Íslenski skálinn 2007
Steingrímur Eyfjörð: Lóan er komin
Sýningarstjóri: Hanna Styrmisdóttir

Steingrímur Eyfjörð, Lóan er komin
Feneyjatvíæringurinn 2007
Um 30.000 gestir sáu innsetningu Steingríms Eyfjörð (f.1954), Lóan er komin, sem var framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2007. Sýning Steingríms í Feneyjum var sú fyrsta frá Íslandi sem sett var upp utan annars aðal sýningarsvæðisins sem ber heitið Giardini.
Ferill Steingríms spannar nú um hálfa öld. Hann nam mynndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árunum 1971-1975 og árið 1978. Eftir námsdvöl í Edinborg og síðan Helsinki hélt hann til Hollands þar sem hann stundaði framhaldsnám árin 1980-1983 við Jan Van Eyck listaháskólann í Maastricht. Steingrímur var einn af stofnendum Gallerís Suðurgötu 7 og tók virkan þátt í þeirri gerjun sem átti sér stað í Reykjavík undir lok áttunda áratugar síðustu aldar, þegar hugmyndalist fór að ná fótfestu á Íslandi. Steingrímur á að baki marga tugi einkasýninga og samsýninga bæði á Íslandi og á erlendri grundu, til dæmis í Den Haag Gemente Museum, The Royal College of Art in London, Mücsarnok í Budapest, Centre International d’Art Contemporain at Carros, the Meilahti Art Museum in Helsinki og Henie Onstad Kunstcenter in Oslo. Hann hefur á sýningum sínum rannsakað ítarlega ýmsar aðferðir og nálganir samtímalistarinnar og um leið fengist við áleitin viðfangsefni úr íslenskum veruleika og sögu. Árið 2006 hlaut hann Carnegie Art Award og árið 2002 hlaut hann menningarverðlaun DV.
Steingrímur hefur í verkum sínum tekist á við fjölbreytt viðfangsefni úr menningu samtímans og íslenskri þjóðmenningu. Hann leitar víða fanga og hefur þróað með sér sérstaka framsetningu sem sameinar teikningar, texta, ljósmyndir, skúlptúr og jafnvel myndbönd í ítarlegri úrvinnslu á viðfangsefninu hverju sinni. Notkun Steingríms á texta víar til myndrænnar textanotkunar Flúxuslistamanna en einnig hefur hann notað beinar tilvitnanir í bókmenntaarfinn. Fjöldi verka hans byggir á samstarfi við aðra listamenn. Steingrímur hefur beint sjónum sínum að samhengi fortíðar og nútíðar, kafað í menningararfleifð Íslendinga og sýn samtímans á hana með margræðum og oft gagnrýnum vísunum.
Í Feneyjum 2007 tókst Steingrímur á við sjálfsmyndir þjóða og dró fram ýmsar hliðar á því hvað við teljum felast í því að vera Íslendingur. Á sýningunni fékkst Steingrímur við ýmis minni um íslenskt þjóðerni og sögu; náttúruna, álfa, tröll og bókmenntir. Lóan, sem sýningin er kennd við, er þar eitt dæmi, vorboðinn sem við bíðum eftir á hverju ári. Á sýningunni mátti sjá bronsmynd af lóunni og ýmis gögn, afrit af fréttum blaða af fyrstu lóunni og margháttaðar aðrar tilvísanir. Eitt lykilverk á sýningunni var kró eða stía fyrir kind, smíðuð eftir nákvæmum fyrirmælum álfa sem Steingrímur setti sig í samband við gegnum skyggna konu og keypti af kind fyrir brýni, eins og fordæmi eru fyrir í þjóðsögum. Þessu fylgdi ýmislegt annað efni tengt upplifun Íslendinga af álfum. Úr myndbandsverki hljómaði álfkonukvæði um salinn, sungið af Ólöfu Arnalds. Í salnum var margt að skoða og má sjá í gestabók að áhorfendum líkaði vel.
Gagnrýnendur og fjölmiðlar tóku sýningunni vel og til dæmis taldi Laura Cummings, gagnrýnandi Observer í Bretlandi, hana vera eitt skemmtilegasta framlagið á Tvíærningnum þetta skiptið og kallaði hana „sprenghlægilega ævintýraferð sem ýkir hefðir landsins.“ Gagnrýnandi Kunstzeitung í Þýskalandi sagði Steingrím koma á óvart „með skýrri og yfirgripsmikilli framsetningu og nákvæmri reglu ... Þessi nákvæmni styður hina hægfara úrvinnslu hugsana og efnis sem verk hans og textar kalla fram.“ Þá segir í Kunstforum International: „[Þetta er] stór einkasýning og alls staðar spretta fram í henni frásagnir svo hún verður ekki gripin í einu vetfangi. Hún er margræð og vísar í ýmsar áttir og víkur sér undan öllum formrænum og hugmyndafræðilegum tilraunum til greiningar og túlkunar.“ Í kjölfar sýningarinnar í Feneyjum var Steingrími boðinn samningur við virt gallerí í New York, Max Protetch, en starfsemi þess lauk tveimur árum síðar.
Í viðtali við Einar Fal Ingólfsson í Morgunblaðinu, sem tekið var eftir að sýningin hafði verið opnuð í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi 2008, sagði Steingrímur: „Lóan er táknmynd þessarar sterku vonartilfinningar íslensku þjóðarinnar, biðarinnar eftir hækkandi sól og hlýrri dögum. Biðin eftir lóunni hefur öðlast goðsögulega vídd me þjóðinni. Fólk verður svo glatt þegar það fréttir að lóan sé komin, það er alltaf eins og menn hafi haldið að hún kæmi alls ekki.“
Gefin var út vegleg sýningarskrá þar sem í var að finna myndir og upplýsingar um sýninguna auk alls konar ítarefnis og umfjöllunar. Þá lét Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar (nú Myndlistarmiðstöð) prenta tímaritið List, sem annars var aðeins gefið út á netinu. Þar var að finna greinar um Steingrím Eyfjörð og sýningu hans og ýmsar aðrar greinar og viðtöl um samtímamyndlist á Íslandi og þátttöku Íslands í Tvíæringnum frá upphafi.