Tilnefningar til Íslensku myndlistarverðlaunanna 2025

06.03.2025

Sjö eru tilnefnd til Íslensku myndlistarverðlaunanna sem veitt eru í tveimur flokkum - Myndlistarmaður ársins og hvatningarverðlaun ársins. 

Myndlistarráð stendur nú í áttunda sinn að úthlutun Íslensku myndlistarverðlaunanna en markmiðið er að heiðra myndlistarfólk á Íslandi og vekja athygli á því sem vel er gert.

Verðlaunaafhendingin fer fram 20. mars nk. í Iðnó. 

 Myndlistarmaður ársins

Alls eru fjórir listamenn tilnefndir í flokknum „Myndlistarmaður ársins“.

Jónsi, Flóð, Ljósmynd: Vigfús Birgisson.

Jónsi: Flóð, 2024. Listasafn Reykjavíkur – Hafnarhús. Ljósmynd: Vigfús Birgisson.

Jónsi, ljósmynd: Paul Salveson.

Ljósmynd: Paul Salveson

JÓNSI

Jón Þór Birgisson, Jónsi (f. 1975), er tilnefndur fyrir sýninguna Flóð, sem var sett upp í þremur sölum í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi. Jónsi er fyrst og fremst þekktur fyrir afrek sín á sviði tónlistar en síðustu tvo áratugi hefur hann unnið að fjölbreyttum listrænum verkefnum og verið virkur þátttakandi í sýningarhaldi þvert á miðla. Sýningin Flóð er fyrsta einkasýning listamannsins í Evrópu en hann hefur áður haldið stórar einkasýningar á sviði myndlistar víða í Bandaríkjunum.

Í sýningunni Flóði hefur Jónsi skapað þrjár ólíkar innsetningar sem hver um sig umbreytir sýningarsal í marglaga upplifun fyrir skynfærin. Með notkun misturs, ljóss, hljóðs og ilms er áhorfandinn leiddur inn í heima sem vísa í ferli náttúrunnar, svo sem sjávarföll, veðrun og andardrátt. Hljóðmyndirnar eru byggðar á náttúrulegum hljóðum, mannsröddinni og stafrænni útfærslu, sem stigmagnast og flæða yfir sýningargestinn á meðan ljóshreyfingar og myndmál undirstrika lífræna hrynjandina.

Innsetningarnar þrjár eru sjónrænt og tilfinningalega ólíkar að gerð hvað varðar efni og uppsetningu. Það sem sameinar þær er hugmyndafræðilegt innihald verkanna og næmni listamannsins fyrir sterkri rýmisupplifun. Staðsetning áhorfandans í rýminu og líkamlegt samtal hans við verk sýningarinnar er mikilvægur þáttur í útfærslu verkanna og uppsetningu sýningarinnar í heild.

Mat dómnefndar er að Jónsi hafi sterka hæfni til að skapa upplifanir sem vekja áhorfendur til umhugsunar um mannlegt hlutverk innan náttúrulegrar hringrásar. Sýningin Flóð fangar bæði sjónrænan og tilfinningalegan kraft náttúruafla og sýnir hvernig listin getur miðlað dýpri skilningi á þeim kröftum sem stjórna lífi okkar.

Una Björg Magnúsdóttir: Gulari gulur, 2024. Ásmundarsalur. Ljósmynd: Vigfús Birgisson.

Una Björg Magnúsdóttir: Gulari gulur, 2024. Ásmundarsalur. Ljósmynd: Vigfús Birgisson.

Ljósmynd: Leifur Wilberg Orrason

Ljósmynd: Leifur Wilberg Orrason

UNA BJÖRG MAGNÚSDÓTTIR

Una Björg Magnúsdóttir (f. 1990) er tilnefnd fyrir sýninguna Gulari Gulur í Ásmundarsal. Með sýningunni staðfestir hún að hún er listamaður með afar persónulega sýn sem hefur þróað fjölbreytt og áhugavert myndmál. Sýningin Lost Manuals í Künstlerhaus Bethanien í Berlín staðfestir þetta frekar. Hún lauk BA-prófi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2014 og MA-prófi í myndlist frá ÉGAL í Swiss árið 2018. Una Björg hefur verið áberandi í sýningarhaldi síðustu ár, bæði hér á landi og víða í Evrópu.

