Guðjón Ketilsson er Myndlistarmaður ársins 2020

21.02.2020
Blue box

Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, afhenti Íslensku myndlistarverðlaunin við hátíðlega athöfn í Iðnó fimmtudaginn 20. febrúar. Guðjón Ketilsson var valinn Myndlistarmaður ársins fyrir sýninguna Teikn, í Listasafni Reykjanesbæjar.

Í umsögn dómnefndar kemur fram:

Guðjón Ketilsson (f. 1956) hlýtur Myndlistarverðlaun ársins 2020 fyrir sýninguna Teikn í Listasafni Reykjanesbæjar. Sýningin var samsett úr átta verkum sem tengdust með markvissri framsetningu í sýningarr ýminu og fjölluðu öll með einum eða öðrum hætti um tákn, táknmerkingu og „lestur“, í víðum skilningi.

Á sýningunni mátti sjá ýmiskonar þemu og hugmyndir sem hafa verið áberandi í verkum Guðjóns á síðustu árum, sett fram í nýjum verkum á einstaklega áhrifaríkan hátt. Sýningin var rökrétt framhald af höfundarverki listamannsins en jafnframt áhrifamikil úrvinnsla og viðbót við það, og vísar leiðina inn í nýja og spennandi merkingarheima. Guðjón Ketilsson er því vel að verðlaununum kominn að mati dómnefndar.

Eftirfarandi myndlistarmenn voru tilnefndir sem Myndlistarmaður ársins 2020:

  • Anna Guðjónsdóttir fyrir Hluti í stað heildar í Listasafni Reykjavíkur.
  • Guðjón Ketilsson fyrir Teikn í Listasafni Reykjanesbæjar.
  • Hildigunnur Birgisdóttir fyrir Universal Sugar í Listasafni ASÍ.
  • Ragnar Kjartansson fyrir Fígúrur í landslagi í i8.

Claire Paugam hlaut Hvatningarverðlaun ársins.

Claire er franskur myndlistarmaður sem búsett hefur verið á Íslandi um árabil. Hún lauk myndlistarnámi við Beaux-Arts de Nantes Métropole árið 2014 og meistaranámi við Listaháskóla Íslands 2016 og hefur síðan verið ákaflega virk í myndlistarumhverfinu, bæði á Íslandi og Frakklandi.

Í umsögn dómnefndar kemur fram:

Claire Paugam (f. 1991) hlýtur hvatningarverðlaunin 2020 fyrir metnaðarfullt og kröftugt framlag til myndlistar á árinu. Claire fæst að jöfnu við myndlist og önnur fjölbreytt verkefni á sviði sýningarstjórnunar, sviðshönnunar, gerð tónlistarmyndbanda, ljóða og textaverka. Má helst nefna einkasýningarnar Pouring Inside í sýningarrýminu Flæði sem var utandagskrárviðburður listahátíðarinnar Sequences IX og Versatile Uprising, gagnvirka innsetningu í gluggagalleríinu Veður og vindur, ásamt Raphaël Alexandre. Hún hefur einnig tekið þátt í fjölda samsýninga og annarra verkefna.

Claire vinnur með persónulega fagurfræði í verkum sínum og að mati dómnefndar hefur hún skýra og áhugaverða listræna sýn og er gjöfull og kröftugur þátttakandi í listinni.

Eftirfarandi myndlistarmenn voru tilnefndir til Hvatningarverðlauna ársins 2019:

  • Claire Paugam
  • Emma Heiðarsdóttir
  • Sigurður Ámundason

Í dómnefnd Íslensku myndlistarverðlaunanna 2019 – 20 sátu:

  • Anna Júlía Friðbjörnsdóttir (Samband íslenskra myndlistarmanna)
  • Kristín Dagmar Jóhannesdóttir (Listfræðafélag Íslands)
  • Helgi Þorgils Friðjónsson, formaður dómnefndar (Myndlistarráð)
  • Einar Falur Ingólfsson (fulltrúi safnstjóra íslenskra myndlistarsafna)
  • Jóhannes Dagsson (Listaháskóli Íslands)

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Um okkur