Draugagangur, fornar aftökuaðferðir og fleira fróðlegt

23.08.2024

Ég er núna búin að dvelja í Feneyjum í 17 vikur og 2 daga. Á þeim tíma hefur þessi einstaklega óheimilislegi staður náð að verða að heimili mínu. Þegar ég fór frá Íslandi í apríl flutti ég úr íbúð í Hlíðunum sem ég hafði búið í síðastliðin 5 ár. Það er magnað hvað maður nær að sanka að sér drasli á 5 árum. Skúffur af ónýtum raftækjum, batterí sem maður er ekki viss hvort séu notuð. Skór sem lentu svo aftarlega í skápnum að maður gleymdi að maður ætti þá. Hin ýmsu eldhúsáhöld og tupperware box sem gestir hafa skilið eftir og gleymt að sækja í gegnum árin. Nú þegar ég hugsa út í það hef ég aldrei keypt mér tupperware box. Alheimurinn hefur bara úthlutað mér þeim með reglulegu millibili, í öllum mögulegum stærðum og gerðum. Meira að segja nokkur sem virka eins og þau séu úr sama settinu. Það er hinsvegar bara eitt tupperware box í íbúðinni minni í Feneyjum, iðulega fyllt með pastarétti gærdagsins. Ég þyrfti helst að fara að fá fleiri gesti. Yfir höfuð eru eldhúsáhöld í íbúðinni einnig af skornum skammti. Það eru fjórir espressobollar og fimm vínglös, nánast öll af sitthvorri sort. Það er eitt skurðarbretti úr viði, sem bragðast eins og laukur sama hversu mikið það er skrúbbað. Eplabitarnir sem ég set í hafragrautinn minn á morgnana hafa alltaf laukkennt eftirbragð. Svo vondu má venjast að gott þyki. Ég er líka búin að mastera að baka mitt víðfræga ólífubrauð með engar mæliskeiðar, ekkert desilítramál og enga eldhúsvigt. Það er ekki einu sinni hrærivél. Ég handhnoða deigið eins og árið sé í raun 1650, líkt og flest annað í íbúðinni gefur til kynna. Barrokk húsgögnin sem eru að liðast í sundur, eldstæðið sem er bannað að nota vegna stöðu borgarinnar á UNESCO heimsminjaskránni, burðarbitarnir í loftinu sem eru allir þaktir dularfullum rákum, eins og rist hafi verið í þá með hníf eða exi. Svo er það auðvitað draugurinn. Ég fann fyrir henni strax fyrstu nóttina hérna. Hún birtist mér í lamandi hræðslu í myrkrinu, krafsi í veggjunum, gruggugu vatni sem birtist á gólfinu á nóttunni, dauðum dýrum í garðinum. Hún vekur mig reglulega klukkan þrjú og svo aftur klukkan sex. Hún heldur mér vakandi á nóttunni, og ég fæ reglulega martraðir sem eru svo ljóslifandi og sér stilltar inn á sálarlífið mitt að þær trufla mig dögum saman. Þegar ég leggst upp í rúm á kvöldin og horfi upp á mörg hundruð ára gamla burðarbitana í svefnherbergisloftinu sé ég fölgræna stjörnuþoku. Einhver sem hefur búið hérna á undan mér síðustu árin hefur límt pappastjörnur sem lýsa í myrkri á bitana og á milli þeirra. Mögulega til að spornast við myrkfælninni sem fylgir því að búa í íbúð sem er reimt í.

Kona með heimþrá veltir fyrir sér heimilinu sem hugtaki og hlutverki þess á Feneyjatvíæringnum

Á meðan á dvöl minni hér hefur staðið hef ég varið miklum tíma í að velta fyrir mér þessu fyrirbæri; heimilinu. Hvenær verður staður heimili? Er það þegar þú tekur við lyklunum? Þegar þú ert búin að flokka nærbuxur og sokka í viðeigandi skúffur? Mögulega þegar þú hefur fyllt rýmið af ákveðið mörgum minningum eða þegar þú upplifir það fyrst að vera einhvers staðar annars staðar að stússa og hlakka til að koma „heim”? Eða er það eitthvað flóknara en það? Í skálaröðinni þar sem íslenski skálinn stendur á Arsenale, þar sem ég ver tímanum mínum, ef ég er ekki heima að díla við framliðnar sálir í stofunni minni, eru tveir áhrifamiklir skálar sem hvor um sig fjalla um heimilið á einn eða annan hátt. Annars vegar albanski skálinn, sem deilir þarnæsta rými frá okkur með Senegal, og hins vegar írski skálinn, sem er innsti skálinn í þessari tilteknu byggingu. 

