Hver hlýtur viðurkenningu fyrir útgáfu ársins?

09.12.2024

Það er hefð fyrir því að útgefið efni um myndlist hljóti viðurkenningu þegar Íslensku myndlistarverðlaunin eru afhent ár hvert. Verðlaunin fyrir árið 2024 verða afhent í mars 2025. Fimm manna dómnefnd undir forystu formanns myndlistarráðs, sem að þessu sinni er Ásdís Spanó, fer yfir verkin og velur eitt sem hlýtur viðurkenninguna. 

Hér verður gerð tilraun til þess að gera 23 útgáfum ársins 2024 skil, í stafrófsröð eftir titli verksins:

 

Aðeins fyrir starfsfólk aðeins fyrir

Bókverk eftir Þröst Valgarðsson. Ljósmyndir og textar. Í inngangi segir: „Bara fyrir starfsfólk bara fyrir er bókverk um segðaparið spurningu og svar. Leit þeirra að hvort öðru og leið þeirra í gegnum augnablik listamanns sem stendur andspænis trekanti fagurfræðarinnar, orðum, táknmyndum og veruleika.“ Þröstur gefur bókina út sjálfur. 

 

Aðgát

Sýningaskrá samnefndrar sýningar Borghildar Óskarsdóttur í Listasafni Reykjavíkur. Sýningin og verkið er afrakstur rannsóknar Aðalheiðar Lilju Guðmundsdóttur á ferli listakonunnar í samstarfi safnsins og Háskóla Íslands. Í bókinni eru myndir af verkum, textar eftir listakonuna og æviágrip, ritað af Æsu Sigurjónsdóttur. Verkið er á íslensku og ensku, gefið út af safninu með stuðningi Safnaráðs og Myndlistarsjóðs. 

 

Að liðnum sjötíu árum 

Texti og myndir af verkum Kristins G. Jóhannssonar listmálara á Akureyri. Bókin er gefin út í tilefni af 70 ára afmæli listamannsins og sýningar hans.

 

Bláleiðir

Listræn skýrsla um æviverk og arfleifð myndlistarkonunnar Guðrúnar Kristjánsdóttur eftir Oddnýju Eiri Ævarsdóttur, Guðrúnu sjálfa og Snæfríð Þorsteins. Bókin inniheldur fjölda mynda af verkum Guðrúnar, texta um hana og verkin hennar, eftir hana og viðtöl við hana. Bókin er gefin út af Eirormi, styrkt af Myndlistarsjóði, Miðstöð íslenskra bókmennta, Myndstefi, Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar og Berg Contemporary. 

 

Dauðadjúpar sprungur 

Ljósmyndabók eftir Hallgerði Hallgrímsdóttur. Bókin er tileinkuð andvana fæddri dóttur Hallgerðar sem kom í heiminn árið 2015. Titill bókarinnar er sóttur í ljóð Jóhanns Sigurjónssonar – Sofðu unga ástin mín. Myndirnar eru af fólki og landslagi, náttúrulegu og manngerðu. Bókin er gefin út af Blackbook Publications og er útgáfan styrkt af Myndlistarsjóði og Myndstefi.

 

Egill Sæbjörnsson og óendanlegir vinir alheimsins

Sýningaskrá með sýningu Egils í Listasafni Íslands. Ritstjóri er Ingibjörg Jóhannsdóttir safnstjóri. Arnbjörg María Danielsen, Ágústa Oddsdóttir og Margrét Elísabet Ólafsdóttir skrifa um Egil Sæbjörnsson og verk hans. Bókina prýða fjöldi mynda af verkum Egils og sýningunni. Bókin er gefin út af safninu með stuðningi Myndstefs. 

 

Flæðarmál

Aðalheiður Valgeirsdóttir skrifar um líf og listferil Jónínu Guðnadóttur leirlistakonu. Bókin var gefin út samhliða yfirlitssýningu á verkum Jónínu í Hafnarborg. Í bókinni er fjöldi mynda af verkum Jónínu auk texta sem eru bæði á íslensku og ensku. Bókin er gefin út af Hafnarborg með stuðningi Myndlistarsjóðs og Safnaráðs. 

