Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, afhenti Íslensku myndlistarverðlaunin við hátíðlega athöfn í Iðnó fimmtudaginn 21. febrúar. Eygló Harðardóttir var valin myndlistarmaður ársins fyrir sýninguna Annað rými, Nýlistasafninu.
Eftirfarandi myndlistarmenn voru tilnefndir sem myndlistarmaður ársins 2019: Eygló Harðardóttir fyrir Annað rými í Nýlistasafninu, Guðmundur Thoroddsen fyrir Snip Snap Snubbur í Hafnarborg, Hekla Dögg Jónsdóttir fyrir Evolvement í Kling og Bang og Steinunn Gunnlaugsdóttir fyrir Litlu hafpulsuna, Cycle Music & Art - þjóð meðal þjóða.
Leifur Ýmir Eyjólfsson hlaut hvatningarverðlaun ársins fyrir sýninguna Handrit í D-sal, Listasafni Reykjavíkur. Leifur Ýmir útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2013 og hefur tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis. Hann er einn af listamannateyminu Prent & vinir sem hefur vakið athygli í íslensku listalífi undanfarin misseri.
Eftirfarandi myndlistarmenn voru tilnefndir til hvatningarverðlauna ársins 2019: Leifur Ýmir Eyjólfsson fyrir Handrit í D-sal, Listasafni Reykjavíkur, Auður Ómarsdóttir fyrir Stöngin Inn í Kling og Bang og Fritz Hendrik fyrir Draumareglan í Kling og Bang.
Í dómnefnd Íslensku myndlistarverðlaunanna 2019 sátu: Aðalsteinn Ingólfsson (Listfræðafélag Íslands), Hanna Styrmisdóttir (fulltrúi safnstjóra íslenskra myndlistarsafna), Jóhann Ludwig Torfason (Samband íslenskra myndlistarmanna), Margrét Kristín Sigurðardóttir, formaður dómnefndar (fulltrúi myndlistarráðs), Sigurður Guðjónsson (Listaháskóli Íslands).