IVA LULASHI. Love is a glass of water, (2021) Albanian Pavilion

Í albanska skálanum er einkasýning á málverkum albönsku listakonunnar Iva Lulashi (f. 1988). Sýningin ber titilinn Love as a Glass of Water, sem vísar í kenningu rússnesku kvenréttindabaráttukonunnar Alexandra Kollontai (f.1872-d. 1952). Kenningin fjallar meðal annars um byltingu þar sem líkamlegar og tilfinningalegar hvatir okkar eru bornar saman við grunnþarfir eins og þorsta, og að þeim eigi að svala á jafn sjálfsagðan og einfaldan máta og að fá sér vatnsglas þegar maður er þyrstur. Ástin er vatnsglas. Albanski skálinn er staðsettur inni í rými sem byggt hefur verið inn í enn stærra rými sem hann deilir með þjóðarskála Senegal. Innsetningin er eftirlíking af íbúð listakonunnar, þar sem hún býr og starfar. „Íbúðin“ er tóm fyrir utan sjálf málverkin, en áhorfandanum eru þó gefnar vísbendingar um hlutverk hvers rýmis; þar sem baðherbergið er hafa veggirnir verið flísalagðir og stofan er teppalögð. Verkin sjálf eru köld og dularfull, en á sama tíma grípandi og sveipuð einhverri eterískri fegurð. Mér finnst þau virka berskjölduð og viðkvæm. Málverkin eru fígúratíf, olía á striga, máluð af mikilli næmni. Litapallettan er kuldaleg, en ekki á agressívan hátt, heldur vekur frekar tilfinningu um hlýtt haustkvöld eða einhverja fjarlæga óræða minningu sem birtist í draumkenndum tónum. Samkvæmt textanum eru verkin öll unnin út frá stillum úr myndböndum og kvikmyndum þar sem einhverskonar kynferðisleg athöfn á sér stað. Hins vegar eru stillurnar sem hún velur alltaf rétt áður, eða rétt eftir að athafnirnar eiga sér stað. Þetta skapar rafmagnaða kynferðislega spennu í verkunum hennar og áþreifanlega munúðarfulla undirtóna. Að sýna þessi berskjaldandi verk í rými sem kallast á við heimili listamannsins, þar sem verkin voru sköpuð, er óumflýjanlega gríðarlega persónuleg upplifun. Tilfinningin sem myndast er sú að maður sé ef til vill að sjá eitthvað sem maður ætti ekki að sjá, eins og maður sé að ráðast inn í persónulegt rými. Einnig sú staðreynd að málverkin séu hengd upp á veggi sem augljóslega gefa í skyn heimili, en ekki gallerí, sveipar upplifunina hversdagslegum kunnugleika. Líkt og maður sé að skoða verk sem hangir á veggnum fyrir ofan kommóðuna á ganginum heima hjá einhverjum sem maður er að heimsækja í fyrsta sinn.