 

Gía – Sýnisbók safneignar XI 

Safnasafnið í Eyjafirði gefur út elleftu sýnisbók úr safneign safnsins sem að þessu sinni hverfist um Gígju Thoroddsen.Í bókinni eru myndir af verkum hennar og textar eftir Atla Bollason, Ástu Thoroddsen, Margréti M.Norðdahl og Níels Hafstein. Útgáfan er styrkt af Safnaráði. 

 

Harmljóð um hest

Ljósmyndabók eftir listamanninn og kvikmyndaleikstjórann Hlyn Pálmason með inngangstexta eftir Soffíu Auði Birgisdóttur. Útgefandi er Kind útgáfa.

 

Ísabrot – jöklar í íslenskri myndlist

Fjórtán verk úr safneign Listasafns Íslands þar sem unnið er með jökla. Bókin er einskonar verkefnabók eða kennslubók með myndum af verkunum og verkefnum þeim tengdum. Höfundar eru Ragnheiður Viginsdóttir, Ingibjörg Hannesdóttir, Marta María Jónsdóttir og María Elísabet Bragadóttir. Útgefin af Listasafni Íslands og Myndstefi með stuðningi Barnamenningarsjóðs. 

 

Járn, hör, kol og kalk 

Sýningarskrá samnefndar sýningar á verkum Þóru Sigurðardóttur í Listasafni Íslands í ritstjórn Kristínar G. Guðnadóttur. Í bókinni eru, auk mynda af sýningunni, textar eftir fimm höfunda; Erin Honeycutt, geir Svansson, Gunnar Harðarson, Sigurbjörgu Þrastardóttur og Ann-Sofie Gremaud. Bókin er gefin út af Penna sf. með stuðningi Myndlistarsjóðs og Muggs ferðasjóðs. 

 

Jólasýningin 2022-2024 

Ritröð útgáfa samhliða jólasýningum í Ásmundarsal. Birt eru viðtöl við 103 listamenn sem hafa sýnt á sýningunum, sýndar myndir af verkum þeirra og innsýn veitt inn í vinnustofur þeirra og sköpunarferli. Ritstjóri er Helga Jóakomsdóttir og formála skrifar Aðalheiður Magnúsdóttir.

 

Korriró og dillidó – Þjóðsagnamyndir Ásgríms Jónssonar

Bókin inniheldur texta og listaverk sem voru hluti af samnefndri sýningu í Listasafni Íslands 2018. Bókina prýða myndir af verkum Ásgríms sem tengjast þjóðsögunum og textar eftir Dagnýju Heiðdal. Textar eru bæði á íslensku og ensku – safnið gefur út. Ásgrímur ánafnaði þjóðinni rúmlega 2000 verk og 150 teiknibækur ásamt húseign og innbúi að Bergstaðastræti 74, þar sem nú er Safn Ásgríms Jónssonar, eitt sérsafna Listasafns Íslands. 

 

Leitað í tómið - listsköpun Gerðar Helgadóttur

Safn fræðigreina um listsköpun Gerðar á íslensku og ensku eftir fjóra höfunda; Hallgerði Hallgrímsdóttur, Æsu Sigurjónsdóttur, Benedikt Hjartarson og Hönnu Guðlaugu Guðmundsdóttur. Inngang ritar Cecilie Gaihede ritstjóri og lokaorð á Brynja Sveinsdóttir. Bókin er gefin út af Gerðarsafni og styrkt af Safnasjóði.

 

Rófurass 

Bókverk eftir listakonuna Bjargeyju Ólafsdóttur. Lítil bók með ljósmyndum. 

 

SAMSPIL – myndhöggvarar á Korpúlfsstöðum 1973-1993

Bókin er gefin út í tilefni  þess að 50 ár eru síðan Myndhöggvarafélagið í Reykjavík setti upp fyrstu almennu vinnustofurnar fyrir myndlistarmenn á Íslandi á Korpúlfsstöðum og 100 ára fæðingarafmælis Ragnars Kjartanssonar eldri. Í bókinni er fjallað um feril Ragnars, sýninguna SAMSPIL þar sem 13 myndhöggvarar tóku þátt og áhrifaríka sögu vinnustofanna og starfsemi Myndhöggvarafélagsins. Útgefandi er murk og er bókin styrkt af Myndlistarsjóði, Myndstefi, Listasjóði Dungals og Miðstöð íslenskra bókmennta.

