Sæborg og pósthúmanismi í Mjólk draumanna

23.08.2022

Hin alþjóðlega sýning Feneyjartvíæringsins 2022 ber titilinn Mjólk draumanna (e. Nutrition for a newly born baby cow of Dreams) og er sýningastýrð af Ceciliu Alemani. Sýningin dregur nafn sitt frá samnefndri barnabók eftir súrrealíska skáldið og myndlistarkonuna Leonora Carrington þar sem ýmsar kynlegar hálfmannverur fylgja gróteskum ljóðrænum örsögum. Alemani nýtir söguheim Carrington til þess að skapa sýningarheim sem rannsakar líkamleika í tæknivæddu nútímasamfélagi og stöðu mannverunnar á jörðinni.[1]

Þetta þema er bersýnilegt í einu af fyrstu rýmum alþjóðlegu sýningarinnar í Giardini. Hálfmótaðir líkamar blasa við sýningargestum: marglita sæborgar; höfuðlausir; með bjagaða útlimi; limlestir; úr kristal. Verkin eru eftir listakonuna Andra Ursuţa en við gerð skúlptúranna blandar hún afsteypum af eigin líkama, hversdagslegum hlutum, svo sem rusli, og hugmyndum úr vísindaskáldskap. Skúlptúrarnir verða þannig blendingar sem minna á hryllingsmyndir sem eiga að gerast í framtíðinni eins og Alien og kalla fram óhugnanleg og forvitnileg hughrif. [2]

Á veggjum sama rýmis, í kringum verk Ursuţa, hanga prjónuð textílverk úr grófri ull eftir listakonuna Rosemarie Trockel. Þau eru minimalísk, stór, einlit, í lífríkum litum og minntu mig á módernísk eða abstrakt málverk. Textílverk Trockel, sem eru mörg frá níunda áratugnum, eru rammpólitísk og gagnrýna hugmyndir myndlistaheimsins um stöðu handverks sem ‘myndlist’ sem og ígrundun um vinnu kvenna í vélknúnu samfélagi. [3]

Andra Ursuța, Predators ‘R Us, 2020. Rosmarie Trockel, Textile Works.

Pörunin er áhugaverð og vakti mig til umhugsunar. Verk Trockel og Ursuţa eiga við fyrstu sýn fátt sameiginlegt, nema að geta talist femínisk en með langsóttum hætti. Listakonurnar eru af sitthvorri kynslóðinni, vinna með mismunandi miðla, úr öðruvísi efni, draga ólíkan innblástur og hafa frábrugðin áhrif á áhorfendur. Verk Ursuţa smellpassa í þema kynjavera Carrington en textílverk Trockel töluðu öðru máli: jarðbundin, hversdagsleg og pólitísk. Rýmið varð suðupottur togstreitu þeirra mismunandi stefna og strauma sem birtast á sýningunni í heild sinni. Verk sýningarinnar, Mjólk draumanna, eru margslungin og spanna allt frá argentínskum bakaraofnum úr leir eftir Gabriel Chaile til bráðinna vél-líkama úr plasti eftir Tishan Hsu. Mig verkjaði í heilann við að para þemunum saman og ég hafði það á tilfinningunni að það væri þematískur þráður til staðar sem ég væri að missa af.

Ég fékk mér því sopa af mjólk draumanna og lagði af stað í ferðalag. Fyrsta stoppið var á bókasafn tvíæringsins til þess að lesa sýningarskránna og glugga í þeim tilvísunum sem í henni eru. Bókasafnið er staðsett í Giardini, til hliðar við alþjóðlegu sýninguna og er því dálítið falið. Það inniheldur veigamikið safn af sýningarskrám fyrri tvíæringa sem og annarra rita sem notuð hafa verið fyrir innblástur tvíæringsins í gegnum tíðina.

