Myndbandsverk á Feneyjatvíæringnum

16.06.2022

Myndlistarfögnuðir og hátíðir hafa með tímanum opnað arma sína fyrir hinum fjölmörgu listformum, ekki ósvipað kvikmyndamiðlinum sem sameinar fjölmörg listform í einni mynd. Það vill svo til að það eru þó nokkur myndbandsverk og kvikmyndir á tvíæringnum í ár, öll eru þau ólík og þreifa sig áfram í hvernig best sé að beita miðlinum innan myndlistaheimsins. Myndbandsverkin spanna allt frá klippum undir einni mínútu til kvikmynda í fullri lengd. Sum þeirra móta skúlptúra, sum setja svip sinn á andrúmsloftið fyrir önnur verk í sama rými og sum fylgja hefðbundnu kvikmyndaformi. Ég velti fyrir mér hvort kvikmyndamiðillinn eigi alltaf erindi til gesta sem keppast við að skoða sem mest af list á 59undu myndlistarsýningu Feneyjatvíæringsins.

Aðalsýningin, Mjólk draumanna (e. The Milk of Dreams) undir sýningarstjórn Cecilia Alemani er tvískipt, staðsett annars vegar í Arsenale og hins vegar í Giardini. Eitt af fyrstu herbergjum aðalsýningarinnar í Giardini er The Witch’s Cradle. Rýmið, eins og tvíæringurinn þetta árið, heiðrar listakonur sem margar hverjar falla undir súrrealisma eða systurstefnur svo sem absúrdisma, töfraraunsæi, o.s.frv. The Witch’s Cradle er nefnt í höfuðið á stuttmynd eftir Maya Deren sem er sýnd í salnum ásamt Hexentanz (1930) eftir Mary Wigman og Dans Revue des Folies Bergére, danse avec plumes… (1925) eftir Josephine Baker. Titil kvikmyndinni er varpað guðdómlega hátt upp, staðsett líkt og allar sómasamlegar myndgervingar af Kristi, rétt handan þægilegrar sjónlínu. Tólf mínútna verkið er staðsett það hátt að gestir eru hvattir til þess að rétt líta á verkið og halda röltinu áfram án frekari eftirtektar. Ef til vill er dauf nærvera og svalt nafn eini tilgangur verksins en ekki beint innihald þess. En örvæntið ekki því myndir Deren eru fáanlegar á vefsíðunni Youtube og The Witch’s Cradle er sýnd með þægilegum hætti í Peggy Guggenheim safninu. Framlag þeirra Baker og Wingman á tvíæringnum er hins vegar staðsett í sjónlínu, annað er undir einni mínútu og hitt er rétt í kringum tvær mínútur. Verkin bjóða þannig áhorfendum upp á viðráðanlega munnbita af kvikmyndasögunni. Þar sem kvikmyndirnar í rýminu eru örstuttar eða óþægilega staðsettar, eru þær ekki beinlínis þar fyrir áhorfsnautn gesta og virka frekar sem áminning. Boðskapurinn er einfaldur, þrátt fyrir að gestir séu ekki kunnugir menningarlegu mikilvægi verka þeirra Deren, Baker og Wingman, þá er hann að: Konur eru frumkvöðlar súrrealískrar kvikmyndastefnu.

Eftir að hafa vísað til forsögu kvikmynda færum við okkur yfir að myndbandsverki Íslands. Ævarandi hreyfing eftir Sigurð Guðjónsson tekur á sig form skúlptúrs sem hreyfist, svokallaður vídeoskúlptúr, ásamt hljóðheimi eftir listamanninn og Valgeir Sigurðsson. Verkið er 45 mínútur að lengd og spilast endurtekið, verkið sveiflast milli há og lág punkta, bæði á milli áhrifamikilla sjónrænna eiginleika þess og kraftmiklils dróna-bassa. Járnrykið teygist á köflum yfir allan flötinn sem verkinu er varpað á og stundum nær það aðeins rétt að hylja segullínuna sem rykið festist við. Það á einnig við um hljóðheiminn sem á köflum hreyfir við veggjum skálans með tíðni drunu bassans og á öðrum tímum fellur næstum í bakgrunnin og minnir á dróna-hvísl. Utan þess að verkið stigmagnist og dvínar, þá stendur það án línulegrar framvindu. Án beinskeittra skilaboða eða tiltekinnar merkingar, stendur verkið opið fyrir áhorfendur til túlkunar. Sumir sjá ösku af eldfjalli, aðrir sjá mosa, sumir sjá frostrósir. Ef til vill, einmitt vegna þess að verkinu er miðlað án pólitísks ásetnings, þá leita áhorfendur í að láta verkið tákna náttúru landsins sem einhverskonar ímynd Íslands. Aðrir áhorfendur njóta einfaldlega hugleiðandi eiginleika verksins.

