Haustúthlutun úr myndlistarsjóði

30.09.2024

Haustúthlutun úr myndlistarsjóði fór fram fimmtudaginn 26. september við hátíðlega athöfn í Safnahúsi Listasafns Íslands við Hverfisgötu að viðstöddum fjölda listamanna og annarra aðstandenda. Ráðherra menningar og viðskipta afhenti styrki úr myndlistarsjóði og formaður myndlistarráðs kynnti nýjan samstarfssamning við Sequences myndlistartvíæringinn.

Undirritun samstarfssamnings. Mynd: Sundayandwhitestudio

Ásdís Spanó, formaður myndlistarráðs, kynnti nýjan samstarfssamning um myndarlegan fjárstuðning myndlistarsjóðs við myndlistarhátíðina Sequences. Samningurinn gerir ráð fyrir 3.000.000 kr. styrk á ári til ársins 2027. Ásdís og Odda Júlía Snorradóttir, framkvæmdastjóri hátíðarinnar, skrifuðu undir samstarfssamninginn.  Sequences hátíðin hefur verið haldin frá árinu 2006 og þar hafa jafnan sýnt bæði erlendir og íslenskir samtímalistamenn. Hátíðin hefur verið og verður áfram rekin í góðu samstarfi við Reykjavíkurborg en þessum samningi er ætlað að veita enn meiri fyrirsjáanleika í rekstri hátíðarinnar. Ásdís sagði að myndlistarráð teldi hátíðina hafa mikla þýðingu fyrir myndlistarumhverfið á Íslandi og vera liður í uppbyggingu þess. 

Ásdís Spanó. Mynd: Sundayandwhitestudio.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra flutti ávarp og afhenti styrki úr myndlistarsjóði. Alls hlutu 60 verkefni brautargengi að þessu sinni en úthlutað var 33.300.000 kr. Sjóðnum bárust 187 umsóknir og sótt var um styrki fyrir rúmlega 200 milljónum króna. Í ávarpi sínu sagði Lilja Dögg að á Íslandi væri einstaklega öflugt myndlistarlíf og að það væri listafólkið í myndlist og öðrum skapandi greinum sem bæru hróður landsins og vigtuðu þyngst í því hvernig aðrar þjóðir mætu okkur.  

Lilja Dögg Alfreðsdóttir. Mynd: Sundayandwhitestudio.

Í stærsta flokkinn „Sýningarstyrkir“ barst 121 umsókn. Alls hlutu 40 verkefni styrki fyrir alls 21.300.000 kr. Hæsta styrkinn, 1.500.000 kr., hlaut myndlistarhátíðina HEAD2HEAD, sem haldin er víða um Reykjavík í október. Þá hlaut listamannarekna galleríið Kling & Bang 1.000.000 kr. fyrir framleiðslu sýninga í galleríinu. Listamaðurinn Ívar Valgarðsson hlaut 1.000.000 kr. í sýningastyrk fyrir einkasýningu á ljósmyndum í Listasafni Reykjanesbæjar og Listasafn Reykjavíkur hlaut 1.000.000 kr. fyrir sýningu á verkum kvenna í sýningastjórn Becky Forsythe. Önnur verkefni hlutu styrki á bilinu 300.000-800.000 kr.    

Ívar Valgarðsson, Helgi Þorgils Friðjónsson og Lilja Dögg Alfreðsdóttir. Mynd: Sundayandwhitestudio.

Í flokknum „Undirbúningsstyrkir” bárust 36 umsóknir. Ellefu verkefni hlutu styrk fyrir alls 7.000.000 kr. Þrjú verkefni hlutu hæstu styrkina, 1.000.000 kr. hvert, hlutu Listasafn Ísafjarðar fyrir undirbúning fjögurra sýninga á 100 ára afmæli safnsins á næsta ári, samtímalistasafnið Ars Longa á Djúpavogi fyrir undirbúning sumarsýningar 2025 í sýningastjórn Becky Forsythe og Þórhildar Tinnu Sigurðardóttur og Lotte Rose Kjær Skau fyrir undirbúning samsýningar íslenskra listamanna í Basel í Sviss á næsta ári. 800.000 kr. féllu í skaut Chiaochi Chou fyrir vistfræðilegt listrannsóknarverkefni sem endar með sýningum á Íslandi og í Taiwan. Önnur verkefni hlutu styrki að upphæð 300.000-500.000 kr.    

Ásdís Spanó, Greipur Gíslason og Vilhjálmur Hjálmarsson. Mynd: Sundayandwhitestudio.

Í flokknum „Útgáfu-, rannsóknar- og aðrir styrkir“ bárust 30 umsóknir. Níu verkefni hlutu styrki fyrir alls 5.000.000 kr. Hæsti styrkurinn, 1.000.000 kr. féll í skaut Listasafns Reykjavíkur fyrir verkefnið Útgáfa um konur sem ryðja sína eigin braut í myndlist á fyrri hluta 9. áratugarins. Einnig hlaut myndlistakonan Litten Nystrøm styrk að upphæð 600.000 kr. fyrir útgáfu bókar um glerjung og litaduft. Önnur verkefni hlutu styrki að upphæðum 400.000-500.000 kr.   

Mynd: Sundayandwhitestudio

Listi yfir styrkþega er aðgengilegur hér

Umsóknarfrestur fyrir vorúthlutun 2025 verður tilkynntur síðar.

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Um okkur