Næstu sýningastjórar Sequences

18.08.2022

Í október 2023 fer myndlistarhátíðin Sequences fram í ellefta sinn. Sýningastjórar hátíðarinnar eru Marika Agu, Maria Arusoo, Kaarin Kivirähk og Sten Ojavee.

Þau starfa að staðaldri saman við myndlistamiðstöðina CCA sem er staðsett í Tallinn, Eistlandi. Sýningastjórahópurinn var tilnefndur í kjölfar valferlis eftir að kallað var eftir umsóknum sýningastjóra fyrir Sequences XI.

Frá árinu 2017 hafa þau sýningastýrt ýmsum verkefnum saman. Sýningin A-tishoo, A-tishoo, We All Fall Down (2019) var frumraun þeirra í samstarfi sínu og var til sýnis á Samtímalistasafni Eistlands (EKKM). Þar skilgreindu þau sameiginlega nálgun sína í sýningastjórnun. Síðan þá hafa þau stýrt og skipulagt fjölmarga viðburði á borð við fyrirlestraraðir, námskeið, vinnustofur, pistlaseríur og list í almannarýmum. Bakgrunnur þeirra er ólíkur, sum þeirra eru starfandi listamenn og önnur koma úr fræðaheiminum með bakgrunn í félagsfræði, listfræði, táknfræði og heimspeki. Þau hafa leitt hesta sína saman til þess að finna annarskonar hugsunarháttum farveg, framkalla nýjar upplifanir minnka offramleiðslu og standa vörð um auðlindir og orku. Enn fremur vinna þau frekar saman en hvert í sínu lagi í von um sjálfbærari vinnuaðferðir, og ríkulegri niðurstöðum.

Upphafspunktur þeirra fyrir hugmyndaramma hátíðarinnar er óvissan sem orðin er eitt helsta hreyfiafl samtímans. Getur listahátíð gengist við þessu ástandi, og skapað grundvöll fyrir marglaga rannsóknir og listræna sköpun og þannig leitt okkur að sjálfbærari og framsýnni aðferðum? Myndi slík nálgun skapa vettvang opinn öllum, þar sem við getum deilt rými og orku.

“Við gerum okkur fulla grein fyrir utanaðkomandi stöðu okkar í íslenskri myndlistarsenu.” Nánar tiltekið þá segja sýningastjórarnir  “við vonumst til þess að bjóða upp á marglaga og fjölbreytta túlkun á íslenskri listasenu. Draga upp sjónarhorn gestsins en einnig sjónarhóla þeirra sem að verða meira en gestir og koma aftur. Við þekkjum til margra alþjóðlegra listamanna sem hafa komið hingað aftur og aftur. Okkur langar til þess að vinna með innlendum listamönnum en einnig öðrum sem hafa nú þegar sótt vinnustofur á Íslandi og jafnframt eiga sitt eigið samband við listasenuna hér og þeirra sem hafa áður verið utangarðs. Á hátíðinni viljum við sýna bæði ný verk samhliða því að draga eldri verk í sviðsljósið og koma þeim þannig aftur í umferð.”

CCA myndlistarstöðin er ekki rekin í hagnaðarskyni og sérhæfir sig í alþjóðlegum samstarfsverkefnum frá Eistlandi. Yfir árin hefur miðstöðin skipulagt og sýningastýrt verkefnum á alþjóðlegum vettvangi sem og innanlands. 

———————————————————

Sequences er lisamannarekin alþjóðleg myndlistarhátíð sem haldin er annað hvert ár í Reykjavík. 

Meðal fyrri listamanna sem sýnt hafa á hátíðinni eru Elísabet Jökulsdóttir, Philip Jeck, Miruna Roxana Dragan, Joan Jonas, David Horvitz, Hekla Dögg Jónsdóttir, Guido van der Werve, Ragnar Kjartansson, Emily Wardill, Ragnar Helgi Ólafsson, Carolee Schneemann, Rebecca Erin Moran, Finnbogi Pétursson og Alicja Kwade svo örfáir séu nefndir. 

Sýningastjórar fyrri hátíða hafa verið íslenskir og erlendir listamenn og sýningastjórar og má þar nefna Þóranna Dögg Björnsdóttir og Þráinn Hjálmarsson, Hildigunnur Birgisdóttir og Ingólfur Arnarsson, Margot Norton, Markús Þór Andrésson og Alfredo Cramerotti. 

Að hátíðinni standa listamannareknu sýningarstaðirnir Kling & Bang, Nýlistasafnið og Kynningarmiðstöð Íslenskrar myndlistar ásamt öflugu fagráði sem í sitja listamenn og óháðir aðilar sem eru virkir í listamannareknu senunni í Reykjavík hverju sinni. 

Sequences verður haldin í ellefta skiptið í október 2023. Yfirskrift hátíðarinnar verður kynnt á næstu mánuðum. 

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Um okkur