Heiðursviðurkenning 2025: Erró
Heiðursviðurkenningu myndlistarráðs hlýtur Erró, öðru nafni Guðmundur Guðmundsson, fæddur í Ólafsvík árið 1932.

Heiðursviðurkenningu myndlistarráðs árið 2025 hlýtur Erró, öðru nafni Guðmundur Guðmundsson, fæddur í Ólafsvík árið 1932. Erró er í fremstu röð myndlistarmanna sem Ísland hefur átt og hlýtur viðurkenningu fyrir höfundarverk sitt á ferli sem spannar rúmlega sex áratugi og er einstakt í íslensku og alþjóðlegu samhengi. Verk Errós eru þekkt fyrir myndauðgi og honum hefur verið lýst sem rándýri og „gráðugum neytanda myndefnis“ sem vísar til þeirrar vinnuaðferðar hans að nota fundnar myndir af öllu tagi frá ýmsum menningarheimum sem hann safnar, flokkar og endurnýtir í uppröðun án stigveldis. Erró hefur einstakt auga fyrir samsetningum, en hafnar hugmyndinni um listamanninn sem snilling og frumskapanda. Upprunaleg róttækni hans felst í viljanum til að taka myndlistina niður af stalli hálistarinnar með notkun á alþýðlegu myndmáli. Hann var ungur maður sinnar samtíðar og hefur haldið áfram að endurnýja sig allt til þessa dags.
Þegar Erró var að hefja feril sinn sem ungur listamaður í Reykjavík í upphafi kalda stríðsins var abstraktmálverkið ráðandi tjáningarform, en það virðist aldrei hafa höfðað til hans. Hann fór eigin leiðir, málaði fígúrur þegar aðrir máluðu abstrakt og gerði góðlátlegt gys að abstraktmálverkinu í röð verka frá árinu 1957 sem hann kallaði Sur-Atom og voru sýnd í Listamannaskálanum. Erró útskrifaðist frá teiknikennaradeild Handíða- og myndlistarskóla Íslands í Reykjavík árið 1952 þar sem hann lærði hjá Valgerði Briem, en uppgötvaði fljótt að kennslan átti ekki vel við hann. Hann hélt út í heim, lærði málaralist og veggmyndagerð í Osló, varð fyrir áhrifum frá sýningu á mexíkóskri list í Stokkhólmi, skoðaði verk expressjónistanna á söfnum í Þýskalandi, og hreifst af verkum eftir Bosch og El Greco í Prado-safninu í Madríd. Hann dvaldi um tíma í Flórens og kynnti sér gerð mósaíkverka í Ravenna á Ítalíu en settist að lokum að í París. Þar komst hann í náin kynni við helstu forsprakka súrrealismans og arftaka hans og varð fljótt hluti af hringiðu nýrra strauma í myndlist sem einkenndust af listrænni tilraunamennsku og pólitískri róttækni sem hann tók fullan þátt í. Hann gerði verk um vélvæðingu nútímans, studdi frelsisbaráttu Alsírbúa og sýndi pornógrafísk málverk sem gerð voru upptæk á Ítalíu. Árið 1963 ferðaðist Erró í fyrsta sinn til New York, tók þátt í framúrstefnulegum uppákomum og gjörningum, fékkst við tilraunakvikmyndir og varð fyrir áhrifum frá myndrænni framsetningu neyslumenningarinnar eins og hún birtist í auglýsingum, teiknimyndasögum og blaðaljósmyndum. Erró fékk snemma áhuga á klippimyndum sem hann notaði til að stilla upp andstæðum, en það var mitt í ofgnótt myndefnis og niðursoðins matar sem sú hugmynd fæddist að nota klippimyndirnar sem fyrirmyndir að málverkum. Niðurstaðan varð málverkið Foodscape (Matarvíðátta) frá árinu 1964, sem er eitt hans þekktasta verk. Erró var þarna kominn á sporið með aðferð sem hann átti eftir að þróa áfram og byggja höfundarverk sitt á. Aðferðin felst í samsetningu fundinna mynda sem hann klippir saman áður en þær verða að málverki sem kallar fram nýja skynjun á raunveruleikanum.

Erró: Matarvíðátta, 1985.
Erró hefur sjálfur lýst sér sem myndasmið sem notar hráefni frá öðrum, en alltaf á þann hátt að hægt sé að þekkja fyrirmyndirnar. Á áttunda áratugnum voru verk hans oft með háðslegum pólitískum undirtón, en í þeim mátti einnig finna hin fjölbreytilegustu viðfangsefni um málefni úr sögu og samtíma sem vísa í ýmsar áttir og hægt er að flokka í aðskildar seríur. Verk Errós hafa verið sett í flokk með popplist, súrrealisma og fígúratífa málverkinu en þau sleppa undan slíkum skilgreiningum. Verk Errós eru í sífelldri endurnýjun sem tekur mið af nýju hráefni. Þegar litið er til baka má í eldri verkum Errós og vinnuaðferðum sjá fyrirboða um póstmóderníska endurblöndun og gagnrýni á nýlendustefnu Vesturlanda en einnig birtingarmyndir flæðis myndefnis af öllum toga þar sem allt gerist samtímis alls staðar. Málverk Errós afmá alla tilfinningu fyrir tíma og rúmi en eru á sama tíma spegill samtímans og sögunnar, ekki síst listasögunnar, þar sem verk fortíðarinnar eru dregin fram og sett í nýtt samhengi. Erró hefur á ferli sínum lagt sig fram um að nota myndmál sem allir geta skilið og notað miðla sem allir geta nálgast. Erró hefur þrátt fyrir áratuga búsetu í París viðhaldið sterkum tengslum við Ísland í gegnum safn verka og einkaskjala sem hann ánafnaði Reykjavíkurborg árið 1989. Þá hefur Erró stutt við ungar íslenskar myndlistarkonur í gegnum sjóð sem stofnaður var til minningar um Guðmundu S. Kristinsdóttur, móðursystur hans, árið 1997.