Í þættinum tala Becky og Þórhildur Tinna við myndlistarmanninn Ragnar Kjartansson og fara þau yfir tilfinningaskalann sem er að finna í listsköpun hans sem spannar fjölmargar tilfinningar á borð við ástina, óttan, kaldhæðnina og einlægnina. Ragnar segir sögur af leikhúsinu, samstarfsverkefnum og ýmsum sýningum af ferili sínum. Ragnar er einn farsælasti listamaður síns tíma og verk hans eru sammannleg, oft á tíðum misskilin en þó oftast vel tekið. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á vefsíðu okkar og á Spotify.
Soviet Barbara var nýlega frumsýnd í Bíó Paradís og fjallar myndin um sýningu listamannsins í Moskvu sem bar heitið Santa Barbara. Í desember 2021, skömmu fyrir innrás Rússa í Úkraínu, var opnuð í miðborg Moskvu risastór sýning á verkum Ragnars Kjartanssonar myndlistarmanns í glænýrri menningarmiðstöð, GES-2. Byggingin, sem áður var orkuver er skammt frá stjórnarsetrinu Kreml, en hún er nú í eigu eins ríkasta manns Rússlands.
Aðalverk Ragnars á sýningunni var um margt einstakt, en það var lifandi skúlptúrinn Santa Barbara, risavaxið listaverk. Um leið og sum verkanna fjalla um áralanga aðdáun hans á rússneskri menningu þá fjallar aðalverkið, Santa Barbara, um menningarsamtal tveggja stórvelda á síðustu dögum Kalda stríðsins. Þrjátíu árum síðar hafa draumar um opnari samskipti orðið að engu eftir innrás í Úkraínu. Áleitnar spurningar vakna um frelsi þjóða, einstaklinga og listamanna.