Ég komst að því við lesturinn að Alemani notar sögu Carrington um Mjólk draumanna sem myndrænan og listrænan innblástur sýningarinnar en notar skrif Rosi Braidotti, sem er prófessor í samtíma meginlandsheimspeki og feminískum fræðum við háskólann í Utrecht, um pósthúmanisma sem fræðilegan grunn hennar.[4] Ég vissi ekki hvað pósthúmanismi fæli í sér nákvæmlega og það varð mér fljótlega ljóst að til þess að svara fyrri spurningum mínum um hvernig sýningin hengi saman þyrfti ég fyrst að svara spurningunum: hvað er pósthúmanismi? Hvernig er hann hugsaður innan Mjólk draumanna?

Samkvæmt því sem mér skildist við fyrsta lestur um pósthúmanisma (eða eftir-mannhyggju) þá væri pósthúmanismi fráhvarf frá mannhyggjunni sem varð til eftir straumhvörf 20. aldarinnar í Evrópu: eftir að Nietzsche drap guð og mannveran og rökhugsun hennar varð miðpunktur hreyfingar í heiminum. [5] Mannhyggja eða húmanismi er ekki alslæm siðfræðileg stefna; hún hefur fært okkur hugmyndir á borð við mannréttindi.

Nú eru hins vegar komnir nýir tímar og samkvæmt pósthúmanisma er húmanískur hugsunarháttur ófullnægjandi til að skýra ástand nútímans. Náttúruvár steðja að okkur, hnattræn hlýnun hefur náð ofurvaldi og mörg hver okkar efast um getu mannverunnar að takast á við þær aðstæður sem við stöndum frammi fyrir og mannveran hefur átt þátt í að skapa. Við efumst þar af leiðandi einnig um miðlægni ‘mannsins’ í hinum náttúrulega heimi; stöðu hans gagnvart náttúrunni og öðrum tegundum lífs. Vitundarvakning hefur samhliða þessum aðstæðum átt sér stað um þekkingu og vitneskju þeirra þjóðfélagshópa sem búa og lifa meira í takti við náttúruna. Þrátt fyrir þau góðu áhrif sem húmanísk hugsun hefur haft þá hefur það komið í ljós að ekki hafa allir hópar jafnan aðgang að því að flokkast sem slíkur ‘maður’ og líf þeirra eru ekki metin að jöfnu við hann. [6] Hinn rökhugsandi, einfaldi og hvíti ‘maður’ húmanismans sem átti að vera frjáls og öflugur er því úreltur. Þessi kúvending í hugsunarhætti og ytri aðstæðum nútímans kallar Braidotti „sögulegt pósthúmanískt ástand.“ [7] Pósthúmanismi er þannig heimspekistefna sem kortleggur þetta ástand í von um að skilja það betur. [8]

Eftir þennan upphaflega lestur áttaði ég mig á mikilvægi þess, við myndræna framsetningu á hinu pósthúmaníska ástandi, að hafa feminískt textílverk í einu af fyrstu rýmum sýningarinnar í Giardini. Listrænir eiginleikar þess eru augljósir og þó hefði það ekki talist sem myndlist fyrr en fyrir nokkuð skömmu. Verk Trockel eru pólitísk í eðli sínu eins og mörg verk sem birtast á sýningunni hefðu áður talist sem handverk fremur en myndlist. Víðs vegar um sýninguna má finna önnur dæmi um textíl list (e. textile art): útsaum, veggteppi, bútasaum og saumaða skúlptúra.

