrir sér hvort henni takist það. Tvær bríkur deila bekknum niður í þrjú sæti og listamaðurinn neyðist því til að hvílast í ansi afkáralegum stellingum.
Þetta er án efa persónulegasta verkið í skálanum. Fyrstu vikuna eftir að Jermolaewa náði til Vínarborgar eftir flóttann frá Sovétríkjunum undir lok níunda áratugarins varði hún nóttunum á lestarstöð, þar sem hún svaf úr sér á bekk. Hún heimsækir aftur þennan stað í verkinu Research for Sleeping Positions en hvíldin er henni ekki auðsótt í þessari seinni heimsókn út af bríkunum sem settar hafa verið upp í millitíðinni.
Fyrsta kastið virkar myndbandið hálf húmorískt, það er eitthvað fyndið við það að fylgjast með manneskju reyna að sofa á stað sem er ekki ætlaður til svefns. En gamanið kárnar þó frekar fljótt því verkið varpar sterku ljósi á það sem kalla mætti fjandsamlegan eða óvinveittan arkitektúr (e. hostile architecture). Ég myndi jafnvel vilja ganga svo langt að kalla þetta mannfjandsamlegan arkitektúr því hann beinist gjarnan gegn hópum sem standa höllum fæti í samfélaginu og sá hópur sem ef til vill verður helst fyrir barðinu á honum er heimilislaust fólk.
Markmið óvinveitts arkitektúrs er nefnilega sá að stýra hegðun í almannarými, helst með því að koma í veg fyrir hegðun sem samfélagið hefur skilgreint sem óæskilega. Göddum eða kúlum hefur verið komið fyrir á syllum og í hvers kyns útskotum þar sem annars væri hægt að tylla sér og bekkir eru hannaðir þannig að ekki er hægt að halla sér út af. Í stað þess að bregðast við vanda fólks með félagslegum lausnum er lendingin gjarnan sú að ýta þeim sem litið er á sem óvelkomna einfaldlega í burtu.
Þetta verk sem nú er orðið 18 ára gamalt talar á undraverðan hátt beint inn í samtímann. Það endurspeglar nefnilega stöðu flóttamannsins í samfélagi dagsins í dag. Sumir hafa viljað gera þann hóp að blóraböggli fyrir flest það sem aflaga fer í samfélaginu. Andúðin í garð þeirra hefur aukist og stjórnvöld víða um heim hafa komið upp frekari hindrunum til að reyna að halda þeim fjarri, eins konar kerfislega hliðstæðu óvinveitts arkitektúrs.
Bara rétt á meðan ég hef dvalið hér í Feneyjum hafa sláandi fréttir sem tengjast málefnum flóttamanna verið birtar. Georgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, vill setja á fót búðir fyrir hælisleitendur í Albaníu þar sem þeir verða geymdir þar til niðurstaða í þeirra málum á Ítalíu liggur fyrir. Hugmynd á borð við þessa hefur meira að segja skotið rótum innan æðstu stjórnar Evrópusambandsins sem virðist greinilega ætla að taka upp harðari stefnu í málaflokknum innan álfunnar. Gleymum því ekki að heima á Íslandi varð tilraun til brottvísunar á fötluðu barni og fjölskyldu þess og öll atburðarásin sem síðan fylgdi í kjölfarið ansi stórt púsl í þeirri mynd sem skýrir fall ríkisstjórnarinnar. Og af einhverjum ástæðum fer ansi mikið fyrir útlendingamálum í umræðuþáttum og í kynningarefni margra stjórnmálaflokka, jafnvel að málaflokkurinn sé ekki meðal þeirra sem skipta kjósendur mestu máli.
Það er magnað hvað dylst mikið undir yfirborðinu í áferðarfallegum og íburðarlausum verkum Önnu Jermolaewu í skála Austurríkis á Feneyjatvíæringnum í ár. Verkin minna okkur á að ekki megi slaka á í baráttu gegn valdboðshneigð og alræðisvaldi. Þegar höfð eru í huga þau tvö stríð sem mest er fjallað um í fjölmiðlum í dag má manni vera ljóst að þessi skilaboð eiga einkar vel við þessi misserin. Andstæðurnar sem felast svo í mýkt verkanna annars vegar og svo hörkunni og alvarleikanum sem falin er í umfjöllunarefnunum hins vegar gera verk Önnu Jermolaewu enn áhrifaríkari fyrir vikið. Nýútskrifaðir nemar frá myndlist í LHÍ og listfræði í HÍ, búsettir í Feneyjum í starfsnámi fyrir Íslenska skálann á Feneyjatvíæringnum vinna að greinarskrifum og pistlagerð þaðan um lykilhugtök og þemu sýninga sem standa nú yfir þar.
Grétar Þór Sigurðsson er 31 árs blaðamaður frá Reykjanesbæ. Hann lauk BA-prófi í listfræði við Háskóla Íslands árið 2019 og hefur síðustu misseri lagt stund á MA-nám í listfræði við sama skóla, með skiptinámi við Stokkhólmsháskóla. Frá 2020 hefur Grétar starfað sem blaða- og fréttamaður, hjá Kjarnanum og Heimildinni og nú síðast hjá Ríkisútvarpinu.