Tikkað í box eftir Lukas Bury

24.05.2023

Á Sequences-hátíðinni í október 2021 flutti listamannatríóið Lucky 3 magnaðan gjörning. Þá skúruðu þau Darren Mark, Dýrfinna Benita Basalan og Melanie Ubaldo gólfið í listamannarekna sýningarrýminu OPEN í átta klukkustundir samfleytt og sögðu aðeins öðru

hvoru orðið puti, sem þýðir hvítur/hvít/hvítt á filippseysku. Um leið og hvít manneskja kom inn í salinn fór einn af listamönnunum að skúra gólfið í kringum viðkomandi svo gestinum þótti sem hann væri ekki velkominn. Björk Hrafnsdóttir skrifaði síðar grein fyrir vefritið Artzine þar sem hún lýsti óþægilegri tilfinningunni þegar þau skúruðu burt sporin í kringum hana og svo hvernig hún sporaði gólfið meira út þegar hún reyndi að víkja sér úr vegi þeirra.[1] Björk var ekki sú eina sem þótti vandræðalegt að koma á gjörninginn því margir gestir voru óvanir því að vera teknir fyrir á svo útilokandi hátt og skildu að sama skapi ekki fyllilega hvað væri að gerast.

Mér fannst æðislegt að verða vitni að þessum gjörningi. Það gleður mig líka hvað hópurinn nýtur mikillar velgengni, sem og listamennirnir hver í sínu lagi. Ég fagna því einlæglega að listamenn af erlendum uppruna fái að njóta fleiri tækifæra á Íslandi – ég þar með talinn. Í þessu samhengi er vert að nefna opið kall Nýlistasafnsins haustið 2020 og góðar viðtökum við verkefnum eins og hljómplötunni Vestur í bláinnGerðuberg Calling á vegum Borgarbókasafns, samstarfsverkefninu Tökum höndum saman á vegum Borgarsögusafns og Listasafns Reykjavíkur, auk pólsku listahátíðarinnar Vor/Wiosna í Sláturhúsinu á Egilsstöðum.

Þó er hollt að muna að þetta er aðeins lítið skref í rétta átt. Þær breytingar sem munu (og verða að) eiga sér stað á næstu árum þurfa að vera gagngerar og það skiptir öllu að við sættum okkur aldrei við orðinn hlut, jafnvel innan listasenunnar, sem þó er (tiltölulega) frjálslynd og framsækin. Þótt ég kunni að meta margar af þeim ákvörðunum og aðgerðum sem íslenskrar listastofnanir hafa komið í framkvæmd að undanförnu er mikilvægt að viðurkenna að enn er mikið starf óunnið. Áherslu- og skipulagsbreytingar á sviði íslenskra menningarstofnana þegar horft er til framtíðar verða að taka mið af þessu.

Það liggur í augum uppi að þau sem marka stefnu landsins hyggja á aukin umsvif á alþjóðlegum vettvangi. Síaukið vægi ferðaþjónustunnar á Íslandi ýtir hins vegar undir þörfina á því að styðja frekar við og kynna íslenskar listir og menningu sem útflutningsvöru. Þá má menningargeirinn ekki stjórnast alfarið af kynningar- eða fjárhagslegum hagsmunum, heldur þarf þessi þróun að bera merki um samfélagslega ábyrgð. Til að takast á við þetta verkefni þurfa íslenskar menningarstofnanir að vera gagnsæjar og opnar, jafnframt því að tefla fram sem fjölbreyttustum sjónarhornum og forðast tókenisma eða sýndaraðgerðir. Þannig geta þær lagt sig fram um móta menningarlandslagið á þann hátt að gera það jafnara, opnara og aðgengilegra fyrir ólíka samfélagshópa.

Slíkar breytingar eru vissulega jákvæðar fyrir þá listamenn sem njóta þeirra en þær þjóna einnig því markmiði að viðhalda ímynd stofnana. Þeim er og hrint í framkvæmd innan ákveðinna ramma sem virðast til þess fallnir að tefja nauðsynlegar framfarir og viðhalda ríkjandi valdakerfi listheimsins.

Það er því ekki nóg að treysta því að stofnanirnar hafi frumkvæði að breytingum, heldur þarf viðhorfsbreytingu hjá okkur öllum. Þá getum við í sameiningu þrýst innan frá á stofnanalegar breytingar. Það hefur enda litlar breytingar í för með sér að gagnrýna stofnanirnar aðeins í einkasamræðum úti í bæ. Þess konar samræður urðu þó einmitt til þess að ég ákvað að skrifa þessa grein og þar með komum við að hjarta málsins.

