Ljósmyndahátíð Íslands er alþjóðleg ljósmyndahátíð, haldin annað hvert ár, nú dagana 17.-26. janúar. Hátíðin er haldin á fjórtán sýningarstöðum á höfuðborgarsvæðinu. Stjórnendur hátíðarinnar eru Katrín Elvarsdóttir og Pétur Thomsen. Hátíðin stendur yfir í níu daga en flestar sýningarnar vara mun lengur. Á vefsíðu hátíðarinnar www.tipf.is má finna dagskrá og tengla á allar sýningar og viðburði. Meðal viðburða má nefna Ljósmyndarýni sem er stuttur fundur þar sem ljósmyndari eða listamaður mætir með myndir sínar, á pappír eða á stafrænu formi og sýnir viðkomandi rýnanda. Rýnendur eru bæði erlent og íslenskt fagfólk, ýmist safn- og/eða sýningastjórar á söfnum og galleríum eða ritstjórar ljósmyndatímarita. Auk þess að veita þátttakendum umsögn um verk þeirra getur þátttaka í ljósmyndarýni leitt af sér ýmis tækifæri eins og boð á erlendar hátíðir og/eða sýningaþátttöku innanlands sem utan. Markmiðið með ljósmyndarýninni er að útvíkka tengslanet ljósmyndara í öllum greinum og listamanna sem vinna með miðilinn ásamt því að veita þeim ráðleggingar og endurgjöf um verk sín. Um leið er hún mikilvæg kynning á íslenskri ljósmyndamenningu. Skráningu í ljósmyndarýni er lokið. Opnunarsýning hátíðarinnar er samsýningin Veðrun í Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Þar sýna sextán félagar í Félagi íslenskra samtímaljósmyndara í sýningarstjórn Daríu Sólar Andrews. Aðrar stærri sýningar fara meðal annars fram í Listasafni Íslands, þar verður samsýningin Nánd hversdagsins, í Gerðarsafni í Kópavogi opnar samsýningin Stara, í Hafnarborg í Hafnarfirði er einkasýning Helga Vignis Bragasonar - Kyrr lífsferill, í BERG Contemporary sýna Hallger´ður Hallgrímsdóttir og Nina Zurier á sýningunni Sjónarvottur og í Gallerí Port sýna Hrafn Hólmfríðarson og Þórsteinn Svanhildarson á sýningunni Sitthvoru meginvið sama borð. Aðrir sýningastaðir eru taldir upp hér neðar og eins og fyrr segir má finna tengla á sýningarnar á vefsíðu hátíðarinnar.
Á milli Svavar Jónatansson, Alana : Seen just now: BERG Contemporary Hallgerður Hallgrímsdóttir og Nina Zurier sýna ljósmyndir á sýningunni Sjónarvottur. Verk Hallgerðar sem til sýnis verða eru hluti af seríu sem ber titilinn Ósýnilegt stríð / Sýnilegt stríð og byggir á fundnum stereógrafíum sem teknar voru á glerplötur í fyrri
Heimsstyrjöldinni, auk litmynda af gróðri sem Hallgerður tók á virkiseyjum Suomenlinna í Helsinki.
Nina sýnir verk úr seríu sinni Gervi landslag sem samanstendur af ljósmyndum búnum til með aðstoð gervigreindar, þar sem hún varpar fram áleitnum spurningum um höfundarrétt og þróun ljósmyndarinnar sem miðils í sögulegu samhengi. Endurtekning, orðaval og skipanir myndhöfundar skapa ímyndað myndefnið á ljósmyndunum, og má því segja að hún fangi ljósmyndir af því sem ekki fyrirfinnst í raunveruleikanum.
Titill sýningarinnar, Sjónarvottur, vísar því annars vegar í iðju ljósmyndarans, hvort sem hann mundar vélina, dregur gamlar myndir fram í dagsljósið eða skapar þær með gervigreindarforriti. Þó gjarnan sé talað um hlutlaust vitni, vott, er ljósmyndari það sjaldnast heldur hefur hann vald þess sem skráir söguna. Við erum öll sjónarvottar líðandi stundar.
