Máttur inngildingar

11.11.2024
Verk eftir Helgu Matthildi Vidarsdottur.jpg

Máttur inngildingar: Starfsemi Listvinnzlunnar og mikilvægi sýnileika fatlaðs listafólks.

Seinustu ár hefur verið mikil framþróun þegar kemur að fjölbreytileika og aðgengi innan listheimsins sem sögulega hefur verið heldur einsleitur. Sýningarrými vestræna heimsins hafa nánast einungis verið fyllt af verkum eftir sís og gagnkynhneigða, ófatlaða hvíta karlmenn. Hugarfar þetta hefur þó verið að breytast og batna seinustu áratugi þökk sé einstaklingum og verkefnum sem hafa einbeitt sér að því að vinna að inngildingu innan listheimsins.

Plakat eftir Elínu S. M. Ólafsdóttur

Plakat eftir Elínu S. M. Ólafsdóttur

Elín S. M. Ólafsdóttir, listakona

Elín S. M. Ólafsdóttir, listakona

Verk eftir Helgu Matthildi Viðarsdóttur

Verk eftir Helgu Matthildi Viðarsdóttur

Helga Matthildur Viðarsdóttir, listakona

Helga Matthildur Viðarsdóttir, listakona

Listvinnzlan var formlega stofnuð árið 2022 af myndlistarkonunni Margréti M. Norðdahl og vinnur að inngildingu í listheiminum hérlendis. Margrét sér um Listvinnzluna ásamt Lee Lorenzo Lynch og öðru listafólki, þar  má nefna Elínu S. M. Ólafsdóttur (Ellu), Kolbein Jón Magnússon, Atla Má Indriðason, Helgu Matthildi Viðarsdóttur, Gígju Garðarsdóttur og Þóri Gunnarsson, sem er einnig þekktur sem Listapúkinn. Skilgreina þau hugtakið inngildingu svo:

„Inngilding felur í sér margbreytileika, jafnrétti og jafnræði. Hún felur í sér að við séum samþykkt eins og við erum. Af ólíkum þjóðernum, með fjölbreyttan húðlit, fötluð og ófötluð, af öllum kynjum, kynhneigð, aldri, stétt og svo framvegis. Inngilding er að við fáum sömu tækifærin, valdeflingu og einstaklingsbundinn stuðning sem við þurfum til að nýta okkur tækifærin. Inngilding er þegar við tilheyrum.“

Inngilding er nýyrði sem var innleitt í íslenska tungu árið 2021. Orðið er dregið frá enska orðinu inclusion. Áður fyrr vantaði hreinlega í málið orð sem náði utan um hugtakið þegar jaðarsettir einstaklingar tilheyra og fá þann stuðning sem hentar þeim. 

Margrét M. Norðdahl

Margrét M. Norðdahl

Lee Lorenzo Lynch

Lee Lorenzo Lynch

Ég heimsótti Listvinnzluna í Samfélagshúsið í Bólstaðarhlíð. Á döfinni hjá þeim er að opna listmiðstöð með vinnustofum og aðstöðu til sköpunar og námskeiðahalds. Þangað til að húsnæðið kemur hafa þau fengið að vera með aðstöðu til sköpunar og vinnu í Samfélagshúsinu. Þar voru Ella, Þórir, Helga, Kolbeinn, Atli og Gígja að vinna að listaverkum. Þau eru öll listafólk og hafa starfað með Listvinnzlunni frá árinu 2023, ásamt því að Ella og Þórir eru aðstoðar leiðbeinendur á námskeiðum Listvinnzlunnar. Nú eru 15 þátttakendur á námskeiðum hjá Listvinnzlunni og þau eru að auglýsa námskeið aftur fyrir vorið 2025.

