Borgin
Brynjar Gunnarsson
Borgin fjallar um óljós mörk þess tímabundna og þess varanlega. Veröldinni er snúið á hvolf og nýr veruleiki myndaður þar sem framkvæmdir í borgum Evrópu eru í brennidepli. Framkvæmdir og stillansar eru yfirleitt tímabundið ástand, en einungis ef við horfum þröngt á tímann. Borgin er sífellt að þróast, stillansinn færist úr stað og breytingarnar stoppa aldrei. Öll hús byrja með stillansa og öll fá þau á einhverjum tímapunkti stillansa aftur. Borgarlandslagið er í stöðugri þróun.Allar myndirnar eru teknar með multiple exposure tækni þar sem tvær eða fleiri myndir eru teknar á sama ramma. Allt gert í myndavélinni og Photoshop víðs fjarri. Í eðli sínu grípur ljósmyndin augnablikið, en með því að setja röð mynda saman í einn ramma missir hún þennan eiginleika sinn og úr verður nýr tímalaus veruleiki. Verkefnið er myndað í 7 borgum í 5 löndum. Myndefnið er sett fram á kaótískan hátt svo borgin og byggingarnar virðast óstöðugar. Myndirnar leika sér að formum og línum, endurtekningar frá sama sjónarhorni. Þær birtast áhorfandanum sem nýr veruleiki, óhlutbundið borgarlandslag og arkitektúr.
Listamaður: Brynjar Gunnarsson