EIMEAR WALSHE. Romantic Ireland, (2023) Irish Pavilion

Írski skálinn er vídeóinnsetning titluð Romantic Ireland eftir Eimear Walshe (f. 1992). Verkið samanstendur af sex skjám sem eru staðsettir í innsetningu sem myndar leirveggi í kringum þá ásamt bekkjum fyrir áhorfendur til að tylla sér á. Leirveggirnir eru byggðir með mörg þúsund ára gamalli byggingaraðferð sem nefnist jarðsmíði (írska: metheal) sem tíðkaðist á Írlandi til forna. Jarðsmíði á sér einnig fjölbreyttar hliðstæður um allan heim, má sem dæmi nefna íslenska torfbæi. Þessi tegund mannvirkja lýsir sér einfaldlega þannig að efni þeirra eru fengin úr landinu sem þau standa á. Strúktúrinn sem er staðsettur í rýminu er gerður úr jarðvegi sem hefur verið safnað í timburhólf og þjappað og stappað saman þar til hann er stöðugur, og þá er timbrið fjarlægt. Myndband verksins er sviðsett í sambærilegum strúktúr (mögulega í hinum sama og áhorfandinn upplifir verkið í) sem er staðsettur úti í náttúrunni á vesturströnd Írlands. Í myndbandinu fylgjumst við með samskiptum sjö persóna, sem hver um sig táknar ákveðna erkitýpu úr írskri samfélagssögu frá tímabilinu milli 19. og 21. aldar. Hlutverk hverrar persónu birtist í búningi hennar, en þær eiga það allar sameiginlegt að vera með grænar latexgrímur sem hylja andlit þeirra. Karakterarnir eiga í ýmsum viðureignum við hvor annan, þeir mynda tengingar sín á milli, dansa, fagna, beita hvorn annan ofbeldi, en hjálpast einnig að við að byggja strúktúrinn sem umkringir þá og kallast á við strúktúrinn sem áhorfandinn er staddur í. Verkið er tekið upp á fjóra snjallsíma sem karakterarnir láta ganga sín á milli. Það er enginn díalógur, en verkinu fylgir hljóðverk sem er fimm radda ópera eftir írsku tónlistakonuna Amanda Feery (f. 1984), samin við texta eftir Walshe. Textinn er sunginn út frá sjónarhorni aldraðs manns sem liggur á dánarbeði sínu og ávarpar hóp af ungum karlmönnum sem eru komnir til að bera hann út úr húsinu sínu. Textinn er angurvær og fallegur, þar sem hann lýsir ást sinni og tengingu við heimili sitt. Gamli maðurinn segir þeim ungu söguna af uppbyggingu þess og lýsir því hvernig hann hefur viðhaldið því af umhyggju í gegnum árin, hvernig húsið er orðið hluti af honum og hann hluti af húsinu. Mörkin þar á milli eru orðin óskýr. Hann biðlar til þeirra að leyfa sér vinsamlega að fá að deyja þar, síðan verði sem verður. Textinn vitnar einnig reglulega í fræga ræðu Eamon de Valera, fyrrverandi forsætisráðherra Írlands, frá árinu 1943. Í ræðunni setur hann fram ýmsar staðhæfingar sem draga upp mynd af írsku þjóðinni, fjölskyldur búandi við fjárhagsleg þægindi í huggulegum heimahögum. Þær staðhæfingar stangast verulega á við ástandið á Írlandi í dag, þar sem efnahagsumhverfið er óstöðugt og skæð húsnæðiskreppa ríkir. Þó sagan sé auðvitað allt önnur, þá kallast margir þættir verksins á við íslenskar aðstæður, enda nátengdar þjóðir. Verkið vakti upp hjá mér tilfinningar um vonleysi og ósanngirni hraðans og asans í póst-kapítalísku, vestrænu grind-set samfélagi. Verkið vakti einnig upp spurningar um tengingu líkama og rýmis, ásamt þakklæti fyrir hörku og dugnað formæðra og -feðra minna í okkar eigin, ekki svo fjarlægu, útgáfu af jarðsmíðuðum húsum, og mér til mikillar furðu; sára og nagandi heimþrá. 

