Sársauki sem spegill á Feneyjatvíæringnum

04.06.2024

Þema Feneyjatvíæringsins að þessu sinni Stranieri Ovunque eða Ókunnugir alls staðar, í sýningarstjórn Adriano Pedrosa, skoðar þá átakanlegu almennu upplifun að vera einhvern veginn ‘utanaðkomandi’. Óvelkominn, útskúfaður, öðruvísi. Ítalska orðið straniero, sem þýðir á góðri íslensku útlendingur, kemur af orðinu strano sem getur þýtt annars vegar ókunnugur en hinsvegar skrítinn, eða undarlegur. Verkin á sýningunni fjalla því mörg hver um upplifun hinna ýmsu jaðarhópa; innflytjendur, hinsegin fólk, fatlað fólk, frumbyggja, fólk á flótta, fólk af hinum ýmsu kynþáttum sem hefur verið haldið niðri. Verkin eru því jafnvel oftar en ekki komandi frá listafólki sem er að skapa út frá sínum erfiðustu upplifunum og upp úr sínum sárustu sálarfylgsnum. Sýningin í ár er þar af leiðandi að mörgu leyti nokkuð þungbær og skilur mann ítrekað eftir með andvarp í brjósti og djúpstæða vonleysistilfinningu. En mín upplifun hefur einmitt alltaf verið sú að sterkustu verkin eru þau sem hafa áhrif á sálarlífið þitt. Láta þig finna fyrir einhverju.

Jenni-Juulia WALLINHEIMO-HEIMONEN, How great is your darkness, (2024). Finnish Pavilion.

Útsaumur, æðaleggir og yfirgefin börn

Finnski skálinn er samsýning þriggja listamanna undir titlinum The pleasures we choose. Eitt verkanna, How great is your darkness eftir Jenni-Juulia Wallinheimo-Heimonen, vakti þó sérstaklega áhuga minn og stal í raun allri athygli minni. Samkvæmt texta finnska skálans hefur listamaðurinn unnið markvisst á ferli sínum að því benda á haturðsorðræðuna, staðalímyndina og fordómana sem fatlað fólk verður fyrir í samfélaginu. 

Það fyrsta sem tekur á móti þér þegar þú gengur inn í skálann er hjólastóll sem hangir úr loftinu og snýst í hringi yfir höfði áhorfenda. Á hjólin hefur verið fest einhverskonar blúnda eða kögur og úr stólnum hanga meðal annars pallíettu prýddur tuskufroskur og líkan af mennskum fæti í raunstærð, sem virðist vera klæddur rúmfataefni, með glitrandi perlum og rauðum útsaumi. Undir setunni er samskonar líkan af hendi, sem gefur áhorfendum fingurinn þegar hún snýr að þeim. Á veggnum til hægri er svo textíl innsetning sem augljóslega tengist stólnum, með hinum ýmsu vísunum til mannslíkamans, heilbrigðisgeirans og fötlunar, en einnig mjög svo nostalgískum smáatriðum sem liggja á þessum áhugaverðu mörkum, sem ég nýt þess alltaf mikið að sjá í listaverkum, að vera einhvernveginn sammannleg en vekja samt upp sterka tilfinningu hjá manni að þau séu gríðarlega persónuleg.

Í innsetningunni miðri er stór skúlptúr úr textíl sem er á sama tíma óhlutbundinn en líka mjög líkamlegur. Við nánari athugun er hann settur saman úr læknasloppum, spítalafötum og rúmfötum, vísandi í heilbrigðisgeirann. Umhverfis hann eru allskyns smáhlutir, einnig gerðir úr hinum ýmsu textílefnum, perlum og útsaumi, sem virðast segja manni sögur. Tilfinningin er eins og draumkenndar dagbókarfærslur, eins og maður sé að fá að gægjast inn í einkalíf einhvers. Minningar, tilfinningar, hugsanir. Ljósakróna með perlusettum kertum og harðsoðnum eggjum, lítil líkkista með froski á sem úr danglar teskeið með einhverskonar meðali í, bátur sem svífur í loftinu sem úr hanga leiðslur sem breytast á miðri leið í plöntur sem úr blómstra fjólubláir æðaleggir. Allir þessir hlutir liggja á mörkum þess að vera líkamlegir. Útsaumaðir þræðir sem minna á æðar og taugakerfi, perlumynstur sem minna á DNA keðjur, blúndur sem minna á skapabarma. Hendur og fætur leynast einnig hér og þar.

