Elín Hansdóttir sýnir í Kunstlerhaus Bethanien

25.05.2022
Elín Hansdóttir sýnir í Kunstlerhaus Bethanien

Fimmtudaginn 19. maí opnaði einkasýning Elínar Hansdóttur í Kunstlerhaus Bethanien.

Sýningin markar lok eins árs vinnustofudvalar Elínar í miðstöðinni. 

Innsetning hennar Eigenzeit samanstendur af hálfgagnsæju efni sem hangir á sjö bogadregnum teinum sem skerast. Á efnið eru prentuð sérstök geometrísk mynstur, sem venjulega eru prentuð á skilríki og gjaldmiðila til að koma í veg fyrir fölsun. Einnig eru til sýnis ljósmyndir af líkönum af uppsetninguni í mismunandi skala sem brengla skynjun áhorfandans á rýminu.

Verk Elínar  hafa verið sýnd á einka- og samsýningum í KW Institute for Contemporary Art, Hamburger Bahnhof Museum für Gegenwart Berlin, ZKM Karlsruhe, Martha Herford, Frieze Projects, Marrakech Biennale, Listasafni Reykjavíkur og Listasafni Íslands.

Sýningin stendur yfir til 12. júní.

Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar og Künstlerhaus Bethanien eiga í samstarfi um vinnustofudvöl íslenskra myndlistarlistamanna í Berlín til fimm ára eða frá 2020-2025. Hver dvöl spannar eitt ár. 

Künstlerhaus Bethanien var stofnuð árið 1974, og er ein rótgrónasta og virtasta stofnun Þýskalands á þessu sviði. Að jafnaði starfa um 25 listamenn víðsvegar að úr heiminum við miðstöðina, sem býður upp á alþjóðlegt tengslanet og samstarf innan samtímamyndlistar.  

Dvölin veitir listamönnum sem þar dvelja aðgengi að öflugu, alþjóðlegu tengslaneti; sýningarstjórum, safnafólki, blaðamönnum og öðrum sem starfa innan geirans. Auk þess heldur stofnunin utan um sýningarhald, útgáfu og ýmsa viðburði fyrir listamennina sem þar dvelja. 

Dvölin er fjármögnuð af Menningarmálaráðuneyti og Viljandi, minningarsjóði. 

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Um okkur