Síðasta árið hef ég heyrt marga segja að þegar kallað sé eftir listamönnum til þess að taka þátt í sýningum stjórnist valið oft frekar af pólitískum hagmunum en listrænum gildum. Ég hef heyrt sagt að enginn myndi mæta á opnun þar sem ekki væri að minnsta kosti einn þátttakendanna íslenskur listamaður. Einhver sagði við mig að valið á þátttakendum í tiltekna sýningaröð eins safnanna væri eins og einhver sæti og tikkaði í box. Loks hef ég heyrt sagt að einn listamannanna sem Björk nefndi í Artzine-grein sinni fái svo oft tækifæri til sýninga vegna þess hvernig tíðarandinn sé. Ég vildi að ég gæti afgreitt þetta sem gamaldags röfl en þetta er það sem ég heyri frá fólki af minni eigin kynslóð.

Höfundur á meðan hann ákveður hvort nafn hljómar íslenskt eða ekki

Lukas Bury, Dagleg barátta 2023

Það má ekki gleymast að hver einasta ákvörðun sem stofnun tekur er pólitísk, hvort sem það er að sýna listamenn úr minni- eða meirihlutahópum. Sömuleiðis hefur hver ákvörðun áhrif á það hvaða umfjöllun og möguleika listamenn af ákveðnum hópum fá og af því ræðst heildarmyndin. Hver ákvörðun setur sitt mark á söguna, mótar myndlistarorðræðuna og hefur áhrif á aðild bæði einstaklinga og hópa. Kerfið sem liggur undir snýst um útilokun og inngildingu en það vill oft leiða til átaka og misskilnings. Svo það sé sagt hreint út: það er ekki síður pólitísk ákvörðun að velja aðeins „hvíta“ Íslendinga til þess að taka þátt í sýningu. Það að telja það óviðeigandi eða niðrandi að tala um pólitík í þessu samhengi er enn fremur litað hugmyndafræði frá ákveðnum anga stjórnmálanna sem leitast jafnan við að koma í veg fyrir umræður um slík mál.

Framgangur listafólks úr minnihlutahópum er því miður oft skrifaður á pólitíska réttsýni eða minnihlutakvóta, fremur en að þau séu talin njóta ávaxtanna af hæfileikum sínum og vinnu. Látið er að því liggja að þau verðskuldi í raun ekki sinn frama, heldur ráðist velgengni þeirra af utanaðkomandi þáttum. Þetta ýtir undir þá hættulegu staðalímynd að listamenn úr minnihlutahópum séu ekki eins hæfileikaríkir eða færir og þeir sem tilheyra meirihlutanum. Þá sendir það þau skilaboð að þessir listamenn séu ekki eins mikils metnir eða velkomnir inn í listheiminn, heldur fái þeir að vera með út af skyldurækni eða meðaumkun. Listamennirnir upplifa þetta sem tókenisma og yfirgang þar sem skilaboðin eru að verk þeirra séu ekki skoðuð út frá gæðum þeirra, heldur sé þeim aðeins ætlað að hjálpa til við að fylla upp í kvóta. Þessi hugsunarháttur gerir það svo að verkum að erfiðara er að takast á við þær raunverulegu hindranir sem verða á vegi listafólks sem tilheyrir minnihlutahópum. Í stað þess að tala um hindranir og mismunun í sjálfri stofnanagerðinni er miklum tíma varið í að ræða um kvóta sem eru ekki til staðar – sem aftur styrkir þá mismunun sem fær að þrífast í kerfinu.

Ég er ekki að segja að kvótar séu alltaf af hinu illa eða að þeir eigi ekki heima í listheiminum. Þeir geta verið mikilvægt tól til að taka á ójafnvægi og stuðla að fjölbreytileika. Þeir eru hins vegar aðeins fyrsta snjókornið í boltann sem við þurfum að rúlla af stað. Því við þurfum ávallt að stefna að víðtækri hugarfarsbreytingu og hvað sem stofnanirnar hafast að þurfum við öll að takast á við þetta ójafnvægi.

Mjög vísindaleg tafla sem gerir greinarmun á erlendum og íslenskum nöfnum

Lukas Bury, Vísindatafla, 2023

Hvað eru margir listamenn af erlendum uppruna á íslandi?

