Nýskipað myndlistarráð úthlutar 21,6 millj. kr. í styrki til 68 verkefna í síðari úthlutun sjóðsins á þessu ári. Sjóðnum bárust 142 umsóknir og sótt var um alls 99,8 millj. kr.
Styrkir til sýningarverkefna eru 45 talsins að heildarupphæð 14,7 millj.kr., þar af fara 28 styrkir til minni sýningarverkefna og 17 styrkir til stærri sýningarverkefna. Verkefnin eru fjölbreytt og telja einkasýningar, samsýningar og sýningarraðir íslenskra listamanna um allt land sem og utan landssteinanna.
Stærsta styrkinn í flokki sýninga, að upphæð 1 millj. kr, hlýtur Erling T.V Klingenberg vegna fyrirhugaðrar sýningar listamannsins í Kling & Bang og Nýlistasafninu. Þá hlýtur Kling & Bang í Marshallhúsinu styrk, vegna sýningarraðar fjögurrra einkasýninga ungra listamanna, að upphæð 900 þúsund kr sem og listahátíðirnar Seqeucences IX myndlistarhátíð og Ferskir vindar í Suðurnesjabæ sem hljóta hvor um sig 800 þúsund kr.
Í öðrum flokkum eru veittir 9 undirbúningsstyrkir að heildarupphæð 2,05 millj. kr., 11 útgáfu- og rannsóknarstyrki að heildarupphæð 4,1 millj. kr og þrír styrkir í flokki annarra verkefna að heildarupphæð 750 þúsund kr. Í flokki útgáfu og rannsókna hlýtur Rúrí stærstan styrk, að upphæð 1 millj.kr, vegna útgáfu yfirlitsbókar um gjörninga listakonunnar frá árinu 1974 til 2020.
Listi yfir styrkþega er aðgengilegur hér.
Hlutverk Myndlistarsjóðs er að efla íslenska myndlist með fjárhagslegum stuðningi og stuðla þannig að framgangi listsköpunar, kynningu og aukinni þekkingu á íslenskri myndlist. Myndlistarsjóður heyrir undir myndlistarráð og starfar samkvæmt myndlistarlögum og eftir reglum sem mennta- og menningarmálaráðherra setur. Sérskipaðar matsnefndir meta umsóknir og gera tillögu að úthlutun.
Myndlistarráð sem úthlutar að þessu sinni er skipað:
Helga Þorgils Friðjónssyni, formanni myndlistarráðs, Dagnýju Heiðdal f.h. Listasafns Íslands, Hannesi Sigurðssyni f.h. listfræðifélagsins, Guðrúnu Erlu Geirsdóttur f.h. SÍM og Hlyni Helgasyni f.h. SÍM
Í matsnefnd úthlutunar sátu:
Guðrúnu Erla Geirsdóttir, Hlynur Helgason, Ingvar Högni Jónsson, Kristján Steingrímur Jónsson, Ragnheiður Gestsdóttir, Ragnheiður Pálsdóttir.