Myndlistarmaður ársins 2019: Eygló Harðardóttir

Eygló Harðardóttir var valin Myndlistarmaður ársins fyrir sýninguna Annað rými, Nýlistasafninu.
Í umsögn dómnefndar kemur fram:
Eygló Harðardóttir (f. 1964) hlýtur Myndlistarverðlaun ársins 2019 fyrir sýninguna Annað rými í Nýlistasafninu sem bar titil sinn með rentu. Með verkum sem í senn voru fínleg og stórkarlaleg, unnin í viðkvæman efnivið, opnaði listakonan fyrir gáttir sem áhorfandinn gat smeygt sér inn fyrir og aukið skynjun sína og næmi á kostnað hinnar vanabundnu rökhyggju.
Í tæpa þrjá áratugi hefur listsköpun Eyglóar fléttast saman við störf hennar sem listkennara annars vegar, og landvarðar á hálendi Íslands hins vegar. Skilningur hennar og virðing fyrir efni og eðli þess, hefur kallast á við skoðun á viðkvæmustu þáttum í lífríki og umhverfi Íslands, og hvort tveggja undirbyggt einstakan næmleika í listkennslu þar sem hún leiðbeinir ungu fólki á mótunarárum þess.
Það er mat dómnefndar að öll helstu einkenni listakonunnar hafi komið fram á sýningu Eyglóar í Nýlistasafninu: ástríða fyrir myndlist, óheft sköpun, djúpstæð forvitni um virkni þess óræða, miðlun og kennsla sem felst í því trausti sem hún sýndi áhorfendum til þátttöku í sköpuninni.

Annað rými, Nýlistasafnið. Ljósmynd: Helga Óskarsdóttir.

Annað rými, Nýlistasafnið. Ljósmynd: Helga Óskarsdóttir.