En þetta form myndbandsverka; vídeoskúlptúrar, fyrirfinnst einnig í öðrum skálum. Sem dæmi er ráfandi auga varpað á kúlu sem hangir yfir öðrum myndbandsverkum í Argentínska skálanum í sýningunni The Importance of the Origin Will Be Imported by the Origin of the Substance eftir Mónica Heller. Vídeoskúlptúrar nota miðilinn fyrir hreyfingu þar sem hreyfing getur blásið lífi í skúlptúra. Við gerð þeirra nýta listamennirnir sér einfaldasta form kvikmynda, ekki ósvipað því sem kvikmyndagerðafólk og dansarar gerðu í upphafi súrrealískra kvikmynda.

Maya Deren, The Witch’s Cradle (stilla), 1943 (hægri og vinstri). Sigurður Guðjónsson, Perpetual Motion (sýning), 2022 (fyrir miðju).

Fleiri þjóðarskálar leggja megináherslu á myndbönd, eins og Belgíski skálinn með The Nature of the Game (1999 – 2022) eftir Francis Alÿs, sem hefur að viðfangsefni mismunandi barnaleiki frá ólíkum heimshlutum. Leikirnir eru mismunandi eftir löndum; snigla keppni frá Belgíu, leikur að drepa moskítóflugur frá Kongó, útfærsla á snú-snú frá Hong Kong, leikur frá Mexikó þar sem krakkar skjóta hvert annað með ljósvörpun af gleri. Myndböndin eru ýmist um það bil tvær til níu mínútur, þeim fylgja textaskýringar sem útskýra leikreglur og heillandi eiginleika hvers leiks fyrir sig. Þessi stílhreinleiki veldur því að sýningin er auðskiljanleg, textinn styður við verkin án þess að myndböndin séu háð honum. Uppsetning myndbandanna er mismunandi, sum eru sýnd í hefðbundnum áhorfssal, öðrum er einfaldlega varpað á veggi og fjórir stórir skjáir eru staðsettir í miðju rými skálans. Kvikmyndamiðillinn hefur oft verið gagnrýndur fyrir það að þjóna passívum áhorfendum, en í þessari sýningu er upplifunin sú að gestir séu nánast í sama rými og börnin sem eru að leika. Börn að leika sér eiga það til að vekja upp meyrar og jafnframt hlýjar tilfinningar, þetta er einfalt og svínvirkar. Upplifunin á myndböndunum er virk og því er skálinn eftirminnilegur. Ólíkt vídeoskúlptúrum þá er að finna frásögn í þessum myndböndum, þó ekki fullmótaða sögu með hefðbundinni línulegri framvindu. Myndböndin eru það heillandi að áhorfendur freistast til að finna fyrir alþjóðlegu eðli sakleysis sem fylgir barnaleikjum. Og þó er áberandi mismunur milli leikja og landa. Aðgengileg framsetning efnisins veldur því að sýningin tæklar ekki þennan mismun sem fyrirfinnst samt sem áður í myndböndunum. Þetta er fullkomið dæmi um hvernig skilvirk einföldun og fagurfræði getur ollið því að verk telst grunnhyggið. En slík framsetning getur virkað vel ef unnið er með efni sem er ekki jafn menningarlega eða pólitískt hlaðið. Þessi framsetning, líkt og fyrrnefndir vídeoskúlptúrar, passar fullkomlega inn í flæði tvíæringsins – að rölta í gegn og stoppa aðeins við það sem vekur áhuga. Sem bæði list- og kvikmynda-áhorfendur, erum við orðin nísk á tímann okkar. Fáir hafa þrautseigjuna til að leggja í fimm tíma kvikmynd með ofurhægri framvindu, en mörg hver gláp-gleypa heilu þáttaseríurnar eins og þau hafi fæðst til þess eins.

