Hvatningarverðlaun 2024: Brák Jónsdóttir

Brák Jónsdóttir (f. 1996) hlaut Hvatningarverðlaunin fyrir sýninguna Möguleg æxlun í Gróðurhúsi Norræna hússins í Reykjavík.

Brák Jónsdóttir (f. 1996) er handhafi Hvatningarverðlauna Íslensku myndlistarverðlaunanna árið 2024 fyrir sýninguna Möguleg æxlun í Gróðurhúsi Norræna hússins í Reykjavík. Brák útskrifaðist með BA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2021. Frá útskrift hefur hún átt frumkvæði að ýmsum myndlistarverkefnum og hefur sýnt töluvert í listasöfnum, listahátíðum og sýningarrýmum jafnt heima og heiman.

Á sýningunni mátti sjá skúlptúra sem unnir voru í náttúruleg jarðefni, trjábörk og ál. Í verkunum og texta sýningarstjóra má skynja húmor en jafnframt vangaveltur af alvarlegri toga um tengsl líkama, sálar og umhverfis. Staðsetning verkanna, í gróðurhúsi Norræna hússins, leikur jafnframt stórt hlutverk í innsetningu Brákar og vísar hún með staðsetningunni á beinan hátt til manngerðra aðstæðna sem skapa kjöraðstæður til sáningar, næringar, aðhlynningar og vaxtar. Í texta sýningarstjórans, Oddu Júlíu Snorradóttur, um sýninguna er vísað til þess að eitthvað furðulegt eigi sér hér stað, einhvers konar verðandi ástand nokkurra vera sem ekki er ljóst hvernig muni líta út við fullvöxt. Í þeirri óvissu og millibilsástandi felast möguleikar skúlptúra Brákar og æ skýrara myndmál listsköpunar hennar. Í þeim mætir verðandin hinu forna en tengiefnið er gjarnan líkamleg nálgun Brákar við skúlptúra sína, þar sem gjörningar hennar eiga sér gjarnan stað í snertingu hennar á – og nokkurs konar dansi við – skúlptúra sína.

Brák Jónsdóttir. Possible Oddkon 2023

Brák Jónsdóttir, Möguleg æxlun. Gróðurhús Norræna hússins í Reykjavík. Ljósmynd: Pétur Thomsen

brak-jonsdottir-beinbera-ljosmynd-petur-thomsen

Brák Jónsdóttir, Beinbera, 2023. Ljósmynd: Pétur Thomsen

brak-jonsdottir-Turritopsis 2.0-ljosmynd-petur-thomsen

Brák Jónsdóttir, Turritopsis 2.0, 2023. Ljósmynd: Pétur Thomsen

Það er mat dómnefndar að skúlptúrar Brákar og gjörningatengsl hennar við marga þeirra slái áhugaverðan tón í myndlistinni og að í þeim kjarnist margar af mikilvægari spurningum samtímans um tengsl manns og náttúru, vaxtarferli og hlut ímyndunaraflsins í sköpun veruleikans á jaðri hins mögulega og ómögulega. Verkin eru forvitnileg, þau kveikja á ýmsum af þeim stöðvum í líkamshylkinu sem framkalla bæði erfið og ánægjuleg tilfinningaviðbrögð. Verkin endurspegla jafnframt á skýran hátt skarpa hugmyndafræðilega sýn Brákar, sem hefur snemma á listferli sínum skapað sér forvitnilegan brunn möguleika sem áhugavert verður að fylgjast með henni vinna úr.

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Austurstræti 5