Sigurður Guðjónsson og Jóhannes Dagsson í samtali

15.05.2023
Sigurður Guðjónsson: Leiðni leiðir, 2023.

Fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum árið 2022, Sigurður Guðjónsson, sýnir í sumar umfangsmikla innsetingu í Verksmiðjunni á Hjalteyri. Sýningin ber titilinn „Leiðni leiðir“ og yfirtekur 2000 fm sýningarrýmið. Í aðdraganda sýningarinnar ræddi Sigurður við Jóhannes Dagsson, heimspeking um intakk verksins, tíma og orku.

JD: Verkið er væntanlega einn samfelldur hljóðheimur?

SG: Ég nálgast bygginguna sem eitt stórt hljóðumhverfi þannig að vængirnir á byggingunni eru fyrir mér sem sitt hvor rásin, hægri og vinstri, í einskonar stereo-mynd. Á milliloftinu eru holur sem hljóð ferðast á milli og eltir áhorfandur þegar þeir ganga í gegnum verkið. Á jarðhæðinni eru göng í miðju rýminu og þar má heyra upptökur af endurómi. Göngin eru fjörutíu metra löng og því tekur tíma fyrir hljóðin að berast inn í afkima byggingarinnar. Hljóðheimurinn í sýningunni er unninn í nokkrum lögum. Annar svegar er ég að vinna með rafhljóð sem koma úr myndefninu sjálfu, sem ég síðan umbreyti í vinnsluferlinu, og hins vegar er ég að vinna með upptökur af endurómi í innviði flygils sem píanóleikarinn Tinna Þorsteinsdóttir spilar á. Það má því segja að hljóðmyndin sem ég búi til eigi samræðu við hljóminn í verksmiðjunni sjálfri.

JD: Þú nálgast þetta þá líkt og hljómburð í dómkirkju, þar sem mismunandi rýmum er ætlað að bera hljóð á mismunandi hátt, eða er hægt að hugsa um þetta þannig að verksmiðjan sé þarna orðin eins konar hljóðfæri?

SG: Já, kannski að húsið sé orðið eins og hljóðfæri – það hæfir að hugsa það þannig því arkitektúrinn í Verksmiðjunni er mjög áhugaverður og hljóð bregst við ólíkum rýmum á mismunandi hátt – byggingin er að vissu leyti eins og hljóðfæri, alveg samhverf, og beinar línur og kubbar í gegnum húsið. Síðan eru göt á öllu húsinu og inn um þessi göt kemur ljós og loft.

JD: Hvernig ertu að hugsa verkið í samhengi við bygginguna og arkitektúrinn?

SG: Ég er að vinna með miðju byggingarinnar (þrjár hæðir) og hugsa um sýninguna sem einn stóran fjölskynjunar skúlptúr, sem er samofinn byggingunni sjálfri. Ég nota álplötur í stærðinni 150 x 300 cm til að búa til slóð eftir lengd millihæðarinnar; allur þessi strúktúr er um 5 × 40 m langur. Þó að það sé gríðarleg lengd, þá er líka nánd sem þú finnur fyrir þegar þú gengur í gegnum verkið, en af jarðhæðinni skapast allt önnur tenging við verkið.

Verksmiðjan á Hjalteyri

JD: Myndar sjónræni þátturinn samfellda heild?

SG: Sjónræni heimurinn umbreytist úr einu landslagi í annað í samfelldu flæði; það er stöðugt eitt atriði á eftir öðru og þessi hreyfing endurtekur sig síðan á þrjátíu mínútna fresti. Tökuferlið er líka mjög lífrænt. Það mætti líkja því við að úða með úðabrúsa; ég ramma varla neitt inn, beini bara myndavélinni í mismunandi áttir og þannig verður til eins konar sjónstormur.

SG: Já, ég vinn það algjörlega tilviljanakennt, því maður missir smá stjórn á þessu í tökunni en svo móta ég þetta í klippingunni og sú vinna er mikil kompósisjón og nákvæmisvinna. Nánast

JD: Það er engin alltumlykjandi frásögn í uppsetningunni eða á meðal smærri hluta hennar? Það

er ekki verið að brjóta upp stærri frásögn niður í minni hluta… þetta er lífrænna en svo…)

eins og að móta tónverk þar sem tíminn skiptir miklu máli, fer frá víðum sjónarhornum og inn í meiri nærmyndir, svo úr verða eins konar nærmyndir af hljóði, ljósi og hreyfingu sem renna saman í eitt.

JD: Og það er alveg heilt í þeim skilningi að þú ert alltaf að horfa inn í þennan heim? Þennan klið? Þetta er eins og lífvera einhvern veginn, með þannig hringrás og afmörkun, – þú ferð ekkert út?

SG: Já, það er alveg satt. Þetta er svona lífvera. Kannski er húsið í heild sinni fyrirbæri og verkið lífvera. Maður er alltaf inni í þessum heimi. Grunnurinn er þá kannski liturinn, hreyfingin, ljósið. Það eru þessir grunnþættir í þessu… og orka.

JD: Það er það sem maður er að horfa á, er það ekki, orka? En það eru samt engar eldingar – þetta er hægt og rólegt.