EIMEAR WALSHE. Romantic Ireland, (2023) Irish Pavilion

Faðirinn, Chuck Bass og heilagur andi

Hinu megin við vegginn í stofunni okkar hér í þessu blessaða feni, stendur kaþólsk kirkja, Chiesa di San Canciano. Látlaus hverfiskirkja sem maður tekur jafnvel ekki eftir að sé kirkja utan frá. Vissulega  áttuðum við okkur ekki á að þetta væri kirkja fyrr en við gerðum þá tengingu að við heyrðum fáránlega hátt í kirkjubjöllum heima hjá okkur vegna þess að það er bókstaflega klukkuturn á þakinu okkar, og að söngurinn sem við heyrðum óljóst í gegnum vegginn okkar á sunnudagsmorgnum væri í raun sjálfur messukórinn. Af þeim 18 kirkjum sem eru innan 400 metra radíuss frá húsinu okkar lætur hún minnst fara fyrir sér að utan, en þegar inn í hana er komið er hún maximalísk, skrauthlaðin og töfrandi eins og kaþólskar kirkjur eru að jafnaði. Kirkjan ber þó með sér merki þess að henni sé ekki haldið við af kappi, eins og túristakirkjunum sem finna má í kring. Lúin málverk hanga á veggjunum, sum hver án ramma, ásamt upplituðum myndum af einhverjum ítölskum prestum. Hinu megin við vegginn sem við deilum með kirkjunni er svo aðal altarið. Það er marmarahvelfing umkringd fölbleikum veggjum. Öðru megin við altaristöfluna er gat í bleikri veggklæðningunni svo það sést í múrsteinana sem skilja altarið frá stofunni okkar. Altaristaflan, sem er talin vera eftir ítalska málarann Paolo Zoppo dal Vaso (f.?, d. 1515) var máluð einhvern tíma á 15. eða 16. öld. Hún sýnir heilagan anda í líki hvítrar dúfu, ásamt Guði sjálfum fljótandi fyrir ofan, gamall kall með hvítt sítt skegg að vana, ásamt fimm búttuðum englum. Fyrir neðan á jörðu niðri standa tveir menn, Heilagur Canziano (sem kirkjan heitir meðal annars eftir) og Heilagur Massimo, fyrsti biskupinn í Tórínó, horfandi agndofa á dýrðina á himnum. Það er frekar galin pæling að handan þessa mörg hundruð ára gamla og sögu hlaðna veggjar sitjum við stelpurnar á kvöldin og hámhorfum á Gossip Girl í Apple tölvunni minni og borðum M&M eftir amstur dagsins. Chuck Bass, M&M og kók með klökum; hin heilaga þrenning.

San Canciano kirkjan séð frá brúnni

Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort að draugurinn sem ásækir íbúðina okkar tengist mögulega þessari ágætu kirkju. Kirkjan er meðal þeirra elstu í borginni, og er talin hafa verið byggð árið 864, sléttum tíu árum fyrir landnám Íslands, af flóttamönnum sem komu til Feneyja frá rómversku borginni Aquileia á flótta undan Atla Húnakonungi og/eða Langbörðum nokkur hundruð árum áður. Kirkjan er nefnd í höfuðið á systkinunum Canzio, Canziano og Canzianilla sem voru dýrlingar og píslarvottar frá Aquileia. Þau voru semsagt öll hálshöggvin vegna trúar sinnar 31. maí 304 eftir Krist, en það er önnur saga. Kirkjan brann svo til kaldra kola snemma á 12. öld og var endurbyggð árið 1105, og svo aftur árið 1550 eftir margra ára niðurníðslu. Það er í grófum dráttum byggingin sem stendur enn í dag. Þess má geta að ástsæli feneyski kvennabósinn Casanova, sem er eftirminnilega túlkaður af ástralska hjartaknúsaranum Heath Ledger í samnefndri bíómynd frá árinu 2005, notaði kirkjuna til að smygla ástarbréfum til ástkonu sinnar Caterina. Eftir að hún varð ófrísk með barninu hans var hún send nauðug í nunnuklaustrið Santa Maria degli Angeli á eyjunni Murano. Casanova var með sendiboða innan kirkjunnar sem hann hitti í játningarklefanum og lét hafa bréf, mat og föt fyrir Caterinu. Þar að auki má finna  Liber mortuorum, eða dánarskýrslu Tiziano í dánarskrám skjalasafns kirkjunnar. Tiziano er einn frægasti listmálari ítölsku endurreisnarinnar en hann málaði meðal annars hið fræga málverk Venus frá Urbino (1534). Í dánarskýrslunni stendur eftirfarandi: 27. ágúst 1576, Messer Tizian Pitor lést úr hita, 103 ára. Hann hefur gefið upp öndina á einu af mörgum skæðum plágutímabila Feneyja. En það er líka önnur saga.