Jenni-Juulia WALLINHEIMO-HEIMONEN, How great is your darkness, (2024). Finnish Pavilion.

Á einum stað er bók með áletrunina “First, do no harm” á kápunni sem vitnar í Hippókratesareiðinn, sem læknar sverja þegar þeir útskrifast. Á öðrum stað er lítið plagg sem á stendur “Ospedale dei Derelitti”, sem virðist, eftir smá gúgl af minni hálfu, vitna í kirkju hér í Feneyjum, Santa Maria dei Derelitti, sem vill svo skemmtilega til að er bara um það bil 200 metra frá íbúðinni okkar og við höfum setið og sötrað á torginu fyrir utan margoft. Þessi kirkja var byggð upp við 16. aldar spítala fyrir fötluð og langveik munaðarlaus börn. En orðið ‘dereletti’ getur einnig þýtt ‘yfirgefinn’, þannig að áletrunina má einnig lesa sem “spítali hinna yfirgefnu”. Á gólfinu fyrir neðan innsetninguna eru tveir skjáir með súrrealískum myndböndum með svipuðum þemum; fólki í læknasloppum, konum í litríkum drögtum í hjólastólum og með göngugrindur, blindrahundur, tertuhlaðborð og pottaplöntur. Kona liggur út af í rafknúnum hjólastól með Hippókratesareiðinn yfir bringunni og gefur fingurinn í myndavélina. Wallinheimo-Heimonen nær með þessu einstaklega efnislega djúsí verki að færa mann inn í veruleika fólks með fatlanir á ótrúlega nærgöngulan og fallegan hátt.

Jenni-Juulia WALLINHEIMO-HEIMONEN, How great is your darkness, (2024). Finnish Pavilion.

Þunginn í þögnunum

Á samsýningunni í Giardini er virkilega áhrifaríkt verk eftir Gabrielle Goliath titlað Personal Accounts. Inni í hliðarrými klæddu ljósbláu mjúku efni umkringja mann stórir skjáir sem halla upp að veggjunum. Á hverjum skjá er manneskja sem situr fyrir framan ljósbláan bakgrunn, í stíl við rýmið. Maður heyrir fólkið andvarpa, hika, kyngja í kór. Nudda saman höndunum, fikta við eitthvað. Skjálfandi hendur halda á bréfi með upplýsingum sem áhorfandinn hefur ekki aðgang að. Ein manneskjan hummar angurværa tóna með tárin í augunum. 

Gabrielle GOLIATH, Personal Accounts, (2024). International exhibition at Giardini.

Maður finnur strax þungann í rýminu, það er áþreifanleg örvænting yfir verkinu, en þó á sama tíma er sterkur undirtónn fyrir einhverskonar ró og samþykki. Við nánari skoðun á veggtextanum kemur í ljós að Goliath hefur síðan 2014 safnað reynslusögum frá jaðarsettum einstaklingum frá ólíkum stöðum í heiminum. Fólkið segir frá áföllum sem þau hafa orðið fyrir í nafni feðraveldisins, kynþáttafordóma og nýlendustefnunnar. Síðan eru sögurnar sjálfar, orðin sem lýsa áföllunum þurrkuð út og ekkert skilið eftir nema hljóðin sem fylla þagnirnar á milli setninga. Viðbrögðin sem líkaminn kveikir á þegar hann þarf að endurupplifa minninguna sem dregin er fram. Róin sem maður finnur er ef til vill út frá hinu örugga rými sem Goliath skapaði fyrir einstaklingana til að tjá sig um sínar erfiðustu upplifanir, og léttinum sem skapast út frá því að fá að segja frá. Ljósbláir veggirnir og mjúkt gólfið halda svo utan um áhorfandann og veita öryggistilfinningu. En þunginn er þó sterkur, og festi mig andvarpandi í kór við verkið á lágum, ljósbláum teppalögðum bekk í dágóða stund áður en ég fann kraftinn til að halda áfram.