SG: Já, þetta er hægt í fjarska en rosaleg keyrsla ef þú ferð inn í nærmyndina, smáatriðin…

JD: Það eru margir tímar í verkinu, þeir verða til bæði í hverri töku, og í því að færast á milli þeirra…

SG: Já, það myndast ólíkir tímakvarðar, líka á milli skjáanna, hvernig svo sem maður les tímann í þessu.

JD: Þá er kannski hægt að velta áfram fyrir sér hvar eða hvernig tíminn verður lesanlegur í verkinu? Les maður tímann út frá hreyfingu innan verksins, eða hvaða viðmið hefur maður til að lesa tímann, hvar lendir maður?

SG: Einmitt, hvar lendir maður? Þegar ég er að klippa þetta er ég mikið að hugsa um tímalengdina á hverjum kafla, að hann sé ekki of stuttur, að maður finni ekki fyrir klippi eða frásögn í klippinu. Þetta er svona ein til tvær mínútur (hver partur fyrir sig) áður en þeir leysast upp og hverfa inn í þann næsta.

JD: Þeir eru nógu langir til að maður hætti að búast við einhverri frásögn?

SG: Já, ég held að það skipti máli í þessu að maður nái að detta inn í heiminn án þess að vera truflaður of mikið. En það er nýtt fyrir mig að setjast við klippiborðið. Ég hef ekki gert það í mörg ár. Þetta er mikil klippivinna sem er svakalega skemmtilegt ferli.

JD: Ef maður horfir á klippivinnuna á klippiskjánum er þetta eins og bíómynd.

SG: Já, og ef maður horfir á þetta á klippiskjánum er þetta smá eins og loftmyndir úr stórborg eða eins konar matrix. Blikkandi ljós í fjarska eins og á flugvelli, virkar eins og næturborg einstaka sinnum sem hverfur svo aftur.

JD: Þetta verður mjög skúlptúrískt, rýmið, og verkið byggir á því.

SG: Já, það var markmiðið með þessari sýningu að verkið taki yfir allt húsið, að virkja og nýta allt húsið fremur en að koma með kvikmynd inn í húsið sem þú horfir á sitjandi á bekk. Frekar að verkin séu einskonar ljósuppsprettur eða kveikjur sem búa til upplifun. Verksmiðjan er risastór steypumassi og mjög drungaleg, svarthvít og í rauninni frekar brútal bygging. Það er ákveðin þyngd þarna og ég vildi búa til mótvægi inn í húsið. Ég var alltaf að leita eftir þessum andstæðum og bara liturinn sem er í verkunum er mjög afgerandi. Hann virkar þarna í andstöðu sinni við rýmið. Húsið er kannski að óska eftir þessu líka. Rýmið vinnur með verkunum og verkin vinna með húsinu eða rýminu.

Sigurður Guðjónsson: Leiðni leiðir, 2023.
Sigurður Guðjónsson: Leiðni leiðir, 2023.
Sigurður Guðjónsson: Leiðni leiðir, 2023.

JD: Þetta býr til nýtt litað lag inn í formið á húsinu sem er grátt og skringilegt. Það verður samt minna skrýtið þegar maður fattar verksmiðjuleiðina, það er að segja þegar maður áttar sig á þeim hlutverkum sem ráða strúktúrnum upprunalega, þá skilur maður það aðeins betur, en við fyrstu kynni er það mjög undarlegt.

SG: Já, þetta er einmitt það sem er svo heillandi við þennan sýningarstað. Bæði staðsetning hans landfræðilega og svo þessi ókennilegi heimur sem er þarna inni og arkitektúrinn sjálfur.

JD: Kannski af því að frásögninni er haldið utan fyrir þetta þá er manni vísað beint inn í myndheiminn, myndina sjálfa?

SG: Já, en svo á sama tíma erum við með allt húsið og hljóðið í kringum okkur. Í rauninni sé ég þetta eins og marga litla þætti sem koma saman og skapa ástand í allri byggingunni.

JD: Kannski áhugavert að það verður eins og rýmið að einhverji leyti. Það er holótt.

SG: Það er æðakerfi í húsinu. Þetta er gömul verksmiðja og húsið hannað út frá þörfum gamalla framleiðsluferla og það þurfti að hafa rásir á milli rýmanna til að virka.

JD: Það er svolítið magnað að myndheimurinn sem þú ert að vinna með á sér augljósa tengingu við hið lífræna þ.e. líf og hreyfingu og þrátt fyrir að hér séu ekki þekkjanlegir hlutir, er ekki hægt að tala um þetta sem óhlutbundið, maður fer ekki þangað, það eru ekki þær tengingar sem koma upp í hugann. Maður fer eiginlega frekar inn í einhvern tíma, heim þar sem er tími, fremur en að horfa á þetta eins og málverk, tíminn kemur á undan, sem er áhugavert.

SG: Já, við erum að horfa á tíma, orku, rafmyndað ljós, mynd framkallaða af háspennugjafa. Allt eru þetta þættir sem við skynjum og hefur vonandi áhrif á sálarlíf áhorfandans. Rafljósið endurtekur sig í sífellu og myndar vélrænan takt sem á sama tíma er lífrænn. Útkoman er ekki í formi hlutar heldur ef til vill nokkurs konar tenging við annars konar heim.

Sýning Leiðni leiðir stendur frá 20. maí til 16. júlí 2023. Sjá nánar: verksmidjanhjalteyri.com

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Austurstræti 5