Þröskuldar á Feneyjatvíæringnum

15.10.2024
Installation View la Certosa, Photo Sunna Dagsdóttir.png

Þessi grein endurspeglar upplifun höfundar af því að heimsækja sýninguna Thresholds á eyjunni La Certosa í Feneyska lóninu. Sýningin er hluti af þýska skálanum í ár í umsjón Çağla Ilk og er til sýnis til 24. nóvember. 

Sum atvik og lýsingar eru uppspuni.

Það var mánudagshádegi þegar ég lagði leið mína yfir til eyjunnar La Certosa. Mánudagar eru rólegir í Feneyjum. Sýningar og skálar Arsenale og Giardini eru lokaðar og einnig flestir veitingastaðir og barir eftir annasamar helgar. Ég fer með bát númer 4.2 til eyjunnar og þegar við nálgumst bryggjuna flýti ég mér að útganginum til að tryggja að ég komist af bátnum á þeim stutta tíma sem hann staldrar við bryggjuna. Mér til undrunar er ég sú eina sem hoppa af bátnum. Ég verð óviss með þetta stökk á eyjuna og horfi á skipstjórann sem veifar mér örlítið en það róar mig ekkert þegar ég horfi á eftir bátnum.

Flotbryggjan að eynni er óvenju löng og öldurnar sitt hvoru megin skella á bryggjunni og láta eins og þær séu í reipitogi, sem gerir bryggjuna óstöðuga. Þegar hljóðið frá bátnum hverfur í fjarska heyri ég rödd sem virðist bergmála allt í kringum mig og ég fyllist forvitni og geng nú ákveðnum skrefum í átt að ströndinni. 

“We move through doorways too quickly.” “We move through doorways too quickly.” 

Ég nem aftur staðar og hlusta, held í handrið bryggjunnar og horfi í átt að eyjunni. Enginn - ekki ein einasta mannvera í sjónmáli.

Nicole L’Huillier_ Encuentros, 2024, Photo_ Andrea Rossetti-2.JPG

Nicole L’Huillier_ Encuentros, 2024, Photo_ Andrea Rossetti-2.JPG

Þar er stórt tún í mikilli órækt og ljós malarslóði liggur að skógi vöxnu svæði í fjarska. Allt í einu tek ég eftir því hvernig heyrnarskynið hefur styrkst þegar ég byrja að hlusta á andardrátt minn og fótatak (þetta er nánast óhugsandi í skarkalanum í Feneyjum). Í þessu aukna skynjunarástandi geng ég lengra inn á túnið. Allt í einu finn ég slátt sem berst upp líkama minn gegnum iljarnar. Það er eins og framandi hjartsláttur slái í mínum líkama. Túnið virðist nú kröftugt og gefur sögu mannlegrar og náttúrulegrar fortíðar rödd, hjartslátt. Túnið ekki ósnortið af menningu og ég finn fyrir því.

Ég geng áfram í átt að trjánum og sé rústir af klaustri þaðan sem berst hátíðnihljóð. Engin afmörkuð leið virðist vera að byggingunni þar sem stígarnir eru allir vaxnir illgresi. Ég tek löng skref yfir hátt illgresið og fer inn í eyðilagða bygginguna. Innan veggja þessa yfirgefna klausturs finn ég fyrir ró sem þar hefur áður ríkt en hátíðnihljóðin endurkastast á rauðum brotnum múrsteinsveggjum eins og það sé verið að vara einhvern við nærveru minni.