Sýningin í Ásmundarsal samanstóð af þremur verkum. Á gólfi var verkið Fimm pappírsarkir, teppi sem var eftirmynd raunverulegs gólfs salarins. Yfir teppið var raðað í beina línu verkinu Pollar 1–10, plastpokum sem innihéldu pappírsarkir og tréstangir. Á veggjum héngu Afrit 1–6, mislitir rammar með að því er virtist sömu kyrralífsmynd af blómauppstillingu. Eða var það svo? Saman mynduðu þessar einingar sterka heildarupplifun, ákveðna sviðsetningu.

Listasagan er full af sjónblekkingum og nægir þar að nefna þann ásetning að framkalla þrívíðan heim á tvívíðum fleti. Sjónhverfingar eru listakonunni hugleiknar. Hún er upptekin af því að sýna fram á afstæði hluta. Upplifun lita er háð samhengi og efni hefur ekki einungis efnislega eiginleika heldur einnig ýmsar sögulegar og ljóðrænar tilvísanir. Sýning Unu Bjargar vísaði jafnt til persónulegra minninga, almennra þátta sem og tilvitnana í listasöguna. Framsetningin var áhugaverð með tilliti til forms og lita.

Mat dómnefndar er að með sýningunni Gulari gulur takist Unu Björgu Magnúsdóttur að opna á nýja sýn á daglega tilveru okkar með vel útfærðri sýningu. Útkoman var heillandi heimur sem var í senn hversdagslegur og þversagnakenndur, þar sem áhorfandanum var boðið upp á ljóðræna úrvinnslu úr eigin hugarheimi.

Pétur Thomsen: Landnám, 2024. Hafnarborg. Ljósmynd: Pétur Thomsen.

Pétur Thomsen: Landnám, 2024. Hafnarborg. Ljósmynd: Pétur Thomsen.

Ljósmynd: Sigurður Thomsen

Ljósmynd: Sigurður Thomsen

PÉTUR THOMSEN

Pétur Thomsen (f. 1973) er tilnefndur fyrir sýninguna Landnám í Hafnarborg, menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar. Samband mannfólks við náttúruna hefur verið megininntak í ljósmyndaverkum hans þar sem finna má vitnisburð um ágang mannsins á umhverfi sitt. 

Pétur lauk MFA-prófi í ljósmyndun frá École nationale supérieure de la photographie í Arles, Frakklandi, árið 2004. Hann hefur hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín og verið áberandi þátttakandi í sýningarhaldi og fjölbreyttum verkefnum hér á landi og erlendis.

Sýningin Landnám er langtíma-ljósmyndaverk þar sem Pétur tekur fyrir sambýli manns og náttúru frá sjónarhóli ójafnvægis og áverka á jörðinni eftir umgang og framkvæmdir. Í verkunum má sjá rask á náttúrunni, líkt og sár eða rof í jarðvegi og merki um skeytingarleysi í umgengni mannfólks, sem listamaðurinn staldrar við og varpar ljósi á. Í aðalsal Hafnarborgar voru sýndar innrammaðar ljósmyndir án glers sem minntu á málverk á striga. Sumar voru í yfirstærð en einnig mátti finna verk sem voru samsett úr mörgum ljósmyndum og mynduðu eina heild. 

Framsetningin kallar á nærveru áhorfandans og íhugun með listamanninum um þann boðskap sem hann vill færa fram: áminningu um áhrif mannsins á umhverfi sitt sem hefur leitt af sér hlýnun jarðar og náttúruvá. Sýningin í heild orkar sem eins konar ákall, svo óhjákvæmilegt er að spegla áhrif eigin tilvistar og tilveru á lifandi heim.

