Another Þrykk Up My Sleeve
Einar Viðar Guðmundsson Thoroddsen
„Ég hef lengi safnað myndum af formum sem á vegi mínum verða, formum sem ég svo raða saman og vinn með á ýmsan hátt. Það er hins vegar ekki langt síðan að ég uppgötvaði að til er kenning sem nær yfir þessa hluti sem kallast GRAFÍSKIR VIÐBURÐIR (Graphic Events: A Realist Account of Graphic Design). Þetta er hugtak yfir hönnun sem gerist fyrir slysni, þróast með tímanum eða skondnar samsetningar hluta sem eiga ekki beinlínis samleið.
Límmiði á ljósastaur sem tilraun hefur verið gerð að kroppa í burtu, rifið plakat, veðruð auglýsing, móðublettur á glugga, rispa á gámi eða krot á vegg. Þessir svokölluðu viðburðir skilja eftir sig slóð af fallegum, óvæntum formum sem eiga það til að hverfa inn í hversdagsleikann – eitthvað sem við sjáum, en veltum kannski ekki fyrir okkur.
Fyrir nokkrum árum byrjaði ég að safna myndum af þessum viðburðum og úr varð myndabók. Formin í safninu enda svo oft í prentverkum á einn eða annan hátt. Nú eru þau orðin að seríu á sýningunni „Another Þrykk Up My Sleeve”. Formunum er raðað saman á margvíslegan máta – þau ýmist dansa saman eða flækjast fyrir hvert öðru."
Einar Viðar Guðmundsson Thoroddsen er Ísfirðingur búsettur í Haag í Hollandi þar sem hann vinnur við grafíska hönnun, myndskreytingar og prentverk. Verk hans eru margs konar, bókahönnun, prentverk (aðallega RISO og skjáþrykk), leturhönnun, myndskreytingar, og stöku auðkenni og lógó. Á námsárunum við Konunglegu listaakademíuna í Haag - KABK – var áberandi leit hans að jafnvægi milli húmors og alvöru, sem greinilega kemur fram í list hans, hönnun og daglegu lífi.
Listamaður: Einar Viðar Guðmundsson Thoroddsen