Hvatningarverðlaun 2025: Helena Margrét Jónsdóttir

Helena Margrét Jónsdóttir (f. 1996) hlaut Hvatningarverðlaun Íslensku myndlistarverðlaunanna 2025 en hún hefur markað sér sérstöðu meðal ungra listamanna með málverkum af hversdagslegum fyrirbærum sem hún setur í óhefðbundið samhengi.

IMV 2025 Helena Margrét Jónsdóttir sunday&white

Helena Margrét Jónsdóttir (f. 1996) hlaut Hvatningarverðlaun Íslensku myndlistarverðlaunanna 2025 en hún hefur markað sér sérstöðu meðal ungra listamanna með málverkum af hversdagslegum fyrirbærum sem hún setur í óhefðbundið samhengi. Helena Margrét útskrifaðist með BA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2019 eftir að hafa numið myndlist við Konunglega listaháskólann í Haag, Hollandi, og Myndlistaskólann í Reykjavík. 

Helena Margrét hefur verið virk á sýningarvettvangi hér á landi og erlendis frá því að hún lauk námi. Hún hélt einkasýningu í D-sal Hafnarhúss, Listasafni Reykjavíkur árið 2023, Alveg eins og alvöru, þar sem myndefnið var eftirlíkingar af hlutum. Hún hélt einnig einkasýninguna Þú getur ekki fest þig í þínum eigin vef í Ásmundarsal árið 2022, þar sem kóngulær í ýmsum stærðum og við ólíkar aðstæður fönguðu athygli áhorfandans. Hún hefur einnig vakið verðskuldaða athygli víða erlendis, meðal annars í Mílanó, London og Peking.

Helena Margrét Jónsdóttir: Hrímuð krónublöð, 2024.

Helena Margrét Jónsdóttir. Ljósm: Vigfús Birgisson.

Helena Margrét Jónsdóttir: Alveg eins og alvöru í Listasafn Reykjavíkur – Hafnarhús, 2023. Ljósmynd: Vigfús Birgisson

Helena Margrét Jónsdóttir. Varðveittur blomi 2024

Helena Margrét Jónsdóttir: Varðveittur blómi, 2024

Í verkum sínum beitir hún eiginleikum málverksins til að líkja eftir hversdagslegum og ímynduðum veruleika af mikilli nákvæmni. Viðfangsefni hennar eru oft fyrirbæri sem hún finnur í umhverfinu eða hinum stafræna heimi og teflir hún þeim saman á óhefðbundinn og oft afbakaðan hátt. Smávægilegar beyglur á dós eða kónguló í sleikibrjóstsykri nær að fanga andartakið og hægja á tíma og rúmi. Hún vísar til myndmáls skjásins þar sem skór, snakk eða hvítvínsglas er málað á einlitan víddarlausan bakgrunn, þar sem sjást hvergi skuggar né litbrigði. Hún kallar fram hughrif um það sem telst girnilegt og tært en á sama tíma óþægilegt og skrítið.

Mat dómnefndar er að málverk Helenu Margrétar Jónsdóttur séu forvitnileg og slái áhugaverðan tón í myndlistinni. Verk hennar eru vönduð og kyrrlát en á sama tíma með nýstárlegan undirtón sem virkjar ímyndunaraflið og færir áhorfandann inn í draumkenndan hugarheim. Helena Margrét sviptir hulunni af hefðbundinni birtingarmynd hversdagslegra hluta í málverki á afar sannfærandi hátt.

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Austurstræti 5