Krókarnir á Ponte dei Squartai

Leyndardómur fimmta fjórðungsins

Fyrir utan kirkjuna er lítið torg nefnt eftir kirkjunni; Campo di San Canciano. Þangað förum við stelpurnar út með ruslið okkar því þar er næsta bryggja sem ruslabáturinn kemur að. Pappi á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum, plast, gler og dósir þriðjudaga, fimmtudaga og laugardaga. Ruslabáturinn, eins og flest annað á Ítalíu, tekur sér auðvitað frí á sunnudögum. Svona er hringrás San Canciano torgsins; rusl á vikudögum, messa á sunnudögum. Við þetta torg er brú yfir síkið sem er kölluð af heimamönnum Ponte dei Squartai eða „brú hinna hengdu og niðurbútuðu.“ Á brúnni eru tveir krókar, sitthvoru megin við hornið en ég tók eftir því að heimamenn sem löbbuðu framhjá áttu það til að snerta og skella krókunum í veggina, enda komnar djúpar, krókalaga holur í marmarann undir þeim. Ég byrjaði sjálf að taka þátt í þessari hefð þegar ég labbaði til og frá hverfisbúðinni Coop, sem er þarna handan við hornið, án þess að vita hvað hefðin snerist um. Ég dró þá ályktun að þetta boðaði lukku eða eitthvað annað gagnlegt. Hins vegar eftir smá gúgl, hef ég komist að því að enginn veit fyrir vissu hvers vegna þessir dularfullu krókar séu þarna, en að sams konar króka sé að finna á fjórum öðrum stöðum í borginni. Það er vitað að á hvern þeirra hafi einn fjórðungur af líkamsleifum þeirra sem voru teknir af lífi með þeirri gamalgrónu aðferð að vera hengdir, dregnir og „fjórðungaðir“ verið hengdur upp, öðrum vandræðagemsum til viðvörunar. Hinir fjórir krókarnir eru á fjölförnum stöðum á leiðinni inn og út úr borginni sem leiddu í áttina að Padua, Mestre, Chioggia og Lido. Hausinn er svo talinn hafa verið hengdur milli bleiku súlnanna tveggja (allar hinar súlurnar eru hvítar) á Doge höllinni á Markúsartorginu. En það hvílir þó leyndardómur yfir þessum tilteknu krókum á San Canciano, því öllum líkamspörtunum hefur verið úthlutaður staður á hinum krókunum, og þessi brú er ekki á tiltölulega fjölfarinni leið. Þar sem þetta eru sams konar krókar má þó gera ráð fyrir að þeir hafi haft sama tilgang, en það eru engar heimildir til um það. Það er þó vissulega sagt að það að snerta þessa króka færi þér lukku og verndi þig frá öllu illu. Mér veitir sennilega ekki af eftir allan draugaganginn. 

Fjórði pistillinn frá Feneyjum um sýningar tvíæringsins þar sem fjallað er um meginstrauma og hugmyndir þar, spennandi þjóðarskála og óvissu samtímans, titill aðalsýningarinnar  ,,Ókunnugir alls staðar’’ sem er sýningastýrð af Adriano Pedrosa.

Nýútskrifaðir nemar frá myndlist í LHÍ og listfræði í HÍ, búsettir í Feneyjum í starfsnámi fyrir Íslenska skálann á Feneyjatvíæringnum vinna að greinarskrifum og pistlagerð þaðan um lykilhugtök og þemu sýninga sem standa nú yfir þar.

Herdís Hlíf Þorvaldsdóttir, einnig þekkt sem Herdill, er 25 ára listakona frá Reykjavík. Hún vinnur aðallega með klassískt fígúratíft olíumálverk. Herdill útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands vorið 2023, en stundaði einnig nám við Myndlistaskólann á Akureyri og Accademia di Belle Arti di Brera í Milano. 

IVA LULASHI. Qualunque sia il suo nome (Whatever his name is), (2021) Albanian Pavilion

IVA LULASHI. Love is a glass of water, (2021) Albanian Pavilion

EIMEAR WALSHE. Romantic Ireland, (2023) Irish Pavilion

EIMEAR WALSHE. Romantic Ireland, (2023) Irish Pavilion

San Canciano kirkjan séð frá brúnni

Krókarnir á Ponte dei Squartai

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Um okkur