 

Sjáandi sálir – Einar Jónsson 

Lýsingar á tíu verkum listamannsins á, sögulegum upplýsingum um verkin og svo frásagnir safngesta af verkunum, hinum sjáandi sálum. Höfundur verksins er Sigurður Trausti Traustason. Bókiner á íslensku og ensku, gefin út af Listasafni Einars Jónssonar og útgáfan styrkt af Miðstöð íslenskra bókmennta.

 

Sævar Karl – Paintings

Myndir af málverkum Sævars Karls með textum á ensku og þýsku. 

 

The Air in Beteween 

Sýningaskrá samnefndrar sýningar, sem á íslensku útleggst „Milliloft“ í Listasafninu á Akureyri eftir Claudia Hausfeld & Detel Aurand. Sýningin byggir á viðvarandi póstsendingum á listaverkum á milli listamannanna og inniheldur sýningaskráin myndir af verkunum auk bréfa milli listamannanna, á ensku. Texta ritar Katharina Wendler sýningarstjóri. Skráin er gefin út af Listasafninu á Akureyri með stuðningi Goethe Institut og Myndlistarsjóðs. 

 

Usli – Hallgrímur Helgason

Sýningaskrá í tilefni samnefndrar yfirlitssýningar í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum. Í bókinni eru myndir af verkum Hallgríms og frá sýningunni, auk texta eftir Aldísi Snorradóttur, Silju Báru Ómarsdóttur og Rögnu Sigurðardóttur sem tekur viðtal við listamanninn. Ritstjóri er Ólöf K. Sigurðardóttir. Verkið nýtur stuðnings Myndlistarsjóðs.

 

Útlit loptsins

Veðurdagbók eftir Einar Fal Ingólfsson. Á baksíðu er Útliti loptsins lýst sem myndlistarverki í 366 hlutum, veðurathuganir Einars Fals á árunum 2022-3 (textar og ljósmyndir) samanborið við veðurathugun Árna Thorlaciusar 170 árum áður. Formála ritar Jón Kalman Stefánsson skáld, í bókinni er ljóð eftir Anne Carson. Bókin kom út samhliða samnefndri sýningu í Listasafninu á Akureyri. Bókin er gefin út af Kind útgáfu og styrkt af Myndstefni og Miðstöð íslenskra bókmennta. 

 

140 verk úr safneign Listasafns Íslands 

Fjallað er um valin listaverk í safneigninni í tilefni af 140 ára afmæli safnsins. Ritnefnd skipa þau Anna Jóhannsdóttir, Dagný Heiðdal og Ingibjörg Jóhannsdóttir. Höfundar texta eru að auki Aðalheiður Valgeirsdóttir, Bera Nordal, Halldór Björn Runólfsson, Harpa Þórsdóttir, Inga Jónsdóttir, Ólafur Kvaran, Pari Stave, Ragna Sigurðardóttir, Rakel Pétursdóttir og Sunna Ástþórsdóttir. Textar eru á íslensku og ensku. Útgefandi er safnið.

 

1978

Bókverk eða sýningaskrá sýningarinnar 1978 eftir Steingrím Eyfjörð. Sýningin varpar ljósi á listasöguna á Íslandi 1957-1980 með augum Steingríms. Fjallað er um verkin og í lokin er nokkurra síðna samtal listamanna og listfræðinga við Steingrím. Verkið er á íslensku og ensku, gefið út af Listval Gallery og er útgáfan styrkt af Bræðrunum Baldursson.  

Útlit loptsins, Einar Falur Ingólfsson, Kind útgáfa.

Útlit loptsins, Einar Falur Ingólfsson, Kind útgáfa.

Bláleiðir, Oddný Eir Ævarsdóttir, Guðrún Kristjándóttir, Snæfríð Þorsteins, Eirormur.

Bláleiðir, Oddný Eir Ævarsdóttir, Guðrún Kristjándóttir, Snæfríð Þorsteins, Eirormur.

Borghildur Óskarsdóttir, Listasafn Reykjavíkur.

Borghildur Óskarsdóttir, Listasafn Reykjavíkur.

Dauðadjúpar sprungur, Hallgerður Hallgrímsdóttir.

Dauðadjúpar sprungur, Hallgerður Hallgrímsdóttir, Blackbook Publications.

Sævar Karl, Paintings

Sævar Karl, Paintings.

Samspil

Samspil, útg. Murk.

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Austurstræti 5