ECHO LIMA
Anna Júlía Friðbjörnsdóttir
-2000x2077.jpg&w=2048&q=80)
Boðskipti eru grundvallaratriði í allri mannlegri tilvist. Mannkynið hefur í gegnum aldirnar búið sér til ótal kerfi til að greina, flokka, skilja og rata um heiminn. Oft ber lestur okkar árangur en stundum kann mislestur að leiða okkur í ógöngur. Tungumál og tákn eru augljós dæmi boðskipta en við höfum líka komið okkur upp alþjóðlegu samskiptakerfi (International Code of Signals) sem staðlað var á fyrri hluta tuttugustu aldar. Í kerfinu, sem Alþjóða siglingastofnunin hefur umsjón með, eru ákvörðuð fjölmörg kallmerki hugsuð til að einfalda boðskipti, ekki síst er vá steðjar að.
Heiti þessarar sýningar, ECHO LIMA, er merkið „EL“ úr kerfinu sem stendur fyrir beiðnina Repeat the distress position. Hér eru boðin stöfuð út í Morse-kóða á veggi sýningarsalarins með 95 ættum koparplötum. Hver og ein þeirra er hluti af mynd sem aldrei birtist áhorfandanum í heild sinni. Þar er annað falið lag upplýsinga, mynd sem innblásin er af grískum leirkerum af þremur gyðjum sem allar eru sigurgyðjan Nike. Samkvæmt goðsögninni tekur Nike að sér að krýna og fagna sigurvegurum jafnt í leik og stríði og gegnir einnig hlutverki í fórnarathöfunum.
Tvívíð myndbrotin sem birtast okkur í kóðanum á veggnum kallast síðan á við þrívíðan myndheim sem rís upp af gólfi salarins. Þar er annað órætt kerfi sem virðist ríma við boðskiptin á veggjum. Hér er kominn leikvöllurinn, einhver óþekktur leikur, löngu gleymd skák eða orrusta sem kann að hafa verið yfirgefin eða bíður nýrra leikmanna, ef einhver veit þá reglurnar. Eða eru það kannski gyðjurnar einar sem kunna leikinn og framgang hans?
Hér mætast fínlegt handverk teikningarinnar sem dreifist um veggina og karllægur heimur herkænsku og átaka. Á milli tvívíða hluta verksins og þess þrívíða myndast síðan núningur og einhver brotakenndur flutningur virðist hafa átt sér stað. Í rýminu finnum við fyrir eðlislægum vilja okkar til að skilja heiminn og lögmál hans. Þetta er leikur þar sem engin leið er að átta sig á reglum, framgangi eða hver stendur uppi sem sigurvegari og hver ekki. Eftir stendur djúpstæð þrá eftir því að koma púslinu saman.
Sérstakar þakkir fá Artlab Contemporary Print Studios, University of Central Lancashire, UK.
Listamaður: Anna Júlía Friðbjörnsdóttir