Mat dómnefndar er að Landnám sé einstaklega vel útfærð sýning, frá framkvæmd til framsetningar verkanna og að í henni megi skynja vitund um náttúruna og umhyggju fyrir henni. Með djúpri þekkingu á ljósmyndamiðlinum fangar Pétur Thomsen í verkum sínum inntak og hugmyndafræði sem á sýningunni umhverfist í samtal við áhorfandann á áhrifaríkan hátt.

Þóra Sigurðardóttir: Járn, hör, kol og kalk, 2024. Listasafn Íslands. Ljósmynd: Studio Bua.

Þóra Sigurðardóttir: Járn, hör, kol og kalk, 2024. Listasafn Íslands. Ljósmynd: Studio Bua.

Ljósmynd: Silja Rut Thorlacius

Ljósmynd: Silja Rut Thorlacius

ÞÓRA SIGURÐARDÓTTIR

Þóra Sigurðardóttir (f. 1954) er tilnefnd fyrir sýninguna Járn, hör, kol og kalk í Listasafni Íslands. Skoðun á nánasta umhverfi og endurtúlkun á hversdagslegum hlutum og breytilegum efnisheimi er leiðarstef í list hennar. Þóra á að baki langan feril og fjölda einka- og samsýninga bæði innanlands og utan. Hún útskrifaðist úr kennaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1979 og úr grafíkdeild skólans árið 1981. Hún lauk framhaldsnámi árið 1991 í Danmörku með áherslu á rými, skúlptúr og málverk. Samhliða sýningunni kom út vegleg samnefnd bók um verk Þóru Sigurðardóttur.

Á sýningunni, sem hverfðist um eiginleika efna, rýmis og teikningar, var persónulegt safn bæði fundinna og manngerðra hluta í járnskúlptúrum í miðju rýminu. Í hillum og sýningarkössum skúlptúranna voru uppþornaðar leifar eftir matargerð og lífrænt efni: dúnn, bein og plöntuleifar en einnig steinn, kopar, postulín og járn. Þessi verk lýsa vel athugun listakonunnar á áferð og litbrigðum umbreytanlegra efna og samspili þeirra við rými og samfélag.

Á sýningunni var einnig röð áhrifaríkra málverka sem eru unnin með viðarkolum, grafíti, bleki, blýanti og krít á límgrunnaðan hör. Verkin vísa til endurtekningar á uppdrætti strúktúrs og rýmis með lóðréttum og láréttum línum í marglaga myndmáli sem einkennandi er fyrir formræna nálgun Þóru við málverkið. Einnig kopar- og álætingar með fjölda nákvæmra blæbrigða í línum og litatónum. Einnar rásar vídeóverk sem ber heitið Himnur var sýnt á stórum skjá. Upptakan var af innyflum sauðkindar sem hringsnúast í eldhúsvaski fullum af vatni. Hér líkir listakonan matvinnslu við skúlptúrgerð, þar sem ný lífræn form myndast úr öðrum slíkum.

Mat dómnefndar er að sýningin Járn, hör, kol og kalk endurspegli á áhrifaríkan hátt athugun listakonunnar á efnisheimi hversdagslegra hluta og sýni mikla næmni fyrir samspili rýmis og teikningar. Sýningin túlkar á sannfærandi hátt mismunandi sjónarhorn hversdagslífs og samfélags.

Hvatningarverðlaun ársins

Alls eru þrír listamenn tilnefndir til hvatningarverðlauna Íslensku myndlistarverðlaunanna 2025.

Helena Margrét Jónsdóttir: Hrímuð krónublöð, 2024. Ljósmynd:  Helena Margrét Jónsdóttir

Helena Margrét Jónsdóttir: Hrímuð krónublöð, 2024. Ljósmynd: Helena Margrét Jónsdóttir

Ljósmynd:  Helena Margrét Jónsdóttir

Ljósmynd: Helena Margrét Jónsdóttir

HELENA MARGRÉT JÓNSDÓTTIR

Helena Margrét Jónsdóttir (f. 1996)  er tilnefnd til Hvatningarverðlauna Íslensku myndlistarverðlaunanna 2025 en hún hefur markað sér sérstöðu meðal ungra listamanna með málverkum af hversdagslegum fyrirbærum sem hún setur í óhefðbundið samhengi. Helena Margrét útskrifaðist með BA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2019 eftir að hafa numið myndlist við Konunglega listaháskólann í Haag, Hollandi, og Myndlistaskólann í Reykjavík. 