Gabrielle GOLIATH, Personal Accounts, (2024). International exhibition at Giardini.

Sjálfsmynd sem vopn í baráttunni fyrir tilveruréttinum

Í einum af hliðarsölum Giardini samsýningarinnar er opin hurð sem leiðir út í lítinn inngarð. Í garðinum eru bekkir, lítil manngerð tjörn og gróðri vaxnir veggir. Innst inni í garðinum stendur bronsstytta í mannstærð, á stalli með áletruninni WOMAN. Konan stendur teinrétt, bein í baki. Hún er síðhærð, með langar, beittar gervineglur. Hún er allsnakin og er bæði með brjóst og getnaðarlim. Á andlit styttunnar hefur verið smurt andlitsfarða og rauðum glosskenndum varalit. Niður kinn hennar er far eftir glimmer skreytt tár. Titill verksins er ansi langur; A sculpture for Trans Women. A sculpture for the Non-Binary Femmes. A sculpture for the Two-Spirit People. I am a woman. I don’t care what you think. (Transphobia is everywhere and everyone is susceptible to enacting it at any moment) (Unlearn the transphobia brewing within) I am a Trans Woman. I am a Two-Spirit Person. I am a Woman. This is for my sisters and siblings everywhere. History erased many of us but we are still here. I will fight for our rights until the day I die. Exile me and I’ll keep fighting. 

Jade Guanaro KURIKI-OLIVO (Puppies Puppies), A sculpture for Trans Women, (2023). International exhibition at Giardini.

Jade Guanaro KURIKI-OLIVO (Puppies Puppies), A sculpture for Trans Women, (2023). International exhibition at Giardini.

Jade Guanaro Kuriki-Olivo, einnig þekkt sem Puppies Puppies, skapaði verkið með því að steypa nákvæma eftirmynd af sjálfri sér í brons. Hún neyðir áhorfendur til þess að horfast í augu við eigin fordóma gegn samfélagi hennar og tilveru, notandi sinn eigin líkama. Því má ætla að verkið sé einstaklega berskjaldandi og persónulegt fyrir hana, en titill verksins gefur líka til kynna aðdáunarverðan baráttuanda hennar.

Jade Guanaro KURIKI-OLIVO (Puppies Puppies), A sculpture for Trans Women, (2023). International exhibition at Giardini.

Frida og Diego og Frida og ég

Alþjóðlegu samsýningunni á Feneyjatvíæringnum í ár er skipt niður í tvö tímabil Nucleo Contemporaneo og Nucleo Storico. Nucleo Contemporaneo eru verk eftir samtímalistamenn, en Nucleo Storico fókusar á verk frá 20. öldinni eftir listafólk frá Suður Ameríku, Afríku, Mið-Austurlöndum og Asíu. Dýpst inni í samsýningunni á Giardini er salur merktur Nucleo Storico - Portraits. Veggirnir eru hlaðnir málverkum, ásamt einstaka teikningum frá gólfi til lofts. Í rýminu eru einnig nokkrir fígúratívir skúlptúrar. Hér eru saman komin verk eftir 112 ólíka listamenn frá árunum 1915-1990.

Kunnuglegt andlit kallar á mig úr mergðinni. Á einum veggjanna er lítið Frida Kahlo verk, Diego y yo, eða Diego og ég. Verkið er sjálfsmynd, hún horfir angistaraugum úr rammanum, beint í augu áhorfandans. Á enni hennar liggur brjóstmynd af Diego Rivera, eiginmanni hennar, með þrjú augu, sem ólíkt augum Fridu beinast eitthvað út í buskann. Staðsetning Rivera á enni Fridu má lesa sem tákn um ástand hennar við gerð verksins, að hún geti ekki hætt að hugsa um hann. Niður kinnar hennar streyma þrjú tár, speglandi augun hans þrjú. Þriðja augað hans gefur til kynna hátt álit hennar á honum, að hann hafi dýpri skilning en hún, að hann viti eitthvað sem við vitum ekki. Að hálsinum á henni þrengir hennar eigið hár, ef til vill táknandi kæfandi andlegt ástand hennar. Við hliðina á verki Fridu hefur risastóru verki í kúbískum stíl eftir Rivera verið komið fyrir. En verkið hennar er svo stútfullt af tilfinningu að orka þessa litla verks flæðir yfir allt rýmið. Litar það sorginni í augunum hennar, sem fylgja manni um herbergið.