Yuki Kihara, Paradise Camp (ljósmynd), 2022.

Með takmarkaða athygli áhorfenda í huga, tekur Nýja Sjáland rúmlega klukkutíma og tuttugu mínútna myndbandsverkið sitt og skiptir því upp í fimm þætti í Paradise Camp eftir Yuki Kihara. Þættirnir líkja oft eftir hýrum (e. queer) raunveruleikaþáttum, bæði myndrænt og í talsmáta, en þættirnir eru settir upp sem spjallþáttur. Með því að skipta verkinu upp í fimm þætti, reiðir sýningin sig á bæði heppni og löngun áhorfenda til að setjast niður í ákveðin tíma. Þetta er atlaga að því að láta lengra verk passa inn í uppsetningu myndlistasýninga án þess að fórna línulegri frásögn innan myndbandanna.

Tilraunin er aðdáunarverð og margir gestir staldra við og gefa sér tíma til að horfa en að mínu mati geta myndböndin ekki staðið ein og sér. Megináhersla sýningarinnar er að ávarpa afleiðingar nýlendustefnu innan listasögu, en hún fléttir einnig saman umræðu um kyn, kynhneigð og umhverfismál. Þetta er heill haugur af pólitískum umræðuefnum sem virkar einhvern veginn í sýningunni, að hluta til vegna þess að ekki er hægt að aðskilja þessi málefni frá nýlendustefnu og afleiðingum hennar. En einnig því að sýningin blandar saman mismunandi miðlum; sýnir ljósmyndir, skjöl, þrívíddarlíkani og myndbönd. (myndböndin eru aðeins sýnd á sýningunni)

Í leit minni af „bestu“ uppsetningunni fyrir myndbandsmiðilinn innan tvíæringsins, hef ég komist að því að ofureinföldun frásagnar getur ollið því að verkið lítillækki sig sjálft. En einnig að víðamikil verk, þegar kemur að pólitík eða framvindu, eiga það til að missa marks um leið og þau missa athygli áhorfenda. Undarleg uppsetning verks getur ollið því að gestir hreinlega taki ekki eftir verkinu eða sitji uppi með yfirvofandi tilfinningu að þeir hafi misst af tilgangi verksins. Á hinn boginn gæti eftirlæti á vídeoskúlptúrum stafað vegna óljósri merkingu þeirra. Það að láta áhorfendur „ákveða sjálf“ hver merking verksins sé er snjallt, en ef illa er að farið ljáir slík afstaða verkunum falska dýpt.

Það eru einnig þó nokkrar kvikmyndir í fullri lengd á tvíæringnum í ár. Ég reyni að ímynda mér yfir klukkutíma langt verk sem passar inn í ráfandi eðli sýningargesta alþjóðlegu myndlistarhátíðarinnar. Ef ég ímynda mér sjónræna veislu án framvindu þar sem myndrammarnir hanga saman annað hvort með hugleiðandi hreyfingu hluta eða með svipuðu stílbragði mynda, þá fellur verkið undir vídeóskúlptúra. Önnur útfærsla af löngu mynbandsverki sem passar inn í sýningarrými væri að tengja saman styttri myndbönd sem passa saman vegna gegnumgangandi þematík en ekki söguþræði. Ekki ósvipað Belgíska skálanum. Hins vegar, þegar kvikmyndin stólar um of á framvindu eða efnisinntak, þá hef ég ekki enn séð kvikmynd sem myndi njóta sín betur á listasýningu en á stóra tjaldinu. Ef til vill er rétt handan við hornið ný leið til að nota kvikmyndamiðilinn, sem passar betur athyglisbrests nútímamannsins og eðli myndlistasýninga.

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Austurstræti 5