Nú í byrjun árs opnaði Hrafnhildur Arnardóttir / Shoplifter ásamt Lilju Baldursdóttur Höfuðstöðina sem er staðsett í gömlu kartöflugeymslunum við Ártúnsbrekkur. Höfuðstöðin er listrými sem hýsir nú varanlega innsettningu Hrafnhildar, Chromo Sapiens, en þar er einnig að finna kaffihús og safnbúð.
Innsetningin Chromo Sapiens, sem var upphaflega framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum 2019, hefur vakið umtalsverða athygli hjá breiðum hópi gesta, en verkið var einnig sett upp í Hafnarhúsi, Listasafns Reykjavíkur 2020 og vakti gleði gesta á öllum aldri. Nú stendur innsetningin opin öllum þeim sem áhuga hafa á að njóta íslenskrar myndlistar og menningu. Þess má geta að Hrafnhildur/Shoplifter er fyrst íslenskra myndlistarkvenna til að bjóða almenningi að upplifa verk sín í varanlegu sýningarrými.
Höfuðstöðin - Chromo Sapiens
Höfuðstöðin er staðsett í sögulegri braggabyggð sem voru byggðir á tímum seinni heimstyrjaldarinnar í Hvalfirði, síðar voru þeir fluttir í Ártúnsbrekkuna og notaðir sem kartöflugeymslur um margra ára skeið áður en þeir voru svo endurhannaðir með aðstoð arkitektsins Iwo Borkowicz. Höfuðstöðin er í tveimur samliggjandi bröggum, annar þeirra hýsir nú innsettninguna Chromo Sapiens en í hinum er fjölnotarými, verslun og kaffihúsi þar sem hægt er að sitja og virða fyrir sér fegurð Elliðardalsins frá kaffistofunni. Í Höfuðstöðinni verður einnig viðburðardagskrá, þar verður boðið upp á vinnustofur, tónleika, fyrirlestrar og margt fleira sem vert er að fylgjast með, því er Höfuðstöðin tilvalin staður til að njóta lista og menningar í náttúruperlu Reykjavíkur.
Eitt af markmiðum verkefnisins var að vera umhverfisvænt eins og mögulegt er. Mikið af efniviði sem hefur verið notað við gerð Höfuðstöðvarinnar er frá nær-umhverfinu og húsgögnin fyrir fjölnotarýmið eru hönnuð af Plastplan, sem er íslenskt hönnunar og plast endurvinnslu fyrirtæki sem býr til áferðafalleg „marmara“ plastefni sem verða að sérstæðu hönnunarverki. Hárlengingar sem er einkennisefniviður Shoplifter/Hrafnhildar eru einnig endurnotaður efniviður í innsettningum og öðrum myndlistarverkum hennar, en þetta er gjarnan efniviður sem oft er fargað kæruleysislega en er hér notaður til að endurvinna eitthvað sem er verðmætt og varanlegt.
Listsköpun Hrafnhildar Arnardóttur, sem einnig er þekkt sem Shoplifter, liggur á mörkum myndlistar, gjörninga og tísku og sækir hún áhrif frá dægurmenningu og fjöldaframleiðslu, auk alþýðulistar og handverkssögu. Á undanförnum fimmtán árum hefur hún á umfangsmikinn hátt kannað notkun og táknrænt eðli hárs, sjónræna og listræna möguleika þessarar líkamlegu afurðar og hvernig upplifa megi hár sem birtingarmynd sköpunar í nútíma menningu. Chromo Sapiens er þakið miklu magni af einkennisefniviði Hrafnhildar; gervihári. Litir, hljóð og aðlaðandi áferð leiða gesti í gegnum þrjú ólík rými, sem umlykja þá í myndrænum og hljóðrænum samruna en tónverkið sem ómar í innsetningunni semur hljómsveitin HAM.
Hrafnhildur Arnardóttir / Shoplifter(f. 1969) er einn af helstu samtímalistamönnum Íslands og er búsett í New York í Bandaríkjunum. Hrafnhildur hefur vakið mikla athygli fyrir verk sín úr náttúrulegu hári og gervihári sem hún notar í gerð skúlptúra, veggverka og innsetninga sem koma inná þemu eins og hégóma, tísku og samtímagoðsagnir. Meðal nýjustu verka Hrafnhildar eru einkasýningar í Kiasma – samtímalistasafni Finnlands (2019); Listasafni Íslands (2017); Walt Disney Concert Hall í Los Angeles (2017); og Qagoma, nútímalistasafni Queensland í Ástralíu (2016). Meðal annarra mikilvægra sýningaverkefna hennar má nefna stóra glugga-innsetningu með listahópnum assume vivid astro focus (avaf) fyrir MoMA nútímalistasafnið í New York (2008). Árið 2011 hlaut Hrafnhildur Norrænu textílverðlaunin og heiðursorðu Prins Eugen frá sænsku krúnunni fyrir listrænt framlag sitt til norrænnar textílhefðar.
Höfuðstöðin er staðsett á Rafstöðvarvegi 1a, í kartöflugeymslunum við Ártúnsbrekku. Opið er frá kl. 10-18 á virkum dögum en frá kl. 11-17 um helgar.