Helena Margrét hefur verið virk á sýningarvettvangi hér á landi og erlendis frá því að hún lauk námi. Hún hélt einkasýningu í D-sal Hafnarhúss, Listasafni Reykjavíkur árið 2023, Alveg eins og alvöru, þar sem myndefnið var eftirlíkingar af hlutum. Hún hélt einnig einkasýninguna Þú getur ekki fest þig í þínum eigin vef í Ásmundarsal árið 2022, þar sem kóngulær í ýmsum stærðum og við ólíkar aðstæður fönguðu athygli áhorfandans. Hún hefur einnig vakið verðskuldaða athygli víða erlendis, meðal annars í Mílanó, London og Peking.

Í verkum sínum beitir hún eiginleikum málverksins til að líkja eftir hversdagslegum og ímynduðum veruleika af mikilli nákvæmni. Viðfangsefni hennar eru oft fyrirbæri sem hún finnur í umhverfinu eða hinum stafræna heimi og teflir hún þeim saman á óhefðbundinn og oft afbakaðan hátt. Smávægilegar beyglur á dós eða kónguló í sleikibrjóstsykri nær að fanga andartakið og hægja á tíma og rúmi. Hún vísar til myndmáls skjásins þar sem skór, snakk eða hvítvínsglas er málað á einlitan víddarlausan bakgrunn, þar sem sjást hvergi skuggar né litbrigði. Hún kallar fram hughrif um það sem telst girnilegt og tært en á sama tíma óþægilegt og skrítið.

Mat dómnefndar er að málverk Helenu Margrétar Jónsdóttur séu forvitnileg og slái áhugaverðan tón í myndlistinni. Verk hennar eru vönduð og kyrrlát en á sama tíma með nýstárlegan undirtón sem virkjar ímyndunaraflið og færir áhorfandann inn í draumkenndan hugarheim. Helena Margrét sviptir hulunni af hefðbundinni birtingarmynd hversdagslegra hluta í málverki á afar sannfærandi hátt.

Sóley Ragnarsdóttir : Hjartadrottning, 2024. Gerðarsafn. Ljósmynd: Vigfús Birgisson.

Sóley Ragnarsdóttir : Hjartadrottning, 2024. Gerðarsafn. Ljósmynd: Vigfús Birgisson.

Ljósmynd:  Neven Allgeier

Ljósmynd: Neven Allgeier

SÓLEY RAGNARSDÓTTIR

Sóley Ragnarsdóttir (f. 1991) er tilnefnd til Hvatningarverðlauna Íslensku myndlistarverðlaunanna en hún vakti sérstaka athygli með sýningunni Hjartadrottningunni sem haldin var í Gerðarsafni og hún tileinkaði ömmu sinni. Sóley sem fædd er hér á Íslandi hefur lengst af búið í nágrenni við sjávarsíðuna í Sønderborg á Jótlandi. Hún brautskráðist með meistaragráðu frá Städelschule í Frankfurt 2019. Hjartadrottningin er fyrsta einkasýning hennar hér á landi en hún hefur áður haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum í Danmörku og Þýskalandi.

Á sýningunni umbreytti Sóley rýminu í litskrúðugt umhverfisverk með því að mála eins konar mynstruð veggfóður sem kölluðust á við það sem virtust vera stór hringlaga málverk sem héngu á veggjunum. Þetta reyndust ekki hefðbundin málverk heldur nánast þrívíðir flúraðir fletir, að mestu úr mynstruðum servíettum og ýmsum smáhlutum, svo sem gler- og plastbrotum með skeljum á. Með servíettum, sem hún, móðir hennar og amma höfðu safnað, sækir hún í reynsluheim sem margar konur þekkja.