Inotherwords, Rosemarie Trockel, Inotherwords, 2021

Pósthúmaníski þráðurinn varð mér ljós í textílverkunum en ég átti enn þá erfitt með að átta mig á afstöðu sýningarinnar til ‘pósthúmaníska ástandsins’ og tækni eða sæborgins–hún virtist of hlutlaus. Næsta stopp á ferðalagi mínu varð því rými í Arsenale, sem ber titilinn Táldrög sæborgsins (e. Seduction of the Cyborg), og er tileinkað feminískri heimspeki Donna Haraway um sæborga. Samkvæmt henni erum við nú þegar sæborg. Við þurfum ekki gerviútlimi eða gerviheila til þess heldur er allt sem við gerum við líkama okkar til að viðhalda lífi okkar og framlengja hann hluti af sæborginu. [9] Til að mynda hefur líftími okkar lengst vegna læknavísinda og internetið ollið stökkbreytingum í samskiptum okkar og hegðun í hversdeginum. Við erum sífellt með allar upplýsingar rétt fyrir framan nefið á okkur og getum tengst fólki hvar sem er í heiminum hvenær sem er. Tækni hefur áhrif á sjálfsmynd okkar sem mannverur og við höfum áhrif á tæknina. Haraway sér sæborgið í jákvæðu ljósi og telur að það, sem er í raun samansafn ýmissa hluta frekar en ein heild, geti breytt hugsunarhætti framtíðarinnar úr þröngsýnum viðhorfum þar sem algildar kenningar um heiminn og stöðu mannverunnar gagnvart honum ráða ríkjum í að sjá heiminn sem samansafn tengdra hluta sem koma saman. [10] Tækni og náttúra eru ekki tvennt ólíkt heldur sameinast í sæborginu og verða órjúfanleg. Tæknilega hlið sæborgsins er háð ‘jarðneska’ hluta þess og öfugt sem gerir það að verkum að í heimi sæborgsins er tvíhyggju tækni og náttúru storkað–sæborgið er bæði í senn. [11] Við þurfum því ekki að óttast sæborgið því við getum borið ábyrgð á félagslegum tengslum milli vísinda og tækni. [12] Við sæborgin getum notað þetta nýja ástand til femíniskrar sköpunar og í sýningunni, Mjólk draumanna, birtist myndræn framsetning framtíðar sem er vongóð: eftir-mennsk og eftir-kynjuð (e. posthuman and postgendered). [13]

Rebecca Horn, Kiss of the Rhinoceros, 1989

Ég skildi hugmyndina en hún samræmdist þó ekki alveg upplifun minni af eigin samtíma. Breytingar mannverunnar í sæborg eða framtíðarverur gegnsýrir nútímann en gerir það þó með nokkuð neikvæðum hætti. Mér líður stundum eins og að löngunin til að ná allsherjar valdi á eigin líkama svo að hann verði næstum ofurnáttúrulegur birtist alls staðar um þessar mundir; fólk vill lifa lengur, vinna meira, sofa minna, vera fallegra, hámarka sig. Þessi löngun er ríkjandi í pop-kúltúr með fólk eins Bella Hadid, eða CY-B3LLA, [14] sem og Kim Kardashian og tískuhúsið Balenciaga í fararbroddi. [15] Hún ræðst í mínum huga af kapítalískri ofurmannhyggju sem selur, með ákveðnu fagurferði, hugmyndina um að það er hægt að laga hvað sem við gætum talið til annmarka með tækni. Þessi löngun er þó einungis hugmyndafræði þeirra ríku. Þeir sem ríkari eru munu fyrst verða sæborg og ólíklegt er að sá hluti mannkyns sem ekki hafði aðgang að bólusetningum gegn Covid munu nokkurn tímann komast í tæri við sæborgið.

Löngun til að verða hálfvera, eða framtíðarvera, á sér annan, ekki óskyldan arm innan feminísks jaðarpoppkúltúrs sem tekur undir vonarglætu Donna Haraway. Hún birtist í fagurferði jaðarpoptónlistarfólks eins og Grimes, FKA Twigs, Björk og samstarfskonu hennar Arca en þær upphefja allar hálfmennskt og stundum ójarðneskt útlit. [16] Sýningin á margt sameiginlegt með jaðarpoppinu og upphefur framtíðartæknilegt útlit og sæborgið. Sem dæmi eru til sýnis í Giardini ofurháir hælaskór sem líkjast klóm fugls úr málmi eftir listakonuna Hannah Levy sem ég gæti auðveldlega séð Grimes eða Arca klæðast í tónlistarmyndbandi eða á tískuviðburði.

Til hægri stilla úr instagram uppfærslu Bella Hadid, 2022. Til vinstri stilla úr myndbandi Björk All is Full of Love, 2009.

