Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá hlaut Heiðursviðurkenningu

09.03.2021
Íslensku myndlistarverðlaunin 2021 - Kristín Jónsdóttir Ljosmynd: Owen Fiene

Í fyrsta skipti veitti myndlistarráð Heiðursviðurkenningu ásamt viðurkenningu fyrir útgefið efni sem talið er hafa mikilvægt gildi fyrir kynningu og rannsóknir á íslenskri myndlist.

Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá hlaut Heiðursviðurkenningu fyrir framlag sitt til íslenskrar myndlistar.

Í umsögn myndlistarráðs kemur fram:

Með íhugulum verkum sínum hefur hún vakið okkur til umhugsunar um siðferðileg álitamál í fortíð og nútíð og beint sjónum okkar að tímanum og hverfulleikanum, viðkvæmri náttúru landsins og tjáningarríku tungumálinu. Auk þess hefur Kristín fært menningarsögulega mikilvægan efnivið, ullina, inn í samtímalistina og sýnt fram á hvílíkan fjársjóð við eigum í íslensku ullinni.

Kristín Jónsdóttir er fædd á Munkaþverá í Eyjafirði árið 1933. Hún stundaði nám í Handíða- og myndlistaskólanum í Reykjavík 1949 til 1952 og frá 1954 til 1957 var hún nemandi í við textíldeild Kunsthåndværkerskolen í Kaupmannahöfn. Árið 1959 var hún við nám í París í École des Arts Italiennes og Atélier Freundlich og veturinn 1963 til 1964 var hún við nám á Ítalíu við Universitat per Stranieri í Perugia. Kristín kenndi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands fram til 1975 þegar hún ákvað að helga sig myndlistinni og hefur síðan þá haldið yfir 20 einkasýningar á Íslandi, í Bandaríkjunum og Kanada. Einnig hefur hún tekið þátt í fjölda samsýninga bæði hér á landi og erlendis. Verk eftir hana eru í helstu listasöfnum landsins og einnig í söfnum í Evrópu og Bandaríkjunum. Hún hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar meðal annars silfurverðlaun Alþjólega textílþríæringsins í Lódz í Póllandi árið 1992. Kristín hefur verið virkur félagi í Textílfélaginu og var brautryðjandi hér á landi við gerð verka úr þæfðri ull.

Íslensku myndlistarverðlaunin 2021 - Kristín Jónsdóttir - Landid hvita

Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá, Landið hvíta, 1962, sáldþrykk á hör. Birt með leyfi listamannsins og i8 Gallery.

Viðurkenning fyrir útgáfu hlaut Listasafn Reykjavíkur

Þá fékk Listasafns Reykjavíkur viðurkenningu fyrir útgáfu sem fylgir yfirlitssýningum á Kjarvalsstöðum á verkum myndlistarmanna á miðjum ferli.

Viðurkenning á útgefnu efni 2021: Ritröð Listasafns Reykjavíkur

Þegar hafa verið haldnar fjórar yfirlitssýningar í þessari sýningaröð og hefur hverri sýningu fylgt bók sem jafnframt er sýningarskár. Metnaður er lagður í útgáfuna, sem er bæði á íslensku og ensku. Í hverri bók er að finna myndir af verkum listamannsins ásamt vönduðum greinum fræðafólks og listamannsins sjálfs – sem dýpkar skilning á höfundaverki listamannsins.

Myndlistarráð 2019-2022 er skipað

  • Helgi Þorgils Friðjónsson, formaður, skipaður án tilnefningar af Mennta- og menningarmálaráðherra.
  • Dagný Heiðdal, varaformaður, tilnefnd af Listasafni Íslands.
  • Hannes Sigurðsson, tilnefndur af Listfræðafélagi Íslands.
  • Guðrún Erla Geirsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra myndlistarmanna
  • Hlynur Helgason, tilnefndur af Sambandi íslenskra myndlistarmanna

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Austurstræti 5