Myndlistarmaður ársins 2025: Pétur Thomsen

Pétur Thomsen (f.1973) hlaut verðlaunin myndlistarmaður ársins 2025 fyrir sýninguna Landnám í Hafnarborg, menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar.

IMV 2025 Petur Thomsen

Pétur Thomsen (f. 1973) hlaut verðlaunin myndlistarmaður ársins árið 2025 fyrir sýninguna Landnám í Hafnarborg, menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar. Sýningin stóð frá 9. nóvember 2024 til 16. febrúar 2025. 

Samband mannfólks við náttúruna hefur verið megininntak í ljósmyndaverkum hans þar sem finna má vitnisburð um ágang mannsins á umhverfi sitt. Pétur lauk MFA-prófi í ljósmyndun frá École nationale supérieure de la photographie í Arles, Frakklandi, árið 2004. Hann hefur hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín og verið áberandi þátttakandi í sýningarhaldi og fjölbreyttum verkefnum hér á landi og erlendis.

Pétur Thomsen, Landnám, 2024. Ljósmynd Pétur Thomsen.

Pétur Thomsen: Landnám_2752, 2024. Ljósmynd: Pétur Thomsen.

Pétur Thomsen, Landnám, 2024. Ljósmynd Pétur Thomsen.

Pétur Thomsen: Landnám í Hafnarborg. Ljósmynd: Pétur Thomsen.

Pétur Thomsen: Landnám_1812, 2024. Ljósmynd: Pétur Thomsen.

Sýningin Landnám er langtíma-ljósmyndaverk þar sem Pétur tekur fyrir sambýli manns og náttúru frá sjónarhóli ójafnvægis og áverka á jörðinni eftir umgang og framkvæmdir. Í verkunum má sjá rask á náttúrunni, líkt og sár eða rof í jarðvegi og merki um skeytingarleysi í umgengni mannfólks, sem listamaðurinn staldrar við og varpar ljósi á. Í aðalsal Hafnarborgar voru sýndar innrammaðar ljósmyndir án glers sem minntu á málverk á striga. Sumar voru í yfirstærð en einnig mátti finna verk sem voru samsett úr mörgum ljósmyndum og mynduðu eina heild. 

Framsetningin kallar á nærveru áhorfandans og íhugun með listamanninum um þann boðskap sem hann vill færa fram: áminningu um áhrif mannsins á umhverfi sitt sem hefur leitt af sér hlýnun jarðar og náttúruvá. Sýningin í heild orkar sem eins konar ákall, svo óhjákvæmilegt er að spegla áhrif eigin tilvistar og tilveru á lifandi heim.

Mat dómnefndar er að Landnám sé einstaklega vel útfærð sýning, frá framkvæmd til framsetningar verkanna og að í henni megi skynja vitund um náttúruna og umhyggju fyrir henni. Með djúpri þekkingu á ljósmyndamiðlinum fangar Pétur Thomsen í verkum sínum inntak og hugmyndafræði sem á sýningunni umhverfist í samtal við áhorfandann á áhrifaríkan hátt.

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Austurstræti 5