dáðir, draumar og efasemdir
Anna Hrund Másdóttir
Sýningarboðið barst á hárréttum tíma. Ég var á leiðinni á vinnustofuna, nánast við það að pakka niður, taka mér smá pásu frá myndlistinni, í það minnsta breyta sambandi mínu við hana. En þá fékk ég símhringingu og boðið barst frá Nýlistasafninu. Ég hafði eitt og hálft ár til að vinna sýninguna. Á þessum tíma var ég mikið að sinna heimilinu, með þrjú lítil börn, tvö í skóla, að bíða eftir leikskólaplássi fyrir það þriðja og að kenna. Hugmyndin að sýningunni mallaði lengi, en þarna í upphafi upplifði ég sjálfa mig fasta, innilokaða vegna vinnu og heimilishalds, með mikið áreiti í kringum mig. Ég notaði dagdrauma til að komast í gegnum þetta tímabil, ég geri mikið af því að dagdreyma og það ástand getur tekið mig á ólíka staði — það getur verið landslag, tilfinning, áferð, litur eða eitthvað órætt og óskýrt. Ég læt hugann reika, fer í djúpt ferðalag á meðan ég sinni heimilisstörfum og bara daglegu lífi. En dagdraumarnir þarna árið 2022 urðu kveikjan að sýningunni: mig langaði að koma þessu ástandi til skila og efnisgera dagdrauma.
Rétt eins og dagdraumarnir verða að verkfæri til að komast inn í hugmyndaferli, reyni ég að sleppa tökunum í vinnuferlinu og láta ferlið ráða för. Ég gæti verið að vinna að verki, búa eitthvað til, fer að sinna öðru, gleymi mér og ferlið tekur nýja stefnu. Eitthvað verður til í ferlinu án þess að ég ætli mér það. Í ferlinu koma líka fram tengingar sem koma sjálfri mér á óvart. Ég er í miðju vinnuferli, sé allt í einu einhvern lit, og verkið fer að leiða mig áfram, minna mig á einhver móment, gullregnið í garðinum hjá ömmu og afa sem ég klifraði í. Uppáhalds tréð mitt. Allt í einu er ferlið búið að draga eitthvað fram í mér og mig langar að vinna meira í þeim anda, endurskapa tilfinningar í gegnum efni. Verkin mín eru þannig mörg hver tengd minningum, stöðum eða ástandi sem ég á með sjálfri mér. Ég reyni ekki markvisst að sækja í og endurskapa þessi móment, það gerist eins og allt í einu í ferlinu: það tekur stjórnina
— Úr samtali Önnu Hrundar Másdóttur við Guðlaugu Míu Eyþórsdóttur
Anna Hrund Másdóttir lærði myndlist við Listaháskóla Íslands, Mountain School of Art og lauk MFA námi frá California Institute of the Arts vorið 2016. Anna hefur tekið virkan þátt í listalífinu hérlendis, tekið þátt í ýmsum verkefnum og sýnt víða, svo sem Listasafni Reykjavíkur, Gerðarsafni, Harbinger og Gallery Port. Auk þess að starfa sem myndlistarmaður er hún meðlimur í Kling & Bang.
Listamaður: Anna Hrund Másdóttir