Ég hef alltaf, eins og mögulega flestir, verið mikill aðdáandi Fridu. Notkun hennar á sjálfsmyndinni sem útrás fyrir andlegan sársauka og sem spegill til þess að skilja sjálfa sig, hefur alltaf talað til mín. Jafnvel er enn mikilvægara, að með tímanum hafa verk hennar orðið verkfæri fyrir aðra til að spegla eigin sársauka í henni. Ég horfi í augun hennar og ég sé okkur báðar. Ég sé tilfinningar hennar og upplifanir, en ég sé einnig mínar eigin. 

Frida KAHLO, Diego y yo, (1949). International exhibition at Giardini.

Að lokum

Hægt væri að segja frá aragrúa af fleiri verkum sem snertu við mér að þessu sinni. Það eru auðvitað auðmeltanlegri bitar að kyngja inn á milli, en þema sýningarinnar kallar þó heldur betur fram óréttlætið og valdamisréttið í heiminum gegnum aldirnar, sem og nú. Einstaklingum, hópum og jafnvel þjóðum sem hafa þurft að berjast fyrir tilvistarrétti sínum er boðin rödd, með undantekningum engu að síður, en miðað við ástandið í heiminum á líðandi stundu skapar það jafnvel spennu og þörf fyrir frekara samtal.

Herdís Hlíf Þorvaldsdóttir, Lítil í mér, (2023). Úr einkasafni.

Annar pistillinn frá Feneyjum um sýningar tvíæringsins þar sem fjallað er um meginstrauma og hugmyndir þar, spennandi þjóðarskála og óvissu samtímans, titill aðalsýningarinnar  ,,Ókunnugir alls staðar’’ sem er sýningastýrð af Adriano Pedrosa.

Nýútskrifaðir nemar frá myndlist í LHÍ og listfræði í HÍ, búsettir í Feneyjum í starfsnámi fyrir Íslenska skálann á Feneyjatvíæringnum vinna að greinarskrifum og pistlagerð þaðan um lykilhugtök og þemu sýninga sem standa nú yfir þar.

Herdís Hlíf Þorvaldsdóttir, einnig þekkt sem Herdill, er 25 ára listakona frá Reykjavík. Hún vinnur aðallega með klassískt fígúratíft olíumálverk. Herdill útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands vorið 2023, en stundaði einnig nám við Myndlistaskólann á Akureyri og Accademia di Belle Arti di Brera í Milano.

Herdís Hlíf Þorvaldsdóttir, Lítil í mér, (2023) Úr einkasafni.

Jenni-Juulia WALLINHEIMO-HEIMONEN, How great is your darkness, 2024, Finnish Pavilion

Jenni-Juulia WALLINHEIMO-HEIMONEN, How great is your darkness, 2024, Finnish Pavilion

Jenni-Juulia WALLINHEIMO-HEIMONEN, How great is your darkness, 2024, Finnish Pavilion

Gabrielle GOLIATH, Personal Accounts, (2024). International exhibition at Giardini.

Gabrielle GOLIATH, Personal Accounts, (2024). International exhibition at Giardini.

Jade Guanaro KURIKI-OLIVO (Puppies Puppies), A sculpture for Trans Women, (2023). International exhibition at Giardini.

Jade Guanaro KURIKI-OLIVO (Puppies Puppies), A sculpture for Trans Women, (2023). International exhibition at Giardini.

Jade Guanaro KURIKI-OLIVO (Puppies Puppies), A sculpture for Trans Women, (2023). International exhibition at Giardini.

Frida KAHLO, Diego y yo, (1949). International exhibition at Giardini.

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Austurstræti 5