Fischersund Hertta Kiiski og Janni Punkari sýna verk á sýningunni sky worm´s secert. Gallerí Kannski Þrír listamenn eiga verk á sýningunni Sprungur, þau Lisa Kereszi, Magdalena Lukasiak og Nermine El Ansari. Gallery Port Sitthvoru megin við sama borð er samsýning tveggja ljósmyndara sem sett er upp í listamannarekna galleríinu Gallery Port við Hallgerðargötu í Laugarneshverfi. Ljósmyndararnir Hrafn Hólmfríðarson (Krummi) og Þórsteinn Svanhildarson eiga það sameiginlegt að lifa í návígi við fötlun en þó á ólíkan hátt. Þórsteinn veitir umönnun á meðan Hrafn þiggur hana.
Hrafn (f. 1990) fékk heilablæðingu á heilastofn árið 2009 og er líkamlega fatlaður í kjölfar áfallsins. Hann á við jafnvægistruflanir að stríða, ásamt skerðingu á fínhreyfingum og snertiskyni í hægri hlið líkamans. Í verkinu sýnir Hrafn ljósmyndir sem veita innsýn í samband hans við móður sína, Fríðu.
Þórsteinn (f. 1988) eignaðist dóttur sína Sól sumarið 2021. Sól fæddist með afar sjaldgæft heilkenni, Rubinstein Taybi, og veldur það þroskahömlun og líkamlegri fötlun. Í verkinu sýnir Þórsteinn ljósmyndir úr daglegu lífi fjölskyldunnar sem reynir þrátt fyrir fjölda áskoranna að lifa hefðbundnu lífi.
Í gegnum myndrænt samtal miðla þeir sjónarhorni hvors annars og öðlast skilning á gáruáhrifum sem fötlun hefur á þeirra nærumhverfi. Gerðarsafn Yfirfull af lífi feta verkin sig í kring um sjálf listamannanna Adele Hyry, Dýrfinnu Benitu Basalan, Jenny Rova, JH Engström, Jóa Kjartans, Kristins G. Harðarsonar, Michaels Richardt og Sadie Cook á samsýningunni Stara.
Fólkið í sýningunni stendur berskjaldað frammi fyrir áhorfendum. Þau bjóða okkur að koma nær, stara á sig. En þau stara líka til baka, eru síður en svo valdalaust viðföng ljósmyndarans heldur aðalleikararnir í sinni sögu. Við erum velkomin en höfum stigið inn á þeirra yfirráðasvæði. Verkin eru róttæk hvísl og við þurfum að koma inn fyrir til að heyra í óeirðinni. Hún býr í persónulegum frásögnum, sögum heimsins sem sagðar eru frá einstöku sjónarhorni hvers listamanns.
Ljósmyndamiðillinn er í aðalhlutverki á sýningunni en ófullkomleiki einkennir margar myndanna þar sem úthugsaðri myndbyggingu og tæknilegri fullkomnun er kastað á glæ til að nálgast einlægni, til að komast nærri lífinu. Hráleikanum er beitt til að fá okkur til að sjá út frá tilfinningalegri vídd, til að sýna okkur orku, tráma, kaos og drama lífsins en líka húmorinn og uppátækjasemina. Hefðbundnar reglur ljósmyndamiðilsins eru brotnar í fölskvalausum óði til miðilsins. Hér er að finna mikla fegurð en þetta er ekki fegurð fagurbókmennta og landslagsmálverks, hér eru drunur og pönktextar, dagbókarfærslur og opin hjörtu, líkamsvessar og berskjöldun sem í ofurmjúkri viðkvæmni sinni verður óbrjótanleg.
