Það var líflegt og margmennt á verðlaunaafhendingu Íslensku myndlistarverðlaunanna í Iðnó, fimmtudagskvöldið 20. mars. Verðlaunin voru afhent þar í áttunda sinn. Myndlistarráð stendur að baki verðlaununum sem hafa það að meginmarkmiði að vekja athygli á því sem vel var gert á sviði myndlistar á liðnu ári.

Pétur Thomsen, Photo: sundayandwhitestudio
Pétur Thomsen (f.1973) hlaut aðalverðlaunin - Myndlistarmaður ársins 2025 fyrir sýninguna Landnám í Hafnarborg, menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar. Sýningin stóð frá 9. nóvember 2024 til 16. febrúar 2025.
Samband mannfólks við náttúruna hefur verið megininntak í ljósmyndaverkum Péturs þar sem finna má vitnisburð um ágang mannsins á umhverfi sitt. Pétur lauk MFA-prófi í ljósmyndun frá École nationale supérieure de la photographie í Arles, Frakklandi, árið 2004. Hann hefur hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín og verið áberandi þátttakandi í sýningarhaldi og fjölbreyttum verkefnum hér á landi og erlendis.
Sýningin Landnám er langtíma-ljósmyndaverk þar sem Pétur tekur fyrir sambýli manns og náttúru frá sjónarhóli ójafnvægis og áverka á jörðinni eftir umgang og framkvæmdir. Í verkunum má sjá rask á náttúrunni, líkt og sár eða rof í jarðvegi og merki um skeytingarleysi í umgengni mannfólks, sem listamaðurinn staldrar við og varpar ljósi á.
Mat dómnefndar er að Landnám sé einstaklega vel útfærð sýning, frá framkvæmd til framsetningar verkanna og að í henni megi skynja vitund um náttúruna og umhyggju fyrir henni. Með djúpri þekkingu á ljósmyndamiðlinum fangar Pétur Thomsen í verkum sínum inntak og hugmyndafræði sem á sýningunni umhverfist í samtal við áhorfandann á áhrifaríkan hátt.
Helena Margrét Jónsdóttir hlaut Hvatningarverðlaun Íslensku myndlistarverðlaunanna. Dómnefndin komst svo að orði að málverk Helenu virkjuðu ímyndunaraflið og færðu áhorfandann inn í draumkenndan hugarheim. Listakonan Shoplifter afhenti viðurkenninguna. Hlaut Helena Margrét kr. 500.000 í verðlaunafé.
Heiðursviðurkenningu myndlistarráðs árið 2024 hlýtur Erró, öðru nafni Guðmundur Guðmundsson, fæddur í Ólafsvík árið 1932. Erró er í fremstu röð myndlistarmanna sem Ísland hefur átt og hlýtur viðurkenningu fyrir höfundarverk sitt á ferli sem spannar rúmlega sex áratugi og er einstakt í íslensku og alþjóðlegu samhengi.
Verk Errós eru þekkt fyrir myndauðgi og honum hefur verið lýst sem rándýri og „gráðugum neytanda myndefnis“ sem vísar til þeirrar vinnuaðferðar hans að nota fundnar myndir af öllu tagi frá ýmsum menningarheimum sem hann safnar, flokkar og endurnýtir í uppröðun án stigveldis. Erró hefur einstakt auga fyrir samsetningum, en hafnar hugmyndinni um listamanninn sem snilling og frumskapanda. Upprunaleg róttækni hans felst í viljanum til að taka myndlistina niður af stalli hálistarinnar með notkun á alþýðlegu myndmáli. Hann var ungur maður sinnar samtíðar og hefur haldið áfram að endurnýja sig allt til þessa dags.
Að auki voru veittar þrjár aðrar viðurkenningar:
- Viðurkenningu myndlistarráðs fyrir áhugaverðasta endurlit ársins 2024 hlýtur sýningin Hamskipti | Listsköpun Gerðar Helgadóttur. Sýningin var sett upp í tilefni 30 ára afmælis Gerðarsafns í Kópavogi.
- Viðurkenningu myndlistarráðs fyrir áhugaverðustu samsýningu ársins hlýtur Textílfélagið fyrir 50/100/55. Titill sýningarinnar vísar til þess að 50 ár eru frá stofnun félagsins en á sýningunni mátti sjá 100 verk eftir 55 sýnendur.
- Viðurkenningu myndlistarráðs fyrir útgáfu ársins 2024 hlýtur ljósmyndabókin FÖR eftir Agnieszku Sosnowska. Bókin er einstakt verk þar sem náttúra, samfélag og persónuleg saga mætast í áhrifaríkri heild.
Myndlistarráð stendur að baki verðlaununum sem hafa það að meginmarkmiði að vekja athygli á því sem vel var gert á sviði myndlistar á liðnu ári.