Útlitslega er munurinn á lönguninni til að fullkomna sig, ef svo má komast að orði, í næstum vélmennalegt ástand sem, í mínum huga, táknar einskonar kapítalíska ofurmannhyggju og jákvæð pósthúmanísk birtingarmynd sæborga á sýningu Mjólk draumanna og jaðarpoppsins nær enginn. Fyrir mér virðist stutt á milli myndrænnar framsetningar löngunarinnar sem veitir mér alla jafna óhug í hversdagsleikanum og fagurfræði jaðarpopsins, sem ég hef reyndar miklar mætur á. Þar að auki heyrir þetta tvennt að einhverju leyti undir sömu gróðavél menningariðnaðarins. Til dæmis eignaðist jaðarpoppstjarnan Grimes nýverið sitt annað barn með tækniframsækna milljónamæringnum Elon Musk–með staðgöngumóður. Það hlaut því að vera einhverskonar blæbrigðarmunur eða nálgun sem ég væri að missa af.

Eftir að hafa gengið með þessa togstreitu í maganum í nokkrar vikur og leyft henni að meltast aðeins var síðasta stopp mitt á ferðalagi mínu fyrirlestur, á vegum tvíæringsins, með Rosi Braidotti um pósthúmanískan feminisma. Fyrirlesturinn má finna á YouTube og í honum talar Braidotti af svo miklum eldmóði að erfitt var að smitast ekki af henni. Hún byrjaði á að leggja áherslu á mikilvægi gagnrýninnar afstöðu gagnvart ‘pósthúmaníska ástandinu’. Tækni og náttúra eru ekki andstæður en þrátt fyrir það getum við hugsað okkur tvisvar um hvernig sæborg við séum (þar sem við erum nú þegar sæborg). Hún tekur afstöðu gegn markmiðinu að betrumbæta mannveruna endalaust þar sem í því felst grundvallar misskilningur á því hvað það er að vera mannvera. Samkvæmt henni er: “Heilinn ekki svartur kassi sem hægt er að skilja frá restinni af líkamanum, hann er líkamnaður, við hugsum með öllum líkamanum.” [17] Afstaða pósthúmanísks femínisma er því eins konar “já, en” afstaða samkvæmt Braidotti. Hún tekur þátt eftirvæntingunni fyrir tækniframförum og því góða sem þær geta leitt í ljós án þess að deila sæluvímunni, en jafnframt miskunnarlausri, löngun til að verða ofurmenni–og bætti svo við að hún vonaðist til þess að Elon Musk færi fljótlega til Mars og myndi bara halda sér þar.

Hannah Levy, Untitled, 2022

Andra Ursuța, Impersonal Growth, 2020 & Canopic Demijohn, 2021

Í mínum huga urðu nú ígræddir útlimirnir og geimgræddir líkamar Andra Ursuţa, dystópískir. Verkið verður eins konar gagnrýni á ‘pósthúmaníska ástandið’.

Kannski átti verkið alltaf að vera eins konar gagnrýni eða dystópísk myndræn framsetning á því hvað gerist ef tækninni er leyft að ráða för. Parað með textílverkunum öðluðust verkin skýra rödd: það skiptir máli hvernig nálgast er sæborg framtíðar og nútíðar í myndrænni framsetningu og í hvaða samhengi þær eru skoðaðar. Til dæmis virðast feminískar sæborg yfirlýsingar Grimes vera orðin tóm vegna stöðu hennar innan popp-kúltúrs: á meðan svipað fagurfræðilegt þema iðar af lífi í öðru samhengi eins og hjá Björk sem hefur helgað listrænni sköpun sinni femíniskri endurskoðun mannverunnar og stöðu hennar innan náttúrunnar.