Grafíksalurinn Hlynur Helgason sýnir ljósmyndir á sýningunni Alls engin þekking. Verkin á sýningunni er ný röð bláprenta frá þessu ári, niðurstöður rannsókna á möguleikum gervigreindar í myndgerð. Hafnarborg Helgi Vignir Bragason, Kyrr lífsferill. Sýningin er myndræn rannsókn á byggingum og byggingarefnum – sem hafa verið viðfang ljósmyndarans um langa hríð. Myndefnið felur í sér marglaga greiningu á upphafi og endalokum bygginga, þar sem Helgi skoðar á gagnrýninn hátt fjölmargar hliðar byggingariðnaðarins, svo sem efnisnýtingu, sóun og umhverfisáhrif. Á sýningunni má meðal annars sjá kyrralífsmyndir sem unnar eru út frá byggingarúrgangi eða velmegunartáknum af byggingarsvæðum, auk mynda af steypubrotum og teikninga af byggingum sem hafa verið rifnar langt fyrir aldur fram. Sýningarstjóri Aldís Arnardóttur. Listamenn Gallerí Brynjar Gunnarsson sýnir verk á sýningunni Borgin. Listhús Ófeigs Christine Gísladóttir sýnir verk á sýningunni Friðarþrá. Á sýningunni opnar Christine á hugrenningar sínar þar sem togast á leitin að hinu góða og fagra í hversdagsleikanum og óttinn við ófriðinn sem nú ríkir víðsvegar á jörðinni. Inn á milli blandast svo von og friðarþrá.
Listasafn Íslands Samsýningin Nánd hversdagsins samanstendur af rúmlega 60 ljósmyndum eftir þekkta alþjóðlega listamenn, þau Agnieszku Sosnowska, Joakim Eskildsen, Niall McDiarmid, Orra Jónsson og Sally Mann. Verkin á sýningunni voru valin úr ákveðnum myndaröðum úr höfundarverki hvers og eins listamanns þar sem birtist djúp ástríða fyrir því að ljósmynda fólk á þeim stöðum sem standa því næst. Sýningin hverfist um þá hugmynd að ákveðin augnablik sé aðeins unnt að fanga með því að ljósmyndarinn byggi upp nánd, eftirtekt og íhygli gagnvart viðfangsefnum sínum yfir langan tíma. Verkin á sýningunni bera þess glöggt vitni hve vel ljósmyndararnir þekkja þá sem þeir eru að mynda enda er nálgun þeirra þrungin væntumþykju. Ljósmyndirnar sýna einnig hve viljugar fyrirsæturnar eru til að taka þátt í hinu listræna ferli. Traustið og skilningurinn sem þar er að verki jaðrar jafnvel stundum við að vera listrænt samstarf.
Ljósmyndasafn Reykjavíkur Samsýningin Veðrun er opnunarsýning hátíðarinnar. Þar sýna sextán félagar í Félagi íslenskra samtímaljósmyndara; Bára Kristinsdóttir, Björn Árnason, Bjargey Ólafsdóttir, Bragi Þór Jósefsson, Claire Paugam, Einar Falur Ingólfsson, Eva Schram, Hallgerður Hallgrímsdóttir, Jóna Þorvaldsdóttir, Katrín Elvarsdóttir, Kristín Sigurðardóttir, María Kjartansdóttir, Nina Zurier, Stuart Richardson, Valdimar Thorlacius og Þórsteinn Svanhildarson. Listamennirnir nota ljósmyndamiðilinn á ólíkan hátt og vinna með mismunandi þemu. Sumar ljósmyndirnar sýna náttúruna í allri sinni dýrð þar sem finna má sterkt fyrir því hversu lítil mannveran er í samanburði við náttúruöflin. Í öðrum verkum sjáum við yfirgefið landslag þar sem sjónum er beint að umhverfisvernd með skírskotun í umhverfisvá og neysluhyggju. Sýningarstjóri er Daría Sól Andrews. Neskirkja Þórdís Jóhannesdóttir sýnir verk á sýningunni Gerð. Safnahúsið Bókin er núna, Hans Gremmen frá FW books í Amsterdam.