Ferðasýningin ´Outside Looking In, Inside Looking Out', hefur farið um víðan völl og lýkur hringferð sinni um heiminn í vor þegar hún verður sett upp í Tokyo í Japan. Sýningunni er ætlað að vekja athygli á íslenskum listamönnum, bæði þeim sem hafa náð ákveðinni fótfestu, sem og þeim sem eru á góðri siglingu þangað. Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru Arnar Ásgeirsson (f. 1982), Emma Heiðarsdóttir (f. 1990), Fritz Hendrik IV (f. 1993), Melanie Ubaldo (f. 1992), Styrmir Örn Guðmundsson (f. 1984), Hildigunnur Birgisdóttir (f.1980) og Una Björg Magnúsdóttir (f. 1990).
Sýningunni eru þau takmörk sett að verkin verða helst að komast fyrir í sérsmíðuðum rammgerðum trékössum sem eru á stærði við stórar ferðatöskur og eru á hjólum. Starfsmenn Myndlistarmiðstöðvar hafa farið með sýninguna um heiminn og komið verkunum fyrir á ólíkum stöðum, í íslenskum sendiráðum eða sendiráðsbústöðum, þar sem hefðbundnum stássstofum hefur verið breytt í sýningagallerí. Með í för er sýningarstjórinn, Heiðar K. Rannversson, og hefur hann sagt gestum frá listamönnunum sem eiga verk á sýningunni.
Einn listamaður fer með í hverja ferð. Sýningin var fyrst sett upp í New York árið 2023 en þá fylgdi Hildigunnur Birgisdóttir henni úr hlaði. Frá New York fór sýningin til Amsterdam og með í för var listamaðurinn Styrmir Örn Guðmundsson. Til Helsinki fór svo Emma Hreiðarsdóttir. Árið 2024 var sýningin sett upp í París og þar var Arnar Ásgeirsson með í för og nú í nóvember var sýningin sett upp í Ósló en þá fór Una Björg Magnúsdóttir myndlistarmaður með í ferðina. Fritz Hendrik IV mun svo fylgja sýningunni til Tokyo í maí 2025.
Verkefnið er unnið í samstarfi Íslandsstofu og íslenskra sendiráða. Með fylgja myndir frá sýningunni í Ósló í nóvember 2024.
Outside Looking In, Inside Looking Out í Ósló
12.02.2025