Í rýminu voru einnig skúlptúrar þar sem efniviðurinn var annars vegar úr náttúrunni og hins vegar brot úr manngerðum fjöldaframleiddum forgengilegum hlutum. Efniviðnum hafði Sóley safnað á göngum sínum um fjörur. Sýningin leiðir hugann að mengun neyslusamfélagsins en jafnframt að fegurðinni í náttúrunni sem við getum notið ef við gefum okkur tíma til að staldra við.

Mat dómnefndar er að Sóley Ragnarsdóttir hafi slegið ferskan tón með litskrúðugri innsetningu úr skrautlega flúruðum veggverkum sem að megninu til voru unnin úr servíettusöfnum sem tilheyra reynsluheimi margra kvenna. Einnig skúlptúrum úr skeljum, kuðungum og brotum úr ýmsum forgengilegum fjöldaframleiddum smáhlutum úr fjörunni. Hún hafi með efnisnotkun, litskrúði og kvenlægri nálgun skapað sér sérstöðu. Marglaga skrautleg feminísk verk hennar séu hressilegt mótvægi við margt af því sem verið hefur sett upp í sýningarsölum undanfarin ár.

Vikram Pradhan: Lucidity of Dreams, 2022. Listasafn Reykjanesbæjar. Ljósmynd: Vikram Pradhan.

Vikram Pradhan: Lucidity of Dreams, 2022. Listasafn Reykjanesbæjar. Ljósmynd: Vikram Pradhan.

Vikram imv 2025

Ljósmynd: Kaja Sigvalda

VIKRAM PRADHAN

Vikram Pradhan (f. 1997) er tilnefndur til Hvatningarverðlauna Íslensku myndlistarverðlaunanna fyrir eftirtektarvert framlag sitt til myndlistar. Hann stundaði nám við Srishti-háskólann í Bangalore á Indlandi og lauk síðan meistaragráðu frá hönnunardeild Listaháskóla Íslands árið 2021. Vikram hefur verið virkur þátttakandi í sýningarhaldi hér á landi, auk þess sem hann hefur sýnt verk sín í V&A Museum í London og á Indlandi.

Meðal nýlegra sýninga hans á Íslandi má nefna samvinnuverkið Ljósbrot, sem sýnt var á Hamraborg Festival 2024, sem og vídeóverkið Spectral Relic 2°, sem var hluti af samsýningunni Líf sprottið af steini í SÍM Gallery 2024.

Verk Vikrams marka samruna hins efnislega og óefnislega. Hann vinnur jöfnum höndum með myndlist í tímatengda miðla, ljósmyndun, vídeó og rannsóknarverkefni, þar sem hann kannar mörk skynjunar og túlkunar á veruleikanum. Í verkum hans birtist viðleitni til að miðla óséðum víddum tilverunnar, þar sem efnisheimurinn og hið andlega kallast á. Hann hefur til að mynda unnið með hugtök um skynjun og mismunandi túlkanir á veruleikanum í verkum sem byggja á patafýsík – eða ímynduðum vísindum – þar sem hugmyndafræðin brýtur hefðbundnar vísindalegar reglur og lögmál. Þá er hljóðlát og næm athugun á sjálfu viðfangsefninu einkennandi fyrir verk hans en hann nálgast efniviðinn sem áhorfandi, vinnur úr honum og miðlar af fínlegri tilfinningu.

Mat dómnefndar er að í verkum Vikrams Pradhan verði til eftirtektarverður snertiflötur þar sem hugmyndafræði vísindanna mætir hinu óáþreifanlega. Hann fléttar mannlega þætti inn í listsköpun sína og vekur þannig áleitnar spurningar um skynjun einstaklingsins og mannlega tilvist. Verk hans einkennast af tilraunakenndri nálgun í kvik- og ljósmyndun, þar sem hann beitir persónulegri hugmyndafræði með sterkri listrænni sýn.

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Austurstræti 5