Mig langaði að kanna sjálfur hvort eitthvað væri til í þessum orðrómi um óopinbert kvótakerfi. Samkvæmt opinberum gögnum fyrir árið 2022 telur fólk af erlendum uppruna 16,3% íbúa á Íslandi. Það væri ekki gallalaust að áætla fjölda listamanna af erlendum uppruna út frá þessari tölu, þar sem haldbærar upplýsingar liggja ekki fyrir um þann hóp, svo þessi tala er það eina sem hægt er að styðjast við. Í ítarlegri grein sinni í öðru tölublaði Myndlistar á Íslandi, „Það á að vera eftirsóknarvert fyrir listamenn að búa í Reykjavík“, eftir Megan Auði, Bryndísi Björnsdóttur, Hugo Llanes, Vikram Pradhan og Wiolu Ujazdowska, er kafað djúpt í tölur frá 2011 til 2021 og því ákvað ég að skoða aðeins árið 2022. Ég vil þó árétta að aðferðafræði þessara tvegg ja greina er ólík – í grein sinni studdust þau við tölfræði af vísindalegri nákvæmni meðan mín nálgun er meira í ætt við ónotalegan aulabrandara. Ég ákvað að hafa samband við Rannís og falast eftir gögnum um það hversu margir einstaklingar af erlendum uppruna hefðu sótt um listamannalaun fyrir árið 2023. Þau gátu því miður ekki svarað því skýrar en svo:

Allir umsækjendur þurfa að hafa íslenska kennitölu en í umsóknareyðublöðum er ekki spurt um þjóðerni eða bakgrunn, svo við getum ekki greint þetta af okkar gögnum. Kennitalan er notuð til að nálgast upplýsingar um kyn og lögheimili í Þjóðskrá.

Þá innti ég Samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM) eftir því hversu margir af félögum sambandsins væru listamenn af erlendum uppruna. Þetta svar barst:

Nú í desember 2022 eru alls 950 félagar í SÍM. Ég er hrædd um að við höfum ekki tölu á því hversu margir þeirra eru af erlendum uppruna. Ég sting upp á að þú farir yfir félagatalið og teljir nöfnin sem hljóma útlensk en þannig er kannski hægt að fá grófa hugmynd um það.

Ég tók þessari áskorun. Enda þótt það sé nú erfitt að skilgreina hvað það þýðir fyrir nafn að hljóma útlenskt og þessi aðferð gerir það nær útilokað að falla ekki í gildru staðalímynda. Ég reyndi þetta nú samt og taldi þá félaga sem bera íslenskt föður- eða móðurnafn. Ég var ekki viss hvernig ég ætti að fara að því að telja þá sem bera íslenskt eiginnafn en ekki hefðbundið föður- eða móðurnafn.

Ég opnaði félagatalið á heimasíðu SÍM, ýtti á Crl + F, sló inn „dóttir“ og fékk 582 niðurstöður. Þá fékk ég 197 niðurstöður þegar ég sló inn „son“. Ég biðst afsökunar á þessari slöku aðferðafræði minni en við skulum eigi að síður halda okkar striki, út í fáránleikann. Samkvæmt mínum útreikningum bera 82% félaga ýmist íslenskt móður- eða föðurnafn.[2] Ef haft er í huga að sumir Íslendingar bera nöfn sem hljóma útlensk og sumir Íslendingar af erlendum uppruna taka sér móður- eða föðurnafn þegar þeir fá ríkisborgararétt, þá verður fjöldi þeirra sem eru af erlendum uppruna mögulega eitthvað í kringum hlutfallið 16,3%, sem nefnt hefur verið.

Ég beitti aftur sömu „aðferð“ á félagatal Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík (MHR), þar sem það má einnig finna á heimasíðu félagsins. Þá er áætlað hlutfall þeirra sem bera íslenskt föður- eða móðurnafn 16,9%.[3]

Þegar hér var komið leyfði ég mér að gefa sjálfum mér að hlutfallið 16,3% væri ekki svo fjarri lagi svo ég ákvað að líta yfir listann yfir þá myndlistarmenn sem fengu úthlutað listamannalaunum fyrir árið 2023 og taldi þá sem ekki báru íslenskt föður- eða móðurnafn. Alls voru 435 mánaðarlaun til úthlutunar en 285 umsóknir bárust í sjóðinn, þar sem samtals var sótt um laun fyrir 2.809 mánuði. Sextíu og sex listamenn fengu úthlutun úr sjóðnum, 41 kona og 25 karlar.[4] Aðeins sjö þeirra (10%) báru ekki íslenskt móður- eða föðurnafn en þeir hljóta 39 mánaðarlaun (8,9% af þeim 435 sem voru til úthlutunar til handa myndlistarmönnum). Ef undan eru skildir tveir einstaklingar sem bera íslenskt eiginnafn standa eftir fimm listamenn (7,5%) og hljóta þeir 27 mánaðarlaun (6,2% af heild).