„Við Þórir erum jafnaldrar.“ segir Margrét. „Við erum fædd á sama ári en okkur hafa ekki boðist sömu tækifæri í gegnum tíðina. Mér buðust margir mögleikar á framhaldsskóla, á framhaldsnámi, skiptinámi og fleiru. Má þess geta að Þórir hefur sótt um nám við myndlistardeild Listaháskóla Íslands fjórum sinnum án þess að fá inngöngu. Það sama á við um Kolbein, annan meðlim Listvinnzlunnar, sem einnig hefur sótt um án þess að fá inngöngu. Staðreyndin er sú að það vantar tækifæri og stuðning til þess að nýta þau tækifæri sem eru í boði. Það hafa verið til góðar námsbrautir líkt og 1 árs nám í Myndlistarskóla Reykjavíkur en það nám er í rauninni grunnnám. Áframhaldandi nám á háskólastigi og aðgengi að áframhaldandi störfum innan listheimsins er ekki í boði fyrir fatlað fólk hér á landi. Listvinnzlan vinnur að inngildingu í listheiminum og er vettvangur fyrir listafólk til að vinna að listsköpun sinni og listferli.“ 

Listvinnzlan er vettvangur fyrir áframhaldandi þróun og vinnu innan listgeirans fyrir fatlað listafólk. Fatlað fólk nær yfir 10% borgara hvers samfélags og er þar af leiðandi stærsti minnihlutahópurinn. Samt sem áður bjóðast fólki takmarkaðir möguleikar í námi og vinnu. Það var ekki fyrr en árið 2008 að innleiddur var lagalegur réttur fyrir fatlað fólk til þess að stunda nám í framhaldsskóla á Íslandi.

„Þetta er eins og skiptimiði í strætó,“ segir Margrét. „Þú ferð í vagn og færð þá skiptimiða til að halda ferð þinni áfram með næsta vagni og þannig koll af kolli. Það er afar ósanngjarnt að fólk fái ekki sömu tækifæri og hrein brot á mannréttindum og öllum þeim samfélagssáttmálum sem við höfum samþykkt og viljum fylgja. Þetta er líkt og að segja að aðeins þeir sem eru í rauðum sokkum fái tækifæri og aðgengi en ekki aðrir. Þetta er hugsana- og samfélagsskekkja sem þarf að laga.“ 

„Ef einhver myndi segja mér að vera í rauðum sokkum þá myndi ég fara í svarta sokka,“ skýtur Ella inn.

Gjörningur Listvinnzlunnar í tilefni afmælis Listar án landamæra.

Gjörningur Listvinnzlunnar í tilefni afmælis Listar án landamæra.

Listvinnzlan er valdeflandi og inngildandi vettvangur sem vinnur að því að skapa tækifæri fyrir alls kyns, og þá allra helst fatlað, listafólk. Listafólk fær stuðning og rými til að vinna að verkum sínum, aðstoð við sýningahald og sölu verka og getur haft milligöngu um kaup verka. Einnig veitir Listvinnzlan ráðgjöf um inngildingu og stuðning, skapar verkefni, er með rými fyrir listafólk til þess að vinna að verkum sínum, heldur námskeið í vídeó- og sjónlistum og er með smiðjur og sýningar. Þátttakendur eru virk í að þróa starfsemina og skapa sín eigin tækifæri. Má þar nefna að þau geta tekið að sér að vera leiðbeinendur í smiðjum og á námskeiðum.

Umfram allt þá skapar Listvinnzlan atvinnutækifæri fyrir listafólk. Stefnan er inngildandi ásamt því að hjálpa stofnunum og söfnum að bæta inngildingu. Nafnið á Listvinnzlunni kemur frá orðinu fiskvinnsla og vitnar í þróun í íslensku samfélagi, frá fiski yfir í list. Starfsemin sem unnið er að er einmitt jákvæð þróun til framtíðar, góð áminning um hver framtíð myndlistar ætti að vera; fjölbreytt og inngildandi með rými fyrir alla. 

Hugmyndin að Listvinnzlunni kviknaði þegar Margrét var að stýra listahátíðinni List án landamæra og tók eftir vöntun á stuðningi við fatlað listafólk og almennu aðgengi að íslenskum listheimi og ólíkum rýmum þar. Á listahátíðinni List án landamæra er unnið mikilvægt starf sem hefur haft mikil áhrif á listheiminn frá stofnun. Listvinnzlan vinnur að öðrum þáttum, til að mynda með því að skapa rými og stuðning í vinnuferli listafólks og er í góðu samstarfi við hátíðina. 

Við stofnun Listvinnzlunnar var horft til listmiðstöðva úti í heimi, meðal annars í Bandaríkjunum, Evrópu og á Norðurlöndunum. Hópur Listvinnzlunnar nefnir að starfsemin ryðji braut fyrir annað fatlað og/eða jaðarsett listafólk komandi kynslóða. Með því verða leiðirnar aðeins greiðari fyrir listafólk framtíðar og samfélagið og listheimurinn verður meira inngildandi. Stefnan er að útiloka engan, heldur bjóða öll velkomin. 

