Íslenski myndlistamaðurinn Hrafnhildur Arnardóttir / Shoplifter hefur tekið yfir vöruhús á Giudecca-eyju í Feneyjum og þakið það yfirþyrmandi magni af einkennisefnivið sínum; gervihári. Litir, hljóð og aðlaðandi áferð leiða gesti í gegnum þrjú ólík rými sem umlykja þá í myndrænum og hljóðrænum samruna.

Þegar stigið er inn í innsetningu Hrafnhildar, Chromo Sapiens, mæta þér drungaleg hellakynni, Primal Opus, myrkvuð göng í litasamsetningum eldhræringa sem virkjuð eru af neðanjarðar hljóðheimi rammíslensku málmsveitarinnar HAM. Hellaköfun þessi leiðir þig áfram inn í Astral Glorialitríka hvelfingu þar sem skærlitaðar hárbreiður bylgjast um og teygja sig í ofgnótt sinni umhverfis sýningargesti. Litadýrð, áferð og hljóðmynd örva skilningarvitin með æpandi litum bifandi hárfaðms sem mýkist við lendingu í himnesku hreiðri Opium Natura. Þar flökta dúnmjúkir litatónar sem umvefja gesti friðsæld og sakleysi sjónrænnar alsælu.

Hljómsveitin HAM hefur samið tónverk fyrir Chromo Sapiens sem ómar um þann loðna ham sem Hrafnhildur hefur þakið salarkynni verksins með. Djúpar drunur og dynjandi niður tónheims HAMverja hreyfa við líkamlegum skynfærum með nötrandi hljóðbylgjum sem hnoða og þenja hverja taug. HAM hefur einnig samið einkennislag fyrir sýninguna en í textanum segir einmitt: „Þú átt ekki séns og sál þín er lens nema þú opnir hjarta þitt fyrir Chromo Sapiens„.

Listsköpun Hrafnhildar Arnardóttur / Shoplifter liggur á mörkum myndlistar, gjörninga og tísku og á sér rætur í áhuga hennar á dægurmenningu og fjöldaframleiðslu. Verk hennar eru full af húmor sem varpa ljósi á fáránleika samtímans af áráttu og tekst Hrafnhildi með undraverðum hætti að gjörbreyta umdeildu gerviefni í þrívíða yfirnáttúru.

Birta Guðjónsdóttir sýningarstjóri hefur áður unnið að þremur verkefnum Hrafnhildar úr innsetningaröð hennar er kallast Taugafold (E. Nervescape); Nervescape II í Havremagasinet Listamiðstöðinni í Boden, Svíþjóð (2013), Nervescape IV á Momentum 8 – Norræna tvíæringnum í samtímamyndlist í Moss, Noregi (2015) og Nervescape VII í Listasafni Íslands, Reykjavík (2017).“

Í tilefni Chromo Sapiens hefur verið gefin út óhefðbundin sýningarskrá í formi fjölfeldis í takmörkuðu upplagi og samanstendur af 12” LP vínylplötu og prentútgáfu, sem verður seld í íslenska skálanum. Vínylplatan inniheldur þrjú hljóðverk hljómsveitarinnar HAM og lofsöng þeirra tileinkaðan Chromo Sapiens ásamt upptöku af samtali Hrafnhildar Arnardóttur / Shoplifter við Alönnu Heiss, stofnanda Clocktower Gallery og P.S.1 í New York. Prentútgáfan inniheldur texta eftir Birtu Guðjónsdóttur sýningarstjóra, Hilton Als, Jen DeNike, Oddnýju Eir Ævarsdóttur og Timothy Morton.

Hrafnhildur Arnardóttir / Shoplifter (f. 1969) er einn af helstu samtímalistamönnum Íslands og er búsett í New York í Bandaríkjunum. Hrafnhildur hefur vakið mikla athygli fyrir verk sín úr náttúrulegu hári og gervihári sem hún notar í gerð skúlptúra, veggverka og innsetninga sem koma inná þemu eins og hégóma, tísku og samtímagoðsagnir. Meðal nýjustu verka Hrafnhildar eru einkasýningar í Kiasma – samtímalistasafni Finnlands (2019); Listasafni Íslands (2017); Walt Disney Concert Hall í Los Angeles (2017); og Qagoma, nútímalistasafni Queensland í Ástralíu (2016). Meðal annarra mikilvægra sýningaverkefna hennar má nefna stóra glugga-innsetningu með listahópnum assume vivid astro focus (avaf) fyrir MoMA nútímalistasafnið í New York (2008). Árið 2011 hlaut Hrafnhildur Norrænu textílverðlaunin og heiðursorðu Prins Eugen frá sænsku krúnunni fyrir listrænt framlag sitt til norrænnar textílhefðar.

Birta Guðjónsdóttir (f. 1977) er íslenskur sýningarstjóri, búsett í Reykjavík og Berlín. Frá 2014-2018 starfaði hún sem deildarstjóri sýningardeildar Listasafns Íslands. Árið 2015 var hún sýningarstjóri Momentum 8 – Norræna tvíæringsins í samtímamyndlist í Moss, Noregi og árið 2013 var hún gesta sýningarstjóri Norræna myndlistarþríæringsins í Listasafninu í Eskilstuna í Svíþjóð. Birta hefur sem sjálfstætt starfandi sýningarstjóri stýrt yfir 20 sýningum í borgum eins og Basel, Berlín, Boden, Kaupmannahöfn, Osló, Melbourne, New York og St. Pétursborg, auk margra listasafna og listrýma á Íslandi. Hún starfaði sem safnstjóri Nýlistasafnsins (2009-2011), listrænn stjórnandi sýningarrýmisins 101 Projects (2008-2009) og sýningarstjóri í SAFNi, samtímalistasafni (2005-2008), í Reykjavík.

HAM hefur skapað sér einstakan sess á Íslandi sem sérvitur þungamálms hljómsveit með grafalvarlegan húmor. Áhrif þeirra á íslenska tónlistarsögu og yngri kynslóðir tónlistarmanna hafa verið afgerandi frá því HAM lét til sín taka í tónleikahaldi og plötuútgáfu en sveitin hefur starfað með mislöngum hléum frá 1988. HAM gaf út sína níundu plötu Söngvar um Helvíti Mannanna árið 2017 við góðan orðstír og hlaut m.a. menningarverðlaun DV fyrir. HAM eru: S. Björn Blöndal – bassi, Sigurjón Kjartansson – gítar/rödd, Arnar Geir Ómarsson – trommur/ásláttur, Óttarr Proppé – rödd, Flosi Þorgeirsson – gítarar. Fyrir hljóðverk innsetningarinnar Chromo Sapiens vann hljómsveitin með Skúla Sverrissyni en Skúli vann m.a. lengi með Jóhanni Jóhannssyni tónskáldi, sem var áður meðlimur hljómsveitarinnar HAM.

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Austurstræti 5