Samstarf við World Weather Network

20.06.2022
World Weather Network image

Í ljósi þeirrar neyðar sem stafar af loftslagsbreytingum á alþjóðavísu hefur Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar gengið til liðs við 27 aðrar lista- og menningarstofnanir víðsvegar um heiminn en saman mynda þær World Weather Network, hóp „veðurstöðva“ sem staðsettar eru í höfum, eyðimörkum, fjöllum, landbúnaðarhéruðum, regnskógum, veðurathugunarstöðum, vitum og borgum heims.

Frá og með 21. júní 2022 mun listafólk og rithöfundar senda frá sér „veðurfréttir“ í formi hugleiðinga, sagna, mynda og þankabrota um veðurfar á heimaslóðum þeirra og okkar sameiginlega loftslag, sem saman munu svo skapa heilan klasa radda og skoðana á nýjum, alþjóðlegum vettvangi.

Sem gestalistamaður í Vatnasafninu í Stykkishólmi mun Einar Falur skrásetja myndræna veðurdagbók í heilt ár en dagbókin kallast á við veðurlýsingar sem þar voru ritaðar fyrir 170 árum.

Veðurfréttir frá rithöfundum og listafólki munu birtast á vettvangi World Weather Network og þannig opna á nýjar leiðir til að fylgjast með, hlusta á og lifa með veðrinu. Veðurfregnir munu berast frá Himalajafjöllum, mýrum Mesópótamíu í Írak og eyðimörkinni á Arabíuskaga; frá Great Salt Lake í Utah og Kiwa-hafi í Suður-Kyrrahafi; frá ísjakasundi við strönd Nýfundnalands, úr Eystrasalti og Norður-Íshafi; frá regnskógum Guyana og ökrum Ijebu í Nígeríu. Listafólk og skáld verða að störfum í veðurathugunarstöðvum í Kanagawa í Japan og Manila á Filippseyjum, munu fylgjast með skýjafari í Kína og fléttum og skófum í Frakklandi, dvelja í vitum við strönd Perú, Baskalands og Snæfellsness, og í borgum á borð við Dhaka, Istanbúl, Jóhannesarborg, Lundúnir og Seúl.

Loftslagsvísindafólk, umhverfisverndarsinnar og samfélög á hverjum stað munu taka þátt í víðfeðmri dagskrá sérstakra viðburða sem haldnir verða bæði í raunheimum og á netinu. Á meðan verkefnið stendur yfir mun London Review of Books kalla eftir sérstökum pistlum frá skáldum á mörgum þeirra staða sem World Weather Network nær til.

Þrátt fyrir að hver stofnun flytji fréttir af veðrinu á sínum heimaslóðum tengir ofhitnun á andrúmslofti jarðar allar „veðurstöðvarnar“ saman. World Weather Network setur fram óhefðbundnar leiðir til þess að bregðast við veðurfari heimsins og loftslagi, og gefur okkur færi á að horfa, hlusta, læra og bregðast við.

Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu samtakanna: www.worldweathernetwork.org 

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Hrafnhildur Arnardóttir, Shoplifter, chromo
Dozie, Precious
Perpetual Motion
Islensku myndlistarverdlaunin 2023
Um okkur