Ég hugsa að samhengið sé í rauninni eini munurinn á fagurferði femínisku sæborgsins og þeirri kapitalísku en himnan er samt sem áður næfurþunn þarna á milli sem veldur mér óhug. Samhengi Mjólk draumanna upphefur sæborgið og varar við því í senn. Sýningin varð fyrir mér, eftir ferðalag mitt, eins og vandlega úthugsað hugmyndafræðilegt bútasaumsteppi sem lítur út fyrir að vera óreiða við fyrstu sýn en þegar nær er gáð eru saumsporin og efnisvalið vandað og nákvæmt. Ég geng þó enn þá með spurningar í maganum: Er raunverulegur munur á kapítalískri og femínisku sæborgi þegar þær líta svipað út og haga sér með svipuðum hætti? Er samhengi nóg? Er tími vonarglætu Haraway kannski liðinn? Getum við borið ábyrgð á félagslegum tenglum við tækni? Eða erum við núþegar stödd í dýstópíu Ursuţa?

[1] Cecilia Alemani, “Statement by Cecilia Alemani,” https://biennialfoundation.org/wp-content/uploads/2021/06/2.-Statement-by-Cecilia-Alemani.pdf

[2] Madeline Weisburg, “Andra Ursuţa,” https://www.labiennale.org/en/art/2022/milk-dreams/andra-ursuţa

[3] Madeline Weisburg, “Rosemarie Trockel,” https://www.labiennale.org/en/art/2022/milk-dreams/rosemarie-trockel

[4] Cecilia Alemani, “The Milk of Dreams,” The Milk of Dreams Exhibition, í viðtali við Marta Papini, 2022, 26-27.

[5]Diane Marie Keeling og Marguerite Nguyen Lehman, “Posthumanism,” birt 26. apríl 2018, https://oxfordre.com/communication/view/10.1093/acrefore/9780190228613.001.0001/acrefore-9780190228613-e-627

[6]Rosi Braidotti, “Posthuman Critical Theory,” The Milk of Dreams Exhibition, 2022, 215.

[7] Rosi Braidotti, The Posthuman, 6.

[8] Rosi Braidotti, The Posthuman, 4.

[9] Donna Haraway, “You Are Cyborg,” Wired, í viðtali við Hari Kunzru, 1. febrúar 1997, https://www.wired.com/1997/02/ffharaway/

[10] Donna Haraway, A Cyborg Manifesto: Science, Technology, and Socialist-Feminism in the Late Twentieth Century, (University of Minnesota Press, 2016), 67.

[11] Haraway, A Cyborg Manifesto, 9.

[12] Haraway, A Cyborg Manifesto, 67.

[13] “Seduction of the Cyborg,” The Milk of Dreams Exhibition, 2022, 499.

[14] Alex Frank, “Bella Hadid Arrives in the Metaverse With a New Line of NFTs,” Vogue, birt 21. Júní 2022, https://www.vogue.com/article/bella-hadid-nft-metaverse-interview Sjá einnig https://cybella.xyz & Daniel Rodgers, “The model is releasing 1,111 NFTs under the pseudonym CY-B3LLA, including a cybernetic warrior woman and a BDSM-inspired robot,” Dazed, birt 22. júní 2022, https://www.dazeddigital.com/fashion/article/56381/1/cy-b3lla-bella-hadid-nfts-discord-cyborg-rebase-metaverse-sex-bot-web3

[15] Angel, “Robotic suits and cybernetic faces a debut for Balenciaga’s Spring 22 Campaign,” RUSSH, 5. nóvember, 2021, https://www.russh.com/balenciaga-spring-22-campaign/

[16] Björk, All Is Full of Love, leikstýrt af Chris Cunningham, 24. maí 1999, https://www.youtube.com/watch?v=EjAoBKagWQA

[17] Rosi Braidotti, fyrirlestur um póst-húmaniskan femínisma, ráðstefna á vegum Feneyjartvíæringsins, Meetings on Art: Posthumanist Feminism, 11. júní 2022, https://youtu.be/JpwuycDAEbc?t=2295 “We all know what Elon Musk is up to by giving barcodes instead of names to his children and putting his billions in the service of creating life on Mars; well I hope he goes quickly and stays there”- 37:20

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Austurstræti 5