Aðspurð út í merkingu orðsins inngilding segir Ella að hún hafi alltaf verið hrædd um að fólk nái ekki utan um hugtakið, að það vanti skilning á orðinu. Margrét segir að vanalega sé talað um aðgengi í þessu samhengi. „Oft er hugartengingin bara við ytra aðgengi; aðgengi inn í byggingar og þess háttar. Listvinnzlan einblínir á aðgengi til þátttöku í alls kyns listum. Að vera með vettvang til þess að skapa og fá stuðning sem er við hæfi hvers og eins og þess sem þau þarfnast. Mikilvægt er að hver stofnun og listvettvangur líti inn á við og skoði hvort að þeirra stefna og störf séu inngildandi,“ segir Margrét.

Listvinnzlan

Listvinnzlan

Hver er framtíð listheimsins? 

List og sköpun er tjáningarform, leið fyrir einstaklinga til þess að koma hugarheim sínum á framfæri. Þó svo að sýningarými og stofnanir hafi í gegnum tíðina útilokað marga jaðarsetta listamenn þá hafa listamenn sem tilheyra jaðarhópum alltaf skapað. Skapað og tjáð sig í gegnum listina. Þar er fatlað fólk auðvitað engin undantekning. 

Verkefni líkt og Listvinnzlan og List án landamæra varpa ljósi á fatlað listafólk og verk þeirra. Sýnileiki er mikilvægt skref í inngildingu. Má þess geta að Ella var valin listamanneskja hátíðarinnar List án landamæra árið 2024 og hélt einkasýningu í Hafnarborg, menningar- og listamiðstöð Hafnafjarðarbæjar. Þórir eða Listapúkinn, fékk viðurkenninguna bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2021. Það er þess konar sýnileiki á fötluðu listafólki sem að starfsemi Listvinnzlunnar hefur verið að berjast fyrir. Eru því þessar viðurkenningar ekki einungis stór afrek fyrir Ellu og Þóri sem listafólk heldur einnig annað fatlað listafólk á Íslandi.

„Jákvæð þróun til framtíðar hjá öllum sem starfa innan listheimsins er að líta inn á við og rýna hvernig þau ætli að vinna að því að vera inngildandi,“ segir Margrét. „Gefum okkur að við værum að endurhanna kerfin okkar, listheiminn, menntakerfið og atvinnulífið frá grunni í dag. Myndum við þá hanna þau þannig að ákveðnir hópar væru jaðarsettir eða útilokaðir frá þátttöku? Það er mikilvægt að allur listheimurinn líti inn á við og hugi að inngildingu. Eru sýningarými og söfn að vinna að inngildingu? Hvernig eru inntökuskilyrðin í SÍM og önnur fagfélög og hvernig eru styrkjaumhverfið? Er það aðgengilegt? Við hvetjum listheiminn allan að fara í markvissa vinnu þar sem markmiðið er inngilding.“

Listvinnzlan er tímabært og mikilvægt frumkvæði. Eftir heimsókn mína til þeirra og að hafa fengið að skyggnast inn í starfsemina þá ber ég með mér vonarglætu í brjósti um framtíð sem er bjartari, fjölbreyttari og meira inngildandi.

„Framtíð Listvinnzlunnar liggur í eflingu listafólks á öllum aldri,“ segir Ella. „Og að veita þeim rými til þróunar,“ bætir Þórir við að lokum.

Meiri upplýsingar um námskeið Listvinnzlunnar:

https://www.fjolmennt.is/is/namskeid/nanar/myndlist-og-kvikmyndalist-i-listvinnzlunni

Heimasíða: https://www.listvinnslan.is/

Instagram: https://www.instagram.com/listvinnslan/

Facebook: https://www.facebook.com/Listvinnslan

Atli Már, listamaður

Atli Már, listamaður

Gígja Garðars, listakona

Gígja Garðars, listakona

Gjörningur

Gjörningur

Þórir Gunnarsson, Listapúkinn.

Þórir Gunnarsson, Listapúkinn.

Kolbeinn Jón Magnússon

Kolbeinn Jón Magnússon

Listvinnzlan hlaut Múrbrjót Þroskahjálpar árið 2023

Listvinnzlan hlaut Múrbrjót Þroskahjálpar árið 2023

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Um okkur