Myndlistarmaður ársins 2023: Hrafnkell Sigurðsson
Hrafnkell Sigurðsson hlaut Íslensku myndlistarverðlaunin fyrir sýninguna Auglýsingahlé í Billboard 2022.
Í umsögn dómnefndar kemur fram:
Árið 2022 sáu allir Reykvíkingar þegar óræðar hreyfimyndir birtust á 450 skjáum úti um alla borg, í strætóskýlum og á stórum auglýsingaskiltum. Á skjáunum birtust síbreytilegar þokur sem mynduðu stundum form og mynstur sem leystust þó jafnóðum upp aftur.
Þetta var ekki bilun heldur verkið Upplausn eftir Hrafnkel Sigurðsson, unnið upp úr stórum, samsettum ljósmyndaverkum frá 2018 þar sem ótal örsmáir fletir raðast saman í þokukennda mósaíkmynd. Hver flötur er stækkun úr ljósmynd frá Hubble-geimsjónaukanum sem sýnir vetrarbrautir í himingeimnum eins og þær voru fyrir milljónum ára þegar ljósgeislarnir sem sjónaukinn nemur lögðu af stað. Hrafnkell valdi brot úr myndinni á milli vetrarbrautanna þar sem ekkert virtist sjást. Við stækkun má þó greina þar litbrigði og línur, og Hrafnkell raðaði síðan brotunum saman. Úr því sem sýnir ekkert varð allt í einu mynd.
Verkin afhjúpa ýmislegt um skynjun okkar og skilning. Ef við skoðum eitthvað sem er langt í burtu erum við í raun að gægjast aftur í tímann: það sem er milljón ljósár í burtu birtist okkur núna eins og það var fyrir milljón árum. Ef við skoðum jörðina úr geimfari sjáum við bara stóru drættina, höf og landmassa, en ef við skoðum efnisheiminn of grannt leysist hann upp, eins og Hrafnkell sýndi okkur í verki frá 2014 þar sem hann beindi rafeindasmásjá að steinsteypu sem reynist þá alls ekki eins fast efni og við héldum.
Í amstri dagsins verðum við eins og Gullbrá í sögunni, við sinnum ekki því sem er of langt í burtu eða fyrir of löngu síðan og okkur gagnast ekki heldur að rýna of grannt í efnið. Við viljum hafa allt mátulegt: skýrar línur, hér og nú. Verk Hrafnkels á auglýsingaskiltunum verða áminning um þrönga sýn okkar á veruleikann.
Það er mat dómnefndar að með því að nýta auglýsingaskiltin hafa Hrafnkell og fleiri opnað nýja leið til að miðla myndlist en Hrafnkell sýni líka að skiltin eru ekki bara eins og fletir til að fylla út í, heldur er hægt að nýta þau sem miðil með öllu sem tæknin býður upp á og koma skilaboðunum úr sýningarsalnum út í hversdagslegan veruleika okkar þar sem við þurfum mest á þeim að halda.