Tölurnar fyrir Myndlistarsjóð líta aðeins betur út. Um 13,3% bera ekki íslenskt föður- eða móðurnafn og 9% bera heldur ekki íslenskt eiginnafn. Þessi 9% hlutu 7,3% af þeirri upphæð sem var til úthlutunar úr sjóðnum.[5]

Myndstef úthlutaði 17 milljónum króna til 39 listamanna árið 2022. Níu af þeim (23,1%) bera hvorki íslenskt föður- né móðurnafn og fengu 3,9 milljónir af upphæðinni (22,9%). Jafnframt voru ferðastyrkir veittir 21 einstaklingi en þrír (14,3%) bera ekki íslenskt móður- eða föðurnafn og fengu þeir úthlutað 350.000 krónum til samans. Aðeins einn (4,7%) ber ekki íslenskt eiginnafn og hlaut viðkomandi 150.000 krónur.[6]

Það viðurkennist fúslega að þessi aðferð er langt í frá fullkomin. Hún er huglæg, erfið í framkvæmd og yrði hafnað af öllum sem hafa tamið sér minnsta vott af akademískum vinnubrögðum. Ég geri mér grein fyrir að það yrði erfitt og kostnaðarsamt að setja upp kerfi til að halda utan um tölfræðina og beita slíkum mælikvörðum í stofnanalegu samhengi. En við þurfum að fá þessar upplýsingar. Listamenn af erlendum uppruna þurfa á þeim að halda til að afsanna orðróminn um tókenisma og til þess að vita hvar þeir standa. Því það fer ekki á milli mála að „erlendir“ listamenn eru jafnhæfir til þátttöku í menningarlífinu og þeir „alíslensku“: við leggjum til reynslu, tíma og vinnu og við stöndum skil á okkar eins og aðrir.

Leynilegur gátlisti til staðar á skrifstofu hvers safnstjóra

Lukas Bury, Leynilisti, 2023

Það mætti segja að tækifærin hafi ekki verið höfð af „íslenskum“ listamönnum undanfarin ár, heldur hafi þeir erlendu fengið fleiri tækifæri en áður. Mér þykir þessi aðgreining þó varasöm og eins endurspeglar hún hugsunarhátt sem ég er ósammála, þar sem allir sem hafast við sem listamenn hér á landi og líta á Ísland sem heima ættu að teljast íslenskir listamenn. Jafnvel þótt við höldum okkur við aðgreininguna erum við hins vegar langt undir 16,3% þegar kemur að tækifærum og sýnileika listamanna af erlendum uppruna. Ef það að þessi hópur listamanna hafi náð frama vekur hjá sumum ugg er það loks vísbending um að við þurfum að herða okkur í baráttunni fyrir breytingum. En ég læt hér við sitja að sinni og tel þörfina fyrir frekari breytingar ágætan endapunkt þessa pistils.

Greinin birtist fyrst í 3. tbl. af Myndlist á Íslandi.

Íslensk þýðing: Guðrún Björk Kristjánsdóttir

[1] Björk Hrafnsdóttir, „Björk Hrafnsdóttir Went to Sequences Opening Weekend and Here’s What She Thought“, Artzine: https://artzine.is/bjork-hrafnsdottir-went-to-sequences-opening-weekend-heres-what-she-thought/

[2] Samkvæmt félagatali á heimasíðu SÍM, 2. janúar 2022: https://www.sim.is/félagatal

[3] Samkvæmt félagatali á heimasíðu Myndhöggvarafélagsins, 2. janúar 2022: https://mhr.is/felagatal-members

[4] Sjá: https://www.rannis.is/frettir/uthlutun-listamannalauna-2023

[5] Sjá upplýsingar um úthlutanir á heimasíðu Myndlistarsjóðs: https://myndlistarsjodur.is/uthlutanir/

[6] Sjá upplýsingar um styrkþega á heimasíðu Myndstefs: https://myndstef.is/hofundar/styrkir/styrkthegar/

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Austurstræti 5