Og svo var hún þarna, annar gestur. Ég verð að viðurkenna að mér brá svolítið vegna þess að ég hafði gert ráð fyrir að ég væri eini gesturinn á eyjunni. Hún er alveg kyrr, virðist dáleidd af  hljóðinu eins og ég. Þegar ég geng hljóðlega framhjá henni sé ég að henni bregður og hún sperrir eyrun en hreyfir sig ekki að öðru leyti. Innan veggja klaustursrústanna er stórt krúnumikið tré og laufin eru smám saman að gulna. Ég fylgi eyrum mínum þegar þau leiða mig í gegnum rústirnar þar til ég stend aftur fyrir aftan bygginguna með útsýni yfir Lido-eyju. Hljóðið frá klaustrinu hefur fylgt mér og ég velti því fyrir mér hvort ég sé enn inni. Að leita svara leiðir mig hvergi og ég læt skynfærin um að leiða mig enn lengra inn í þetta framandi ástand. Ég velti á sama tíma fyrir mér hvort þetta ástand hafi valdið því að ég hafi séð ofsjónum - að ég hafi kannski aldrei séð hinn gestinn, kanínuna. Ég geng aftur að aðalslóð eyjarinnar.

Ég kem inn í mýrarlendi þar sem ég sé himnu hanga í tré, hún hlustar á mig og hefur kannski verið að því síðan ég hoppaði á eyjuna. Þegar ég geng undir tréð titrar húðin á mér og svarar himnunni án meðvitundar minnar. Ég geng í gegnum göng af bambustrjám og hlusta á samtöl þeirra. Húð mín þjónar sem þröskuldur sem miðlar merkingu og skilningi. Himnan virðist ekki aðeins vera að tala við mig heldur allar hinar himnurnar á eyjunni í gegnum titring. Við erum öll tengd. 

Nú, í skógardjúpinu, blæs sterkur vindur svo rólega. Ég er týnd en ég fylgi trjánum þangað til ég er þar. Ég hlusta. 

Nicole L’Huillier_ Encuentros, 2024, Photo_ Andrea Rossetti.JPG

Nicole L´Huillier, Encuentros, 2024, Photo Andrea Rosetti.

Í fyrsta skipti teygir sýning þýska skálans á Feneyjatvíæringnum úr sér, úr hinni sögulegu hlöðnu byggingu í Giardini, yfir á yfirgefnu nágrannaeyjuna La Certosa. Skálinn í Giardini er troðfullur af gestum á hverjum degi en vegna staðsetningar eyjunnar er boðið upp á einstakari og rólegri umgjörð, þar sem gestir geta notið upplifunar með hljóðskynjun.

Á sýningunni, sem ber heitið Thresholds (ísl. Þröskuldar), eru verk eftir sex listamenn, þar af fjóra sem fjallað er um í þessari grein. Á La Certosa er hugmyndin að þröskuldinum úr skálanum á Giardini framlengd með verkum Robert Lippok, Jan St. Werner, Nicole L'Huillier og Michael Akstaller. Verkin hafa hvert um sig samskipti við landslag eyjarinnar í gegnum ýmis hljóðverk og skapa umræðu um merkingu og skynjun. 

Saga eyjunnar La Certosa nær aftur til 1199 þegar eyjan fóstraði klaustur Ágústínusarsamfélagsins. Á 14. öld var eyjan gefin Karþúsasamfélaginu í Flórens, en undir stjórn Napóleons neyddust munkarnir að lokum til að fara og eyjan var nýtt undir hernaðarrekstur. Í dag geyma rústir klaustursins og hergeymslur enn sögu eyjarinnar. Þetta er í annað sinn sem eyjan hýsir þjóðarskála á Feneyjatvíæringnum, en sú fyrsta var sýningin A Bridge to the Desert frá lýðveldinu Namibíu árið 2022.

Jan St. Werner, Volumes Inverted, 2024, Photo Sunna Dagsdóttir.

Jan St. Werner, Volumes Inverted, 2024, Photo Sunna Dagsdóttir.

Þýski skálinn í ár, undir stjórn Çağla Ilk, reynir að fjarlægja sig frá hefðbundinni flokkun þjóða á sýningunni með því að taka þetta skref út á við til La Certosa. Í viðtali við vefritið Whitewall segir sýningarstjórinn að mikilvægi þess að velja þennan stað liggi í hlutverki þess við að rýra hugtakið þjóðernistilhögun. Sýningin á eyjunni merkir frávik frá hefðbundnum hugmyndum um rými og þjónar sem nýr skáli sem ögrar stigveldisskipulagi og afmörkun byggingarlistar.

