World Weather Network: Reglulegar veðurlýsingar Einars Fals

05.08.2022
World Weather Network: Einar Falur's Daily Weather Reports

Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar hefur síðan í vor verið í liði með 27 öðrum lista- og menningarstofnunum víðsvegar um heiminn sem mynda saman World Weather Network, Veðurnet heimsins, hóp „veðurstöðva“ sem staðsettar eru í höfum, eyðimörkum, fjöllum, landbúnaðarhéruðum, regnskógum, veðurathugunarstöðum, vitum og borgum. Síðan á sumarsólstöðum hefur myndlistarfólk og rithöfundar sent frá sér „veðurfréttir“ í formi hugleiðinga, sagna, mynda og þankabrota um veðurfar á heimaslóðum þeirra og okkar sameiginlega loftslag, sem saman munu svo skapa heilan klasa radda og skoðana á nýjum, alþjóðlegum vettvangi.

Einar Falur Ingólfsson er þátttakandi Kynningarmiðstöðvar í verkefninu og sem gestalistamaður í Vatnasafni í Stykkishólmi síðan í maí hefur hann meðal annars skrásett myndræna veðurdagbók og mun halda því áfram í heilt ár.  Dagbókina birtir Einar Falur fyrst vikulega á Instagram, @DailyWeatherReports. Hann skrásetur þar veðrið í hádeginu dag hvern með ljósmynd og opinberri veðurskráning, auk þess að kallast á við veðurlýsingar Árna Thorlacíusar í Stykkishólmi 170 árum fyrr.

Á Instagram birtir Einar Falur jafnframt fleiri veðurtengd verk sem hann vinnur að sem og stutt viðtöl við fólk sem lýsir veðrinu og hugmyndum sínum um veður. Samantek verka hans birtast síðan reglulega á World Weather Network. Þar birtast veðurfréttir frá rithöfundum og listafólki frá löndunum 28 og er opnað á nýjar leiðir til að fylgjast með, hlusta á og lifa með veðrinu. Loftslagsvísindafólk, umhverfisverndarsinnar og samfélög á hverjum stað munu líka taka þátt í víðfeðmri dagskrá sérstakra viðburða sem haldnir verða bæði í raunheimum og á netinu. Á meðan verkefnið stendur yfir mun London Review of Books kalla eftir sérstökum pistlum frá skáldum á mörgum þeirra staða sem World Weather Network nær til.

www.worldweathernetwork.org

www.instagram.com/dailyweatherreports/

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Hrafnhildur Arnardóttir, Shoplifter, chromo
Dozie, Precious
Perpetual Motion
Islensku myndlistarverdlaunin 2023
Um okkur