Eyjan La Certosa er staðsett í aðeins 10 mínútna bátsferð frá Giardini della Biennale stoppistöðinni. Sem stærsti skáli þessa árs, um 22 hektarar, býður sýningin á La Certosa gestum upp á margþætt skynjunarferðalag. Hljóðverkin fjögur eru sett upp á mismunandi stöðum víðsvegar um eyjuna, hvert sérstaklega innbyggt í umhverfi sitt:

Fyrir verk sitt Feld (Field) setti Robert Lippok upp hljóðnet með 12 drumbum á víð og dreif um  óræktað tún. Drumbarnir gefa frá sér bassaslátt neðanjarðar þar sem áður stóðu klaustur og síðar hernaðarmannvirki. Taktur og mismunandi tíðni hljóðsins leikur með skynjun gesta og opnar umræðuna um ræktað og byggt landslag, sífellda umbreytingu þess og sögu af mannavöldum. Verkið Volumes Inverted eftir Jan St. Werner samanstendur af tveimur sérsmíðuðum hátölurum, annar er staðsettur í rústum klaustursins og hinn í nokkur hundruð metra fjarlægð í lóninu fyrir utan eyjuna. Hátalararnir spila tvö aðskilin rafhljóð, sem krefjast þess að gestir endurstilli sinn innri áttavita. Í Encuentros (Encounters) hefur Nicole L'Huillier sett upp hljóðnema á teygjanlegri himnu  úr sílikoni og skynjara á ýmsum stöðum á eyjunni. Himnurnar hafa samskipti við umhverfið í gegnum senditæki. Í verki sínu Scattered by the Trees kannar Michael Akstaller tíðnisvið skógarins og hvernig hljóð berst í ákveðnum vistkerfum. Uppsetning hans samanstendur af tveimur keilum sem þjóna sem mælitæki sem nema tíðni skógarins og gera gestum kleift að heyra og fylgjast með samræðum vistkerfisins.

Til að dýpka enn frekar hugmyndina um þröskuldinn bætir sýningarstjórinn við hljóðverki upp við flotbryggjuna eftir bandaríska rithöfundinn Louis Chude-Sokei. Verkið tekur á móti gestum og fjallar um  breytingar, augnablikið þegar maður kemur, þó að í raun séum við aldrei komin.

Thresholds á La Certosa vekur athygli á hversdagslegum hljóðrænum fyrirbærum, eins og vindinum í trjánum, fuglasöng, hljóðum og orðaskiptum sem virðast merkingarlaus við fyrstu hlustun. Einstök staðsetning sýningarinnar eykur heildarupplifunina og er frjósamur jarðvegur fyrir verkin sem fljóta á milli hins menningarlega og hins náttúrulega. Þröskuldurinn snýst því ekki aðeins um áfangastað og rými heldur um síbreytilega forvitni, þar sem við hlustum á umhverfi okkar og hvert annað. 

Robert Lippok, Feld, 2024, photo, Andrea Rosetti.

Robert Lippok, Feld, 2024, photo, Andrea Rosetti.

Nýútskrifaðir nemar frá myndlist í LHÍ og listfræði í HÍ, búsettir í Feneyjum í starfsnámi fyrir Íslenska skálann á Feneyjatvíæringnum vinna að greinarskrifum og pistlagerð þaðan um lykilhugtök og þemu sýninga sem standa nú yfir þar.

Sunna Dagsdóttir er sýningarstjóri og listfræðingur frá Reykjavík. Síðastliðið ár hefur hún notað Erasmus+ styrk til starfsnáms hjá Rupert Residency & Alternative Education Program í Vilníus, Litháen og Kunsthall Trondheim í Noregi.

Michael Akstaller_ Scattered by the Trees, 2024, Photo_ Andrea Rossetti.JPG

Michael Akstaller, Scattered by the Trees, 2024, Photo